EXPO 2005 í Japan - þjóðardagur Íslands 15. júlí 2005
Ein milljón manns hefur skoðað Norræna skálann – Vönduð menningardagskrá á Þjóðardegi Íslands 15. júlí
Heimssýningin EXPO 2005 fer fram í Aichi, Japan, á tímabilinu 25. mars – 25. september 2005. Meginþema hennar er „Viska náttúrunnar".
Þjóðardagur Íslands verður haldinn hátíðlegur föstudaginn 15. júlí nk. Þá verður sérstök áhersla lögð á Ísland og íslenska menningu á heimssýningunni. Íslenskir listamenn koma fram og verður íslensk dagskrá allan daginn.
Þeir sem kynna íslenska menningu þennan dag eru Caput tónlistarhópurinn, myndlistarmaðurinn Halldór Ásgeirsson, Jazz-kvartett Sigurðar Flosasonar ásamt Kristjönu Stefánsdóttur söngkonu og popphljómsveitin Bang Gang með Barða Jóhannsson í broddi fylkingar. Þá verður flutt nýtt viðamikið verk, Bergmál, eftir Ragnhildi Gísladóttur og Sjón í samvinnu við þekktasta slagverksleikara Japans, Stomu Yamash’ta. Verkið var frumflutt á Listahátíð í vor og fékk afar góðar viðtökur. Flytjendur auk Stomu og Ragnhildar verða Sigtryggur Baldursson, Skólakór Kársness og Kammerkór Skálholts. Stjórnendur verða Þórunn Björnsdóttir kórstjóri og Hilmar Örn Agnarsson organisti.
Dagskrá Íslandsdagsins fer fram í 3000 manna tónleikahúsi, EXPO Dome. Dagskráin hefst með opnunarathöfn kl. 11:00 árdegis og stendur síðan allan daginn fram á kvöld. Vinabær Íslands, Chiryu, í grennd við EXPO-svæðið tekur virkan þátt í Íslandsdeginum og heldur auk þess sérstaka íslenska listahátíð 14. – 17. júlí þar sem margir af íslensku listamönnunum koma einnig fram.
Flytjendur menningardagskrárinnar á þjóðardegi Íslands verða alls um 80 talsins.
Þann 15. júlí verða á EXPO einnig sýndir íslensku barnaþættirnir Latibær og Litla lirfan á 20 metra breiðum skjá við 10.000 manna útisvæði.
Heiðursgestur á Íslandsdeginum verður Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og mun hann í ferðinni eiga fundi í Tokyo með japönskum ráðamönnum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra fer fyrir sendinefnd listamannanna og mun nota tækifærið til að heimsækja japanskar mennta- og menningarstofnanir til viðræðna um nánara samstarf.
Norðurlöndin taka sameiginlega þátt í heimssýningunni og eru með einn sýningarskála. Þar eru löndin að mestu kynnt sem eitt svæði og megináhersla lögð á nokkra þætti sem einkenna norræn samfélög, menningu, tækni og atvinnulíf, auk umhverfismála og jákvæðrar ímyndar landanna fyrir ferðamenn.
Brugðið er upp svipmyndum úr lífi og starfi norrænna kvenna og karla á ýmsum aldursskeiðum, þ. á m. segja stuttir kvikmyndakaflar frá Íslendingi á fertugsaldri, Inga Jóhanni Guðmundssyni sem rekur útgerð, og eru jafnframt nokkrir munir sem tengjast fólkinu í sérstökum sýningarskáp. Þrjú myndbönd sýna fjölbreytta íslenska hönnun þeirra Tinnu Gunnarsdóttur og Steinunnar Sigurðardóttur og hönnuðahóps þeirra Aðalsteins Stefánssonar, Hrafnkels Birgissonar og Sesselju Guðmundsdóttur sem starfað hefur undir heitinu "Hanna inc".
Búist er við miklum fjölda fólks á sýninguna þá 6 mánuði sem hún stendur eða um 12 milljón manns, aðallega Japönum og öðrum Asíubúum. Heimssýningin að þessu sinni er því ákjósanlegt tækifæri til að kynna Norðurlönd og norræn efni meðal fólks sem að jafnaði hefur lítið af okkar heimshluta að segja. Þegar hefur ein milljón manns heimsótt sýningarskála Norðurlandanna.
Utanríkisráðuneytið hefur haft forgöngu um undirbúning þátttökunnar af Íslands hálfu, ásamt Útflutningsráði Íslands sem sérstaklega hefur annast þá þætti er snúa að íslenskum fyrirtækjum.
Skipulagningu menningarkynningar á þjóðardegi Íslands er stjórnað af menntamálaráðuneytinu.
Nánari upplýsingar um norrænu þátttökuna má fá á vefsetrinu: www.nordicatexpo2005.dk, en upplýsinar um sýninguna almennt er að finna á: www.expo2005.or.jp.
ATHYGLI FJÖLMIÐLA ER VAKIN Á ÞVÍ AÐ LJÓSMYNDAÞJÓNUSTA VERÐUR Í SKÁLA NORÐURLANDANNA.
Frekari aðstoð og upplýsingar veita Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir í síma 897 1691 og Steingrímur Sigurgeirsson aðstoðarmaður menntamálaráðherra í síma 896 6273.