Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningur um aðstoð við uppbyggingu Síldarminjasafnsins á Siglufirði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði, undirrituðu í dag samning milli menntamálaráðuneytisins og Félags áhugamanna um minjasafn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði, undirrituðu í dag samning milli menntamálaráðuneytisins og Félags áhugamanna um minjasafn, f.h. Síldarminjasafnsins á Siglufirði, um aðstoð við uppbyggingu Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Árið 2003 var hafin bygging bátaskemmu fyrir safnið, sem nánar tiltekið er 1050 fermetra sýningarskáli sem kallast bátahúsið. Þann 29. júní 2004 vígði Hákon krónprins Noregs bátahúsið við hátíðlega athöfn. Í bátahúsinu hefur 10 skipum og bátum verið stillt upp á milli bryggja og með fjölda annarra sögulegra minja er endursköpuð stemning síldarhafnarinnar frá 1950. Mun menntamálaráðuneytið beita sér fyrir 15.000.000 kr. framlagi til Síldarminjasafnsins á Siglufirði í fjárlögum 2006 og 2007 og 10.000.000 kr. framlagi í fjárlögum 2008, eða samtals 40.000.000. kr.

Síldarminjasafnið á Siglufirði var opnað á árinu 1994 og hefur þar verið unnið mikið og metnaðarfullt starf við uppbyggingu safnsins. Til marks um ágæti safnsins hlaut það önnur aðalverðlaun Evrópuráðs safna (European Museum Forum) 2004, Micheletti-verðlaunin, sem veitt eru fyrir framúrskarandi starf á sviði vísinda, iðnaðar eða tækni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum