Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Helstu niðurstöður skattaálagningar árið 2005

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 11/2005

Tölur um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga og þá sem reka fyrirtæki í eigin nafni fyrir árið 2005 liggja nú fyrir. Álagning opinberra gjalda á lögaðila liggur fyrir í lok október. Frekara talnaefni um álagningu skatta á einstaklinga og ákvörðun barna- og vaxtabóta fyrir árið 2005 er að finna á vefsíðu ríkisskattstjóra (www.rsk.is) undir Staðtölur skatta.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2005 var 234.437 og hafði þeim fjölgað um 4.772 einstaklinga, eða 2,1% frá fyrra ári.
  • Gjaldstofn tekjuskatts og útsvars nam 526,8 milljörðum króna og hafði vaxið um 9,0% frá fyrra ári. Framteljendum með tekjur fjölgaði um 1,9% milli ára og gjaldstofninn hækkaði að meðaltali um 7,0 % á mann.
  • Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 145,2 milljörðum króna og hækkar um 12,3% frá fyrra ári. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í almennan og sérstakan tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.
  • Tæplega 158 þúsund framteljendur greiða samtals 67,1 milljarð króna í almennan tekjuskatt. Þetta eru ⅔ hlutar framteljenda. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur vaxið um 8,2% milli ára. Rétt er að benda á að mun meira er um áætlanir á gjaldendur í ár en í fyrra, sem veldur nokkurri umframhækkun á álagningunni. Að áætlunum slepptum hækkar skattgreiðsla á hvern gjaldanda heldur minna, eða um 6,8%. Meðalskatthlutfall almenns tekjuskatts er 12,5% að teknu tilliti til persónuafsláttar og áætlana.
  • Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 69 milljörðum króna og hækkar um 9,5% milli ára. Gjaldendur útsvars eru 226.896, eða nær 97% allra á grunnskrá framteljenda. Álagt útsvar á hvern gjaldanda hækkar um 7,1% milli ára. Meðalútsvar á tekjur síðasta árs nemur 13,1%.
  • Sérstakan tekjuskatt (hátekjuskatt) greiða 17.456 gjaldendur, samtals 1.411 milljónir króna. Þrátt fyrir að skatthlutfallið hafi verið lækkað frá fyrra álagningarári úr 5 í 4% hækkar álagning um 3,9%, og gjaldendum fjölgar um 16,5%.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 7,6 milljörðum króna og hækkar um 17,7% milli ára. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru liðlega 77 þúsund talsins og fjölgar lítillega milli ára. Rúmlega helmingur skattsins er álagning á arðgreiðslur, vexti og leigutekjur, en afgangurinn er álagning á söluhagnað hlutabréfa, en liðlega 11.400 framteljendur telja fram slíkar tekjur.
  • Eignarskattur er nú lagður á í síðasta sinn. Hann nemur alls 2,8 milljörðum króna og hækkar um 30% frá fyrra ári einkum vegna hækkunar á fasteignamati milli ára. Gjaldendum eignarskatts fjölgar um 8,8% og eru þeir 75.600.
  • Framtaldar eignir heimilanna námu tæplega 2.000 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 15,4% frá fyrra ári. Fasteignir eru rúmlega 70% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 16,4% milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði um 837. Skuldir heimilanna námu alls um 760 milljörðum króna í árslok 2004 og höfðu þær vaxið um 15,2% frá fyrra ári. Skuldir vegna íbúðarkaupa jukust heldur minna, eða 12,6%, og námu 508 milljörðum króna. Til samanburðar er framtalið verðmæti fasteigna í eigu einstaklinga 1.364 milljarðar. Hlutfall íbúðarskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis lækkar því lítillega milli ára, en hlutfall heildarskulda á móti heildareignum stendur hins vegar nánast í stað.
  • Barnabætur nema 5 milljörðum króna og eru sem næst óbreyttar milli ára. Þeim sem þeirra njóta fækkar um 2,8%. Vaxtabætur nema 5,2 milljörðum og eru þær óbreyttar milli ára. Framteljendum sem þeirra njóta fækkar um 6,7% og eru þeir um 54 þúsund. Af úthlutuðum vaxta- og barnabótum kemur 5,1 milljarður til útborgunar nú um mánaðarmótin eftir skuldajöfnum á móti ógreiddum sköttum. Til viðbótar verður greidd út ofgreidd staðgreiðsla af tekjum síðasta árs, samtals 2,4 milljarðar króna.
  • Meðal þeirra atriða sem fram koma í upplýsingum Ríkisskattstjóra um álagningu einstaklinga í ár er að greiðslur frá Tryggingastofnun aukast um 9,4%. Þeim sem greiðslur fá fjölgar um 0,8%. Greiðslur atvinnuleysisbóta aukast um 4,3% en þeim sem fá bætur fækkar um 10,8% milli ára.

 

Fjármálaráðuneytinu 28. júlí 2005

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum