Ný verkefni í Afganistan
Í lok mánaðarins halda friðargæsluliðar Íslensku friðargæslunnar til þjálfunar í Noregi vegna fyrirhugaðrar þátttöku í starfi endurreisnar- og uppbyggingarsveita á vegum friðargæsluliðs Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Þjálfuninni, sem fer fram hjá norska hernum, lýkur í byrjun september. Að henni lokinni mun fyrsti hópur íslenskra friðargæsluliða fara til Norður–Afganistan. Það verður um miðjan september. Annar hópur fer til starfa í vesturhluta landsins í október. Í hvorum hópi verða átta til níu manns og hver hópur verður að störfum í landinu að jafnaði í fjóra mánuði.
Með þessu framlagi er Ísland að leggja af mörkum við skipulag og framkvæmd endurreisnarstarfs í norðurhluta Afganistan þar sem starfað verður með norskum og finnskum friðargæsluliðum, og í vesturhlutanum í samvinnu við Litháa, Letta og Dani. Í starfi íslensku friðargæsluliðanna felst einkum að þeir fara um og kanna aðstæður í þorpum og sveitum og gera tillögur um úrbætur til viðeigandi hjálparsamtaka og alþjóðastofnana.
Jeppabifreiðar sem hafa verið sérbúnar hér á landi verða notaðar við störf friðargæsluliðanna í Afganistan. Bílarnir eru fjórir og verða fluttir með skipi til Svíþjóðar og ekið þaðan til Norður-Noregs til notkunar við þjálfun friðargæsluliðanna og síðan fluttir flugleiðis til Afganistan.
Fjölmiðlum gefst tækifæri til að taka myndir af bílunum á morgun kl. 10 áður en þeir verða settir um borð í skip Samskipa við Höfðabakka.