Hugmyndir um kaup á nýju varðskipi og flugvél kynntar
Fréttatilkynning
31/2005
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti í dag um borð í varðskipinu Ægi hugmyndir sínar og Landhelgisgæslunnar um kaup á nýju varðskipi og flugvél fyrir Landhelgisgæsluna. Þá voru endurbætur þær sem nýlega var lokið við á Ægi kynntar.
Á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar hafa fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis unnið að mótun tillagna um kaup eða leigu á fjölnota varðskipi og flugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Verkefninu hefur miðað vel og liggur nú þarfalýsing Landhelgisgæslunnar að mestu fyrir.
Kröfur til varðskips eru þær helstar að mati Landhelgisgæslunnar, að það geti sinnt öryggisgæslu og eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga, mengunarvörnum, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrlu á flugi og brugðist við í þágu almannavarna hvar sem er á landinu. Skipið verður einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, nýst til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt björgunarstörfum hverskonar. Dráttarafl skipsins þarf að taka mið af stóraukinni umferð stórra farþega- og flutningaskipa um efnahagslögsöguna og við strendur landsins.
Flugvél Landhelgisgæslunnar þarf að búa yfir nútíma greiningar- og samskiptatækni og hafa nægjanlegt flugþol til að sinna eftirliti í stórri efnahagslögsögu, þar sem m.a. þarf að fylgjast með ferðum skipa, mengun og hafís. Þá þarf hún þol til að taka þátt í björgunar- og leitaraðgerðum og geta sinnt vettvangsstjórn, sjúkraflugi og farþegaflugi við sérstök opinber tilefni. Flugvélin þarf einnig að geta flogið utan vegna alþjóðlegra björgunarstarfa, friðargæslu og mannúðarmála.
Við þarfagreininguna hefur verið horft til þeirra skipa sem nágrannaþjóðir okkar hafa aflað sér til þess að sinna sambærilegum verkefnum á sambærilegu hafsvæði. Hér er einkum átt við skip Norðmanna og Dana sem sinna störfum við Noreg, Grænland og Færeyjar. Það er mat Landhelgisgæslunnar að skip sambærilegt nýlegu skipi Norðmanna og væntanlegu eftirlitsskipi Dana uppfylli þarfir Landhelgisgæslu Íslands.
Kostnaðaráætlun vegna nýs varðskips og flugvélar fyrir Landhelgisgæslu Íslands er 3,5 til 4,5 milljarðar. Þegar öll gögn liggja fyrir og nánari vitneskja um kostnað verður lokatillaga um fjármögnun lögð fyrir ríkisstjórn, en sérhæfður tækjabúnaður kann að verða tekinn á leigu vegna þess, hve ört nýjungar koma til sögunnar.
Reykjavík 8. september 2005