Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2005 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Alþjóðlegur verðsamanburður á símaþjónustu

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt niðurstöður verðsamanburðar á gjaldskrám fyrir heimasíma, almenningssíma og upplýsingaþjónustu 118.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur það hlutverk að sjá til þess að alþjónusta sé veitt á eðlilegu og viðráðanlegu verði og fylgjast með því að verðþróun sé í samræmi við kaupmátt í landinu. Í samræmi við hlutverk sitt gerði stofnunin verðsamanburð á gjaldskrám fyrir talsímaþjónustu, símtölum úr almenningssímum og símtölum í 118 hér á landi og í viðmiðunarríkjum.

Niðurstöður stofnunarinnar gefa til kynna að verð fyrir þessa þjónustu hér á landi sé innan eðlilegra marka. Til dæmis er gjaldskrá fyrir almenningssíma töluvert lægri hér á landi en í Noregi og Svíþjóð og gildir þá einu hvort hringt er úr almenningssíma í fastanetssíma eða farsíma. Þá kemur fram að einnar mínútu símtal í upplýsingaþjónustuna 118 er ódýrari hér á landi en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, en meira en helmingi dýrari en á Írlandi og Grikklandi.

Í samanburði við OECD ríkin 32 er Ísland með sjöttu lægstu gjöldin fyrir eftirágreidda áskrift fyrir farsímaþjónustu og með fjórðu lægstu gjöldin fyrir fyrirframgreidd kort. Samanburður við Norðurlöndin er óhagstæðari Íslandi en einungis Noregur er með hærri gjöld fyrir farsímaþjónustu. Árlegur kostnaður fyrir meðalnotkun heimilissíma er hins vegar lægstur á Íslandi.

Í tilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun segir að í ljósi þessarar niðurstöðu sjái stofnunin ekki ástæðu til að ákveða hámarksverð fyrir talsímaþjónustu, símtöl úr almenningssímum eða símtöl í 118, eins og heimild er til í 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga.

Sjá nánari niðurstöður á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta