Námsheimsókn til Japans
Japönsk stjórnvöld bjóða þrjá styrki til námsheimsókna til Japans til þess að kynnast menntakerfi, menningu og þjóðfélagsmálum. Styrkirnir eru ætlaðir framhaldsskólakennurum og kennurum í 8. - 10. bekk grunnskólans. Heimsóknin stendur í 14 daga og er gert ráð fyrir rúmlega 200 þátttakendum frá um 80 löndum. Lögð er áhersla á að allir, sem koma að heimsókninni, bæði gestir og heimamenn, séu vel mælandi á ensku. Námskeiðið, sem um ræðir, stendur frá 16. nóvember - 29. nóvember næstkomandi.
Styrkurinn tekur til ferðakostnaðar og uppihalds í Japan.
Umsækjendur þurfa að uppfylla annað hvort eftirfarandi skilyrða:
A. Vera kennari sem hefur tekið þátt í þróun kennslu eða námskrárgerð á sviði félagsfræða, þ.e. sögu, landafræði, stjórnmálafræði, hagfræði eða alþjóðamála.
B. Vera stjórnandi í menntakerfinu sem hefur forgöngu um námsskrárþróun eða samningu kennslubóka á sviði félagsfræða.
Umsækjendur þurfa að hafa kennt í 5 ár og vera yngri en 50 ára.
Umsóknareyðublöð um styrkina má fá í menntamálaráðuneytinu og á vef ráðuneytisins. Nánari upplýsingar gefur skrifstofa menntamála í síma 545 9500.
Umsóknarfrestur er til 31. ágúst 2005.