Fundur orkumálaráðherra á Grænlandi
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðaráðherra sat fund orkumálaráðherra Norðurlanda sem fram fór í Narsarsuaq á Grænlandi 8.-10. ágúst sl. Á fundinum var samþykkt samstarfsáætlun á sviði orkumála fyrir árin 2006 til 2009. Í áætluninni kemur fram að ráðherrarnir munu vinna að því að auka samkeppni, skilvirkni og öryggi á raforkumarkaði til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki. Jafnframt munu þeir beita sér fyrir aðgerðum til að auka enn frekar hlut endurnýjanlegra orkulinda, en nú þegar skera Norðurlöndin sig úr hvað varðar háan hlut þeirra. Þá í er áætluninni lögð áhersla á mikilvægi norræns samstarfs á sviði orkumála á alþjóðavettvangi en ráðherrarnir eiga nú þegar gott samstarf um orkumál á vettvangi Evrópusambandsins og EES-ríkja.
Á fundinum ræddu orkumálaráðherrarnir einnig stöðu og horfur á olíumörkuðum. Fram kom að almennt er talið að verulegar líkur séu á því að sú hækkun sem orðið hefur á olíuverði á undanförnum misserum muni haldast til langframa. Það mun m.a. þýða að olíuvinnsla sem áður hefur ekki verið talin vænleg verður nú fjárhagslega hagkvæm.
Einnig átti Valgerður Sverrisdóttir tvíhliða fund með Johan Lund Olsen, orkumálaráðherra Grænlands. Við það tækifæri þakkaði Johan þann stuðning sem ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að veita til jarðhitarannsókna á Disco-eyju á Vesturströnd Grænlands. Íslenskir vísindamenn munu nú í ágústmánuði rannsaka jarðhita á eyjunni og eru niðurstöður þeirra rannsókna væntanlegar í byrjun næsta árs. Þá greindi grænlenski ráðherrann frá því á fundinum að á Grænlandi sé vitað um jarðhita í einhverjum mæli á a.m.k. 200 stöðum. Grænlendingar binda miklar vonir við útkomu rannsóknanna á Disco-eyju og ræddu ráðherrarnir um möguleika á enn frekara samstarfi á sviði jarðhitamála. Grænlendingar binda vonir við að í framtíðinni verði hægt að nýta jarðhita til húshitunar líkt og gert er hér á landi.
Þá kom fram í máli grænlenska ráðherrans að hann muni nú í haust leggja fyrir landsþingið áætlun um frekari uppbyggingu vatnsaflsvirkjana á Grænlandi. Greindi hann í því sambandi frá því að unnið væri að byggingu vatnsaflsvirkjunar á Suður-Grænlandi með þátttöku íslenskra verktaka.
Á fundi ráðherranna var einnig kynnt staða olíuleitarmála á Grænlandi. Ráðherrarnir voru sammála um að skiptast á upplýsingum um þessi mál hvað varðaði löndin tvö. Jafnframt ræddu ráðherrarnir þau sjónarmið sem hafa þarf í huga við setningu reglna um olíuleit en á því sviði hafa Grænlendingar unnið mikið starf á undanförnum árum.