Fjárstuðningur til Bandaríkjanna vegna náttúruhamfara
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að veita Bandaríkjamönnum fjárhagsaðstoð til enduruppbyggingar í þeim fylkjum sem verst urðu úti í fellibylnum Katrínu. Ríkisstjórnin samþykkti að verja hálfri milljón dala, jafnvirði um 31.000.000 íslenskra króna, í þetta viðamikla verkefni.
Sérstök fjársöfnun til stuðnings fórnarlömbum fellibylsins Katrínar er nú hafin og stýra tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, George Bush eldri og Bill Clinton, söfnuninni. Það fé sem þar safnast fer í langtíma enduruppbyggingu í þeim þremur fylkjum sem verst urðu úti í náttúruhamförunum; Alabama, Louisiana og Missisippi.
Reykjavík, 13. september 2005.