Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2005 Matvælaráðuneytið

Skipan nefndar um stefnumörkun á sviði byggðaþróunar og samkeppnishæfni Austurlands.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 21/2005

Skipan nefndar um stefnumörkun

á sviði byggðaþróunar og samkeppnishæfni Austurlands

 

Iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur ákveðið að skipa verkefnisstjórn til að annast stefnumörkun í byggðamálum Austurlands og til að treysta samkeppnishæfni og vöxt svæðisins. Óskað er eftir að í vinnu sinni taki verkefnisstjórnin mið af skýrslum sem nýlega voru unnar fyrir ráðuneytið og varða Eyjafjörð og Vestfirði. Gert er ráð fyrir að skilað verði skýrslu til ráðherra innan árs, þar sem fram komi m.a. hvaða kostir komi helst til greina við að treysta vöxt og samkeppnishæfni svæðisins. Með tillögum fylgi áætlun um aðgerðir þar sem fram komi markmið þeirra, forsendur, ábyrgð á framkvæmd, þátttakendur, ásamt tíma- og kostnaðaráætlun.

Markmið starfsins er að stuðla að auknum hagvexti á svæðinu, fjölga atvinnutækifærum og treysta byggðakjarna svo þeir geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki sínu að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu. Í starfinu verður tekið tillit til þarfa jaðarsvæða á Austurlandi s.s. Hornafjarðarsvæðinu.

Í verkefnisstjórn verður lögð áhersla á samstarf einkaaðila og opinberra aðila víðsvegar að á Austurlandi, en slíkt samstarf er afar mikilvægt þegar treysta þarf samkeppnishæfni og hagþróun á viðkomandi svæðum. Samstarf er mikilvægt þar sem ábyrgð á byggðamálum er í vaxandi mæli að færast til svæðanna sjálfra. Þeir sem skipaðir voru í verkefnisstjórnina eru: Baldur Pétursson, deildarstjóri, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem jafnframt gegnir formennsku, Elín Magnúsdóttir formaður bæjarráðs Höfn, Albert Eymundsson bæjarstjóri Höfn, Björn Hafþór Guðmundsson sveitarstjóri Djúpavogi, Eiríkur B. Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraði, Guðný Björg Hauksdóttir bæjarfulltrúi Fjarðabyggð, Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri Vopnafirði, Þorvaldur Jóhannsson framkvæmdastjóri SSA, Hrönn Pétursdóttir, starfsmanna- og kynningarstjóri ALCOA, Óskar Garðarsson, fjármálastjóri Eskju hf, Eskifirði, Halldór V. Kristjánsson, sérfræðingur, Byggðastofnun, Gísli Vilhjálmsson, hótelstjóri, Höfn. Með nefndinni munu einnig starfa Stefán Stefánsson og Kristbjörg Jónasdóttir frá Atvinnuþróunarstofu Austurlands.

Áherslur í starfinu eru um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á byggðakjarna og klasa í atvinnulífi. Höfð verði hliðsjón af sambærilegum áherslum innanlands og víða erlendis þar sem lögð er áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Sveitarfélagið Hornafjörður ásamt Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi standa fyrir opnum fundi á Hótel Höfn, miðvikudaginn 31. ágúst, kl 12:00 – 14:00 þar sem fjallað verður um byggðaþróun og samkeppnishæfni á Austurlandi. Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir.

Reykjavík, 31. ágúst 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta