Hoppa yfir valmynd
5. september 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lykiltölur um menntamál í Evrópulöndum

Út er komið ritið Key Data on Education in Europe 2005.

Út er komið ritið Key Data on Education in Europe 2005. Þar kemur m.a. fram að Evrópulönd verja stórum hluta vergrar landsframleiðslu sinnar til menntamála eða að meðaltali 5,1% árið 2001. Hlutfallið á Íslandi var umtalsvert hærra sama ár eða 6,5%. Á árunum 1995 – 2000 jukust framlög til menntamála almennt í Evrópu. Útgjöld til menntamála sem hlutfall af ríkisútgjöldum voru á bilinu 8-17%. Hlutfallið var 14,0% á Íslandi árið 2000 og 14,7% árið 2001. Meðaltal aðildarlanda Evrópusambandsins var 10,8% árið 2001.

Ung börn í Evrópulöndum sækja í vaxandi mæli leikskóla eða sambærilegt skólaform þótt skólasókn á þessu skólastigi sé ekki skylda. Þátttaka fjögurra ára barna 2001-2002 var rúm 87% að meðaltali í ESB löndunum. Á Íslandi sóttu þá rúm 93% fjögurra ára barna leikskóla.

Námsgreinar í skyldunámi í Evrópulöndum eru almennt þær sömu en tíminn sem varið er til kennslu þeirra er mismikill. Þessi munur minnkar þó á unglingastigi þegar vaxandi áhersla er lögð á náttúrufræðigreinar, samfélagsgreinar og erlend tungumál. Í sumum löndum hafa skólar talsverðan sveigjanleika í nýtingu skólatímans. Nokkur lönd, þ.m.t. Ísland, hafa tiltölulega hátt hlutfall óbundins kennslutíma á unglingastigi.

Yfir 75% fólks á aldrinum 20-24 ára í ESB löndunum hafa formlega lokið námi á framhaldsskólastigi. Í þremur löndum, Möltu, Portúgal og Íslandi, er hlutfall fólks á aldrinum 20-24 sem lokið hefur framhaldsskóla innan við 60%. Ísland er í hópi landa, s.s. Eistlands, Grikklands, Ítalíu og Portúgals, þar sem hærra hlutfall nemenda á framhaldsskólastigi er í almennu bóklegu námi en starfsnámi. Meðaltal ESB landa er tæp 63% í starfsnámi en á Íslandi 37%. Í Evrópu er algengt að um 25% fólks á aldrinum 20-24 ára hafi lokið starfsnámi en á Íslandi er hlutfallið innan við 10%. Svipuð staða er hjá Belgum, Grikkjum, Spánverjum, Írum og Ítölum.

Fjöldi háskólastúdenta í aðildarlöndum ESB hefur farið stöðugt vaxandi á undanförnum árum og var yfir 16 milljónir árið 2002. Á tímabilinu 1998-2002 var árlegur vöxtur 2% í ESB löndunum þrátt fyrir nokkra fækkun í aldurshópnum 20-29 ára. Ísland er eitt þeirra landa þar sem aukningin var hlutfallslega mest á þessu tímabili eða 43%. Meðaltal ESB landanna 25 var 16%.

Í sumum Evrópulöndum hefur orðið mikil breyting á hlutfalli þeirra sem lokið hafa háskólaprófi frá yngri kynslóðum til þeirra eldri. Á Íslandi eru tvöfalt fleiri í aldurshópnum 30-34 ára með háskólamenntun en meðal þeirra sem eru eldri en 60 ára. Ísland er eitt þeirra landa sem hafa hátt hlutfall háskólamenntaðra á aldrinum 30–34 ára eða yfir 30%. Í nokkrum löndum er þetta hlutfall um 15%.

Í flestum aðildarlöndum ESB brautskráðust yfir 25% háskólastúdenta úr félagsvísindagreinum, lögfræði og viðskipta- og hagfræðigreinum árið 2002. Á Íslandi var þetta hlutfall þá tæp 37%. Hlutfall þeirra sem útskrifuðust með háskólamenntun í raunvísinda- og tæknigreinum miðað við hverja 1.000 íbúa á aldrinum 20 – 29 ára jókst í flestum löndum Evrópu á tímabilinu 1998 til 2002 og var í nokkrum löndum yfir 50%. Ísland er eitt níu landa þar sem aukningin á fjölda útskrifaðra í raunvísinda- og tæknigreinum á þessu tímabili var meiri en 10%.

Menntunarstig kvenna í Evrópulöndum fer hækkandi, sérstaklega vegna stöðugt aukinnar þátttöku í háskólanámi. Fleiri konur en karlar ljúka námi úr framhaldsskóla og konur eru nú fleiri í háskólanámi en karlar. Ísland er nefnt sem dæmi um land þar sem a.m.k. þrjár konur á hverja tvo karla hafa lokið framhaldsskólanámi. Staða kvenna er hins vegar lakari á öllum sviðum þegar kemur að ráðningu í störf og faglegri ábyrgð. Konur með sömu menntun og karlar eru oftar atvinnulausar. Þó gildir enn að atvinnuleysi er minna meðal fólks með háskólamenntun en þeirra sem hafa minni menntun, óháð kyni.

Yfirvöld menntamála leggja mikla áherslu á gæði menntunar. Til að meta gæði skólakerfa er gjarnan stuðst við mat á skólastarfi og árangur nemenda á samræmdum prófum. Innra og ytra mat á skólastarfi er nú notað í flestum Evrópulöndum. Birting niðurstaðna úr slíku mati er ekki algeng. Ísland er eitt fárra landa þar sem niðurstöður ytra mats eru birtar skipulega. Á síðustu árum hefur þeim löndum farið fjölgandi sem komið hafa á samræmdum prófum í einhverju formi á grunn- og framhaldsskólastigi til að hafa eftirlit með skólakerfinu.

Í meirihluta Evrópulandanna er námsmat við lok skyldunáms byggt a.m.k. að hluta á samræmdum prófum. Aðeins á Íslandi, í Belgíu, Tékklandi, Póllandi og Slóvakíu er símat ásamt skólaprófum notað sem námsmat við lok framhaldsskóla (upplýsingar miðast við skólaárið 2002-2003). Svíþjóð og Spánn nota eingöngu símat sem námsmat. Hin löndin 23 nota utanaðkomandi námsmat, þ.e. samræmd próf í einhverju formi.

Í yngri bekkjum á skyldunámsstigi var fjöldi nemenda á hvern kennara árið 2002 alls staðar undir 20 og nær 10 í nokkrum landanna. Fjöldinn var 10-11 nemendur á Ítalíu, í Ungverjalandi, Portúgal og Noregi. Á Íslandi voru 11,4 nemendur á hvern kennara en árið 1998 voru þeir 14,1.

Key Data on Education in Europe 2005 er gefið út af stjórnardeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem fer með mennta- og menningarmál. Um er að ræða sjöttu útgáfu ritsins. Í ritinu eru birtar samanburðarhæfar upplýsingar um menntamál í 30 Evrópulöndum. Ritið er unnið af Eurydice, upplýsinganeti um menntamál í Evrópu, í samvinnu við Eurostat. Viðmiðunarár er að jafnaði skólaárið 2002-2003 en í allmörgum tilvikum er miðað við skólaárið 2001-2002.

Key Data on Education in Europe 2005 má nálgast á vefsíðu Eurydice: http://www.eurydice.org. Fréttatilkynningu Eurydice um útgáfu ritsins er að finna á slóðinni http://www.eurydice.org/Doc_intermediaires/indicators/en/frameset_key_data.html



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum