Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda minnkar

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi minnkar milli ára

Ísland hefur sent inn útreikninga á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri á tímabilinu 1990-2003 til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum minnkaði heildarútstreymi gróður­húsalofttegunda, ef ekki er litið til bindingar kolefnis í gróðri, um 1,2% frá árinu 2002 til 2003. Helstu ástæður lækkunar milli ára er minna útstreymi frá sjávarútvegi og landbúnaði. Útstreymi frá samgöngum, iðnaði og byggingastarfsemi hefur hins vegar aukist milli ára. Árið 2003 var heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi rúmlega 3,5 milljónir tonna.

Skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókunni eru tvíþættar. Annars vegar skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, þ.e. vera innan við 3,6 milljónir tonna koltvíoxíðsígilda árlega að meðaltali á tímabilinu 2008-2012. Í öðru lagi skal koltvíoxíðsútstreymi frá nýrri stóriðju sem stofnað var til eftir árið 1990 og fellur undir sérstaka ákvörðun samningsins ekki vera meira árlega en 1,6 milljónir tonna að meðaltali árin 2008-2012.

Sé staðan metin í ljósi ákvæða Kýótó-bókunarinnar kemur í ljós að útstreymi gróður­húsalofttegunda miðað við almennar losunarheimildir Íslands, en án kolefnisbindingar, hefur dregist saman um 6% frá 1990 til 2003. Samkvæmt Kýótó-bókuninni er ríkjum heimilt að nýta sér kolefnisbindingu í gróðri til lækkunar á útstreymi. Binding í gróðri skiptir miklu, en flókin aðferðafræði við mælingar á bindingu í gróðri veldur nokkurri óvissu um hvernig Ísland nýtir þessa heimild og þess vegna er hún að þessu sinni ekki tekin með í tölunni um samdrátt útstreymis frá 1990. Það er hins vegar ljóst að kolefnisbinding í gróðri mun koma til lækkunar á útstreymi og benda útreikningar til þess að kolefnisbinding, sem fellur undir skilgreiningar Kýótó-bókunarinnar, sé á bilinu 100-200 þúsund tonn á ári (sjá mynd).

Fréttatilkynning nr. 22/2005

Umhverfisráðuneytið

utstreymi grodurhusalofttegunda




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta