Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2005 Matvælaráðuneytið

Nr. 6/2005 - Skipun í embætti forstjóra Landbúnaðarstofnunar

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa Jón Gíslason, kt. 310153-4439, í starf forstjóra Landbúnaðarstofnunar til fimm ára frá og með 1. ágúst n.k..

Jón Gíslason hlaut cand. mag. gráðu frá Háskólanum í Osló árið 1978 með efnafræði og líffræði sem helstu greinar. Útskrifaðist hann sem næringarlífeðlisfræðingur ári síðar og lauk hann cand. real. prófi í næringarfræði hjá sama skóla árið 1982. Á námstíma sínum stundaði hann m.a. rannsóknir við Dýralæknaháskólann í Noregi. Jón hefur víðtæka starfsreynslu að baki og gegndi m.a. starfi forstöðumanns matvælasviðs Hollustuverndar ríkisins á árunum 1993-2000. Á sama tíma var hann staðgengill forstjóra stofnunarinnar. Frá árinu 2000 hefur Jón starfað hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í Brussel, fyrst á vöruviðskiptasviði en hin síðari ár sem aðstoðarframkvæmdastjóri innra markaðssviðs stofnunarinnar. Þar hefur Jón m.a. sinnt eftirliti með innleiðingu löggjafar og opinberu eftirliti í EFTA ríkjunum og borið ábyrgð á málefnum sem varða matvælaöryggi og umhverfismál. Í störfum sínum hefur Jón öðlast víðtæka stjórnunarreynslu og yfirgripsmikla þekkingu á verksviði Landbúnaðarstofnunar.

Eiginkona Jóns er Ástfríður Margrét Sigurðardóttir, matvælafræðingur.

Alls sóttu 23 einstaklingar um embætti forstjóra Landbúnaðarstofnunar. Landbúnaðarstofnun er ný ríkisstofnun, sem mun taka til starfa frá og með 1. janúar 2006 og er henni falin framkvæmd ýmissa eftirlits- og stjórnsýsluverkefna samkvæmt lögum sem talin eru upp í 2. gr. laga nr. 80/2005 um Landbúnaðarstofnun. Mun stofnunin taka við þeim verkefnum sem verið hafa í höndum yfirdýralæknis, veiðimálastjóra, aðfangaeftirlitsins, kjötmatsformanns og plöntueftirlitsins. Að auki mun Landbúnaðarstofnun fara með stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands hafa farið með og varða framleiðslustýringu í landbúnaði, forðagæslu og eftirlit með aðbúnaði búfjár. Höfuðstöðvar Landbúnaðarstofnunar verða á Selfossi.

Í landbúnaðarráðuneytinu,

20. júlí 2005

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum