Nýr formaður stjórnar ÞSSÍ
Í dag skipaði utanríkisráðherra Sigurð Helgason, fyrrverandi forstjóra Icelandair, formann stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) til fjögurra ára. Sigurður tekur við af Birni Inga Hrafnssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem að eigin ósk hefur látið af því starfi.
ÞSSÍ er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Hún var stofnuð með lögum árið 1981 og er ætlað að vinna að tvíhliða samstarfi Íslands við þróunarlönd. Áhersla er lögð á samvinnu við þau lönd þar sem lífskjörin eru hvað lökust og er aðstoð einkum veitt á þeim sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérstakri þekkingu og reynslu.