Stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2005/2006.
Stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2005/2006.
Í dag hafa verið gefnar út reglugerðir sem lúta að stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2005/2006. Í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2005/2006 eru tilgreindar aflaheimildir í einstökum tegundum, sem úthlutað verður á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerð um veiðar dagabáta er kveðið á um fyrirkomulag þeirra báta sem stunda veiðar í sóknardagakerfi en eftir næsta fiskveiðiár verða öll fiskiskip komin í aflamarkskerfið.
Vegna hruns í skel- og innfjarðarækjuveiðum hefur verið ákveðið að samtals komi 3.096 þorskígildislestir til skiptingar milli rækju- og skelbáta á fiskveiðiárinu 2005/2006. Á yfirstandandi fiskveiðiári fengu þessi fiskiskip rétt um 500 lestum meira í bætur.
Einnig hefur ráðuneytið gefið út reglugerð sem lýtur að úthlutun 3000 lesta aflaheimilda úr svonefndum jöfnunarsjóði og reglugerð um úthlutun 250 lesta af ýsu, 250 lesta af steinbít og 75 lesta af ufsa til krókaaflamarksbáta. Eru þessar reglugerðir óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári, að öðru leyti en því að bætur til krókaaflamarksbáta hafa lækkað um helming frá fyrra ári samkvæmt lögum, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2003. Þá hafa aflaheimildir sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar lækkað um helming eða úr 750 þorskígildum í 375 þorskígildislestir.
Í reglugerð um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006 kemur fram að ráðherra ráðstafar allt að 4.010 þorskígildislestum til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða skerðingar á heildaraflaheimildum. Í reglugerðinni er kveðið á um hvaða viðmið skuli ráða skiptingu byggðakvótans milli einstakra byggðarlaga og eru þær reglur í grundvallaratriðum óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári.
Auglýst var þann 7. júní s.l. eftir umsóknum frá sveitarstjórnum og var umsóknarfrestur til 7. júlí. Sóttu 37 sveitarstjórnir um byggðakvóta. Unnið hefur verið innan ráðuneytisins við að fara yfir umsóknir á grundvelli þeirra reglna sem lýst er hér að ofan. Niðurstaðan er sú að 32 sveitarfélög eiga kost á byggðakvóta vegna 41 byggðarlags.
Loks hefur verið gefin út reglugerð um línuívilnun á næsta fiskveiðiári og er þar ákveðið að línuívilnum í ýsu og steinbít skiptist á tímabil eins og er í þorski á þessu fiskveiðiári.
Unnt verður að sjá ofangreindar reglugerðir á heimasíðu (á forsíðu og undir reglugerðir nýjustu) ráðuneytisins í dag.
Reglugerð um veiðar í atvinnuskyni
Reglugerð um sérstaka úthlutun skv. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða
Reglugerð um úthlutun byggðakvóta 2005/2006
Reglugerð um úthlutun um sérstakra aflaheimilda til krókaaflamarksbáta 2005/2006
Reglugerð um veiðar dagabáta 2005
Sjávarútvegsráðuneytinu, 4. ágúst 2005.