Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarráðherrar heims úr röðum kvenna funda í fyrsta sinn í Reykjavík 29. – 30. ágúst 2005

Fyrsti heimsfundur menningarráðherra úr röðum kvenna verður haldinn í Reykjavík dagana 29.-30. ágúst.

Fyrsti heimsfundur menningarráðherra úr röðum kvenna verður haldinn í Reykjavík dagana 29.-30. ágúst. Til fundarins er boðað í tilefni 75 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta í apríl sl. Að fundinum standa íslensk stjórnvöld í samstarfi við Heimsráð kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) en Vigdís var einn stofnenda og fyrsti formaður ráðsins.

Markmið fundarins er að skapa vettvang þar sem ráðherrarnir og alþjóðlegir gestir ræða áskoranir heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Á fundinum verða fjórir meginfyrirlestrar:

  • Kynnt verður skýrslan „Women's Empowerment: Measuring the Global Gender Gap" sem World Economic Forum stóð að en þar er gerður samanburður á menntun, efnahag og völdum kvenna í ýmsum ríkjum heims. Tilkynnt verður síðar um fyrirlesara.
  • Íranska baráttukonan Mahnaz Afkhami ræðir um menningarleg réttindi kvenna. Afkhami var ráðherra í Íran áður en klerkastjórnin komst til valda en hefur verið í útlegð í aldarfjórðung.
  • Dr. Annette Pritchard fjallar um menningu og ferðamennsku. Þar mun hún víkja að því að fáar konur eru við stjórnvölinn í ferðaþjónstu þótt þær séu áberandi í auglýsingum sem eiga að laða að ferðamenn.
  • Asma Khader, fyrrverandi menningarráðherra Jórdaníu, fjallar um áhrif fjölmiðla á lýðræðisþróun og stöðu kvenna í Miðausturlöndum.

Á fundinn koma kvenráðherrar og sérfræðingar hvaðanæva að úr heiminum. Því gefst einstakt tækifæri til að kynna sér sjónarmið þeirra og heyra hverju þær hafa fengið áorkað.

Skrifstofa fundarins verður fréttamönnum innan handar um að ná tali af fundargestum. Nánari upplýsingar er að finna á vef fundarins: http://womenministers.government.is undir fyrirsögninni: Press Room.

Nánari upplýsingar: Elín Þorsteinsdóttir: [email protected]



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum