Nýtt hátæknisjúkrahús verður byggt
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 18 milljörðum króna til að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús. Heilbrigðismálaráðherra segir ákvörðunina þýða tímamót í heilbrigðisþjónustu við landsmenn alla. Tilkynnt var um ákvörðun ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í dag en söluandvirði Símans stendur undir þessari miklu fjárfestingu. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að söluandvirði símans verði notað til að bæta þjónustuna í heilbrigðiskerfi landsmanna og því er þessi ákvörðun tekin. 18 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landsspítalalóðinni á árunum 2008 - 2012. “Með þessu framlagi er unnt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja aðstöðu fyrir slysa- og bráðaþjónustu og koma upp aðstöðu fyrir rannsóknarstarfsemi.”, eins og segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, lýsir mikilli ánægju með ákvörðun ríkisstjórnarinnar og segir að þáttaskil séu framundan í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn alla.
Sjá nánar frétt forsætisráðuneytisins: http://www3.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/1953