Hert ákvæði um heimilisofbeldi
Fréttatilkynning
29/2005
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur ákveðið að fylgja fram tillögum refsiréttarnefndar um að breyta hegningarlögum, til að unnt verið að bregðast harðar við heimilisofbeldi. Kom þetta fram í ræðu ráðherrans í dag á norrænni ráðstefnu um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, sem haldin er hér á landi að frumkvæði Stígamóta. Þá skýrði ráðherrann frá því, að dómsmálaráðuneytið og refsiréttarnefnd hefðu fjallað um verklagsreglur ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi og væru þær nú komnar til fullnaðarafgreiðslu. Sagðist ráðherrann gera sér góðar vonir um, að þessar reglur skiluðu góðum árangri og markvissum rannsóknum lögreglu á heimilisofbeldisverkum.
Dómsmálaráðherra mun, á grundvelli álitsgerðar refsiréttarnefndar um heimilisofbeldi, leggja til á Alþingi að við almenn hegningarlög bætist sérstök refsiþyngingarástæða, þar sem náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa gert árásina grófari. Þá mun ráðherra leggja til að ákvæði 191 gr. almennra hegningarlaga verði gerð skýrari, meðal annars vegna ákvæða stjórnarskrár, sem krefjast þess, að refsiákvæði séu skýr, svo að þeim verði beitt.
Í ræðu sinni sagði ráðherra um þessar tillögur:
„Ég hef ákveðið að gera báðar þessar tillögur að mínum og mun fela nefndinni að fara yfir þessa grein hegningarlaganna í því skyni, að skýra hana betur í ljósi refsiheimilda. Mér þykir, eins og áður er sagt, eðlilegt að litið verði sérstaklega til náinna tengsla geranda og brotaþola, og þannig sýni löggjafinn, og væntanlegar dómstólar í framhaldinu, að hann líti það sérstaklega alvarlegum augum, ef maður, karl eða kona, vinnur sínum nánustu mein. Með því er ekki aðeins unnið hið hefðbundna mein, sem hlýst af ofbeldinu, heldur einnig brugðist því trausti, sem hver maður vill geta borið til sinna nánustu."
Sjá ræðu Björn Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra.
( www.domsmalaraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/1221 )
Sjá álit refsiréttarnefndar.
( www.domsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/skyrslur_til_radherra/nr/1220 )
Reykjavík 2. september 2005