Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2005 Matvælaráðuneytið

Heimsókn matvælaráðherra Danmerkur Hans Christian Schmidt

Fréttatilkynning

Árni M. Mathiesen og Hans Christian Schmidt matvælaráðherra Danmerkur hafa í gær og í morgun átt fundi um sjávarútvegsmál. Ráðherrarnir ræddu um ástand fiskistofnanna á hafsvæðum þjóðanna og stöðu greinarinnar innan landanna. Í því samhengi var einnig rætt um niðurgreiðslur í sjávarútvegi og að þjóðirnar myndu vinna að afnámi þeirra innan WTO. Ráðherrarnir voru sammála um að taka þyrfti sérstaklega á ólöglegum fiskveiðum (IUU) á alþjóðlegum hafsvæðum og voru sammála um að samhæfa krafta sína á alþjóðlegum vettvangi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir veiðar af þessu tagi.

 

Hans Cristian gerði einnig grein fyrir afstöðu Danmerkur í tengslum við mótun stefnu Evrópusambandsins um málefni hafsins. Taldi hann mikilvægt að Íslendingar gætu með einhverjum hætti komið að þeirri vinnu.

 

Ráðherrarnir fóru líka yfir stöðu mála er snúa að kvótasetningu kolmunna, veiðum á norsk-íslensku síldinni og loðnuveiðum í íslensku lögsögunni. Þá gerði Árni sérstaklega grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda í Svalbarðamálinu en Evrópusambandið hefur einnig mikilla hagsmuna að gæta þar.

 

Ráðherrarnir voru sammála um að ekki kæmi til greina að beita alþjóðlegri fiskveiðistjórnun á miðum einstakra ríkja heldur væri svæðisbundin stjórnun mun líklegri til þess að skila árangri.

 

Að lokum kynnti Árni íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir danska ráðherranum.

 

 

Hans og Árni 2005 

 

 Sjávarútvegsráðuneytið 12. ágúst 2005

 

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum