Afhending Umhverfisverðlauna UMFÍ og Pokasjóðs
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra afhenti í dag Umhverfisverðlaun UMFÍ og Pokasjóðs. Verðlaunin hlaut Blái herinn í Keflavík fyrir brautryðjendastarf við hreinsun í höfnum landsins. Athöfnin fór fram við höfuðstöðvar Bláa hersins, Grófinni 2 í Reykjanesbæ, og við það tækifæri minnti umhverfisráðherra á hið góða starf að umhverfismálum sem Blái herinn hefði unnið á þeim áratug sem liðinn er frá stofnun hans og þær viðurkenningar sem Blái herinn hefði fengið í gegnum tíðina, meðal annars umhverfisverðlaun Reykjanesbæjar og tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, tók við verðlaununum.