Hoppa yfir valmynd
14. september 2005 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðstöfun á söluandvirði Símans

Ríkissjóði barst í dag greiðsla frá Skipti ehf. fyrir Landssíma Íslands hf. að fjárhæð 66,7 milljarðar króna. Þar af voru 34,5 milljarðar króna greiddir í íslenskum krónum en 32,2 milljarðar í erlendri mynt. Með þessu lýkur stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar og jafnframt hefur ríkið alfarið dregið sig út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að ráðstöfun söluandvirðis Símans taki mið af meginstefnumiðum ríkisstjórnarinnar eins og þeim er lýst í stefnuyfirlýsingu hennar frá 23. maí 2003, en þar segir meðal annars:

„Að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með því skapast skilyrði til enn frekari vaxtar þjóðartekna og aukins kaupmáttar almennings. Jafnframt er stöðugleiki í efnahagsmálum forsenda aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.”

Með þetta að leiðarljósi hefur ríkisstjórnin ákveðið að þeim hluta söluandvirðisins sem greiddur er í erlendri mynt, eða 32,2 milljörðum króna, verði varið til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs á árinu 2005.

Ríkisstjórnin telur jafnframt að verja eigi verulegum hluta söluandvirðisins á næstu árum til þess að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, styrkja rannsóknar- og þróunarstarf og örva þannig frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu, treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu með bættum samgöngum og jöfnun aðstöðu landsmanna hvað varðar aðgengi að fjarskiptum.

Með hliðsjón af þessu hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja fram frumvarp á Alþingi nú í haustbyrjun sem gerir ráð fyrir að tekjum af sölu Símans verði varið á eftirfarandi hátt:

  • 15 milljörðum króna verður varið á árunum 2007 - 2010 til framkvæmda í vegamálum, m.a. til byggingar Sundabrautar, fyrst yfir í Grafarvog og síðan, með tilstilli einkaframkvæmdar, um Álfsnes upp á Kjalarnes. Þá verður að mestu lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar og framkvæmdum við helstu þjóðvegi á landinu. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldar á tímabilinu.
  • 18 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landsspítalalóðinni á árunum 2008 - 2012. Með þessu framlagi er unnt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja aðstöðu fyrir slysa- og bráðaþjónustu og koma upp aðstöðu fyrir rannsóknarstarfsemi.
  • 3 milljörðum króna verður varið til kaupa á varðskipi og flugvél til Landhelgisgæslunnar sem sinna á öryggisgæslu og eftirliti í efnahagslögsögu Íslands ofl.
  • 2,5 milljörðum króna verður varið til að styrkja stöðu Nýsköpunarsjóðs. Með þessu er Nýsköpunarsjóði gert kleift að stofna sameignarsjóði með þátttöku lífeyrissjóðanna auk þess sem stofnfé hans er aukið sem mun örva uppbyggingu sprotafyrirtækja.
  • 2,5 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar fjarskiptaþjónustu í samræmi við gildandi fjarskiptaáætlun. Með þess verður unnt að ljúka farsímavæðingu á þjóðvegi nr. 1 og efla stórlega aðgang landsbyggðarinnar að háhraðatengingum.
  • 1 milljarði króna verður varið til þess að hefja nú þegar uppbyggingu búsetuúrræða fyrir geðfatlaða.
  • 1 milljarði króna verður varið til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands og 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar árið 2011.

Þessar ákvarðanir verða nánar útfærðar í frumvarpi sem verður lagt fram af forsætisráðherra í upphafi Alþingis í haust. Meðfylgjandi er greinargerð þar sem ítarlega er farið yfir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á söluandvirði Símans.

Í Reykjavík, 06. september 2005


Greinargerð um ráðstöfun á söluandvirði Símans

1. Greiðsla erlendra skulda ríkissjóðs/Inneign í Seðlabanka
Það er grundvallaratriði að haga ráðstöfun sölutekna Símans þannig að hún valdi ekki aukinni þenslu í efnahagslífinu. Með þetta að leiðarljósi hefur ríkisstjórnin ákveðið að þeim hluta söluandvirðisins sem greiddur var í erlendri mynt, eða 32,2 milljörðum króna, verði varið til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs á árinu 2005. Þessi ráðstöfun dregur jafnframt úr vaxtagreiðslum ríkissjóðs og stuðlar þannig að meiri afgangi á ríkissjóði en ella. Afgangur söluteknanna verður að mestu lagður inn á reikning í Seðlabankanum fram til ársins 2007 sem mun skila ríkissjóði umtalsverðum vaxtatekjum og koma í veg fyrir þensluáhrif á sama tíma og stóriðjuframkvæmdirnar eru í hámarki.

2. 15 milljarðar í auknar vegaframkvæmdir 2007-2010
Á árunum 2007-2010 verður 15 milljörðum króna varið til framkvæmda í vegamálum. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldað á þessu tímabili. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja þessu fé til eftirfarandi framkvæmda:
Sundabraut – 8.000 m.kr.

Í gildandi vegáætlun fyrir árin 2005–2008 er gert ráð fyrir samtals 360 m.kr. fjárveitingum í gerð vegar frá Sæbraut að Hallsvegi í Grafarvogi, svokallaðri Sundabraut. Verk þetta hefur lengi verið í undirbúningi. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum fyrir þennan vegarkafla liggur fyrir en hann var kærður til umhverfisráðherra sem væntanlega fellir úrskurð varðandi kærurnar nú á næstunni. Kostnaður þessa áfanga hefur verið metinn á bilinu 7½–14½ milljarður króna eftir því hvaða leið og útfærsla er valin. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 8 milljörðum króna til þessa verks. Þessi ákvörðun tekur mið af því að svonefnd innri leið verði valin í samræmi við álit Vegagerðarinnar. Ráðgert er að hefja framkvæmdir um mitt ár 2007 og stefnt að verklokum 2010.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar felur jafnframt í sér áframhaldandi lagningu Sundabrautar upp í Geldinganes og um Álfsnes upp á Kjalarnes. Undirbúningi verði þannig háttað að unnt verði að ráðast í framkvæmdirnar samhliða árin 2009 til 2010 og síðari áfanga, þ.e. um Álfsnes upp á Kjalarnes, verði lokið árið 2011. Áætlaður kostnaður við síðari áfanga verksins er á bilinu 6-8 milljarðar króna og er fyrirhugað að hann verði boðinn út og fjármagnaður í einkaframkvæmd.


Breikkun Reykjanesbrautar – 1.600 m.kr.
Á síðasta ári var lokið við fyrsta áfanga breikkunar Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar úr tveimur í fjórar akreinar. Þessi fyrsti áfangi er um 12 km. frá Hvassahrauni suður á Strandaheiði. Því sem eftir er af verkinu er unnt að skipta í þrjá áfanga, þ.e. Hafnarfjörður (Kaldárselsvegur) – Krýsuvíkurvegur, Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun og Strandaheiði – Reykjanesbær (Víknavegur). Í gildandi vegáætlun eru fjárveitingar á árunum 2006–2008, samtals 983 m.kr. og hefur verið við það miðað að sú upphæð verði notuð í síðast talda kaflann. Kostnaðaráætlun fyrir það verk er um 2.000 m.kr. þannig að um 1.000 m.kr. af þeim 1.600 m.kr. sem hér eru ætlaðar til Reykjanesbrautar þarf til að ljúka kaflanum. Í vegáætluninni er einnig gert ráð fyrir fjárveitingu til að gera mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar en með 600 m.kr. viðbót verður unnt að ráðast í breikkun vegarins milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Við það er miðað að þessum tveimur áföngum af þremur sem eftir eru verði lokið árið 2009.


Gerð gatnamóta við Nesbraut – 600 m.kr.
Í gildandi vegáætlun er 100 m.kr. fjárveiting til þessa verkefnis á árinu 2008. Kostnaðaráætlun er um 600 m.kr. og mikil þörf á að flýta þessu verkefni vegna umferðarþunga. Hér er gert ráð fyrir að verja 600 m.kr. til verksins árið 2007. Fjármagni sem hugsanlega losnar við það á vegáætlun 2008 verður ráðstafað til annarra verkefna við næstu endurskoðun vegáætlunarinnar.
Vestfjarðavegur – 700 m.kr.

Mjög mikið er ógert á Vestfjarðavegi; annars vegar á leiðinni milli Bjarkarlundar og Flókalundar og hins vegar frá Flókalundi til Dýrafjarðar auk þess sem eftir er að endurbyggja veginn um Svínadal í Dölum. Í vegáætlun eru samtals 1.083 m.kr. til þessara verkefna á árunum 2005–2008. Ákveðið er að ráðstafa 700 m.kr. til að flýta framkvæmdum á þessari leið. Að auki er gert ráð fyrir að við næstu endurskoðun vegáætlunar verði aukið enn við fjárveitingar til verksins á árunum 2009 og 2010.

Tröllatunguvegur um Arnkötludal – 800 m.kr.
Að undanförnu hafa staðið yfir athuganir á gerð nýs vegar milli Vestfjarðavegar í Reykhólasveit og Djúpvegar í Steingrímsfirði í stað núverandi vegarslóða á Tröllatunguheiði. Þessi leið styttir vegalengdina milli Hólmavíkur og Reykjavíkur um 40 km miðað við núverandi leið um Strandir. Kostnaðaráætlun fyrir verkið er 900 m.kr. og á vegáætlun eru 100 m.kr. árið 2008. Ákveðið er að ráðstafa 800 m.kr. til verksins þannig að unnt verði að ljúka þessari vegagerð árið 2008.
Þverárfjallsvegur – 300 m.kr.

Lokið er gerð vegarins frá Skagastrandarvegi að Laxárdalsvegi en eftir er að endurbyggja veginn þaðan til Sauðárkróks ásamt brúargerð á Gönguskarðsá. Kostnaðaráætlun fyrir það verk er tæplega 600 m.kr. og fjárveitingar á vegáætlun á árunum 2005 – 2007 eru 285 m.kr. Með 300 m.kr. viðbótarráðstöfun til þessa verkefnis er unnt að ljúka því árið 2008.

Norðausturvegur – 1.500 m.kr.
Mikið er ógert í Norðausturvegi úr Öxarfirði að Hringvegi á Vopnafjarðarheiði. Þeim 1.500 m.kr. sem hér er ráðstafað til vegarins verður annars vegar varið til vegatengingar milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar með tengingu til Raufarhafnar og hins vegar í veginn frá Vopnafirði að slitlagsenda við Brunahvammsháls. Áætlaður kostnaður við fyrr nefnda verkefnið er samtals 2.000 m.kr. og fjárveitingar á vegáætlun til þess á árunum 2005–2008 nema rúmlega 1.100 m.kr. Áætlaður kostnaður við síðar nefnda verkefnið er 1.250–1.700 m.kr. eftir því hvaða útfærsla er valin en Vegagerðin hefur mælt með að valin verði svonefnd Vesturárdalsleið sem er áætlað að kosti 1.300 m.kr. Fjárveitingar á vegáætlun 2007 og 2008 til þessa verkefnis eru samtals 239 m.kr. Til þess að ljúka báðum þessum verkefnum þurfa því að koma um 500 m.kr. viðbótarfjárveitingu á vegáætlun á árunum 2009 og 2010.
Hringvegur um Hornafjarðarfljót – 800 m.kr.

Á árinu 2008 er 166 m.kr. fjárveiting á vegáætlun til byggingar nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót. Kostnaðaráætlun fyrir þá framkvæmd ásamt vegtengingum er um 1.200 m.kr. Hér er ráðstafað 800 m.kr. til verksins og þarf því að koma 200–300 m.kr. viðbótarfjárveiting til verksins á vegáætlun 2009 til að ljúka því það ár.

Bræðratunguvegur um Hvítá - 300 m.kr.
Hér er um nýja vegtengingu yfir Hvítá í Árnessýslu að ræða. Tenging þessi, sem er mikið hagsmunamál fyrir nærliggjandi byggðir, hefur verið lengi á döfinni. Áætlaður kostnaður er um 800 m.kr. og á vegáætlun 2007 og 2008 eru 186 m.kr. til verksins. Að viðbættum þeim 300 m.kr. sem hér er ráðstafað til verksins þurfa að koma um 300 m.kr. á vegáætlun á árinu 2009 til að ljúka verkinu það ár.
Suðurstrandarvegur – 400 m.kr.
Nú er unnið að gerð fyrsta áfanga endurbyggingar Suðurstrandarvegar en það er kaflinn um Festarfjall austan Grindavíkur. Í haust verður næsti áfangi boðinn út sem er stuttur kafli næst Þorlákshöfn. Þær 400 m.kr. sem hér er ráðstafað til verksins eru ætlaðar til næsta áfanga, frá Þorlákshöfn og vestur fyrir Hlíðarvatn.

3. Uppbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss - 18.000 m.kr.
Uppbygging heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur miðast við að hún verði á heimsmælikvarða. Óumdeilt er að vel hefur tekist til í þeirri viðleitni. Næsta stóra verkefnið á sviði heilbrigðismála er bygging nýs hátæknisjúkrahúss sem áformað er að reisa á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Undirbúningur þeirra framkvæmda er nokkuð á veg kominn. Dómnefnd um skipulagstillögur í alþjóðlegri samkeppni fyrir Hringbrautarsvæðið mun skila áliti sínu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í byrjun október. Þá hefst deiliskipulagsvinna með það fyrir augum m.a. að svæðið nýtist sem best, háskólabyggingar og sjúkrahús tengist, aðgengi og samgöngur verði greiðar og gætt verði fyllstu rekstrarhagkvæmni.
Heildarkostnaður við uppbyggingu hátæknisjúkrahússins er áætlaður rúmlega 40 milljarðar króna, heildarbyggingamagn nýbygginga skv. frumathugun er 85 þús.fm. og endurgera þarf um 26 þús.fm. af eldra húsnæði.
Með 18 milljarða króna fjárframlagi af söluandvirði Símans er unnt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja slysa- og bráðaþjónustu sem er mjög brýnt verkefni og reisa hús fyrir rannsóknir. Gert er ráð fyrir að undirbúningur standi fram á árið 2008 en þá geta framkvæmdir væntanlega hafist. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar leiðir til bættrar þjónustu og aukinnar hagkvæmni sem ekki er unnt að ná með öðrum hætti.

4. Varðskip/flugvél Landhelgisgæslunnar – 3.000 m.kr.
Ríkisstjórnin veitti í mars s.l. dómsmálaráðherra heimild til að undirbúa kaup eða leigu á fjölnota varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands sem sinna á öryggisgæslu, eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga, mengunarvörnum og afgreiðslu eldsneytis til björgunarþyrla á flugi. Varðskipið á þannig að geta brugðist við í þágu almannavarna hvar sem er á landinu, styðja viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn og nýtast til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu og björgunarstarfa hverskonar. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 2.000 m.kr. árið 2008 til þessa verkefnis.
Ríkisstjórnin veitti ennfremur í mars s.l. dómsmálaráðherra heimild til að undirbúa kaup eða leigu á eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Flugvélin skal búin nútíma greiningar- og samskiptatækni og hafa nægjanlegt flugþol til að sinna margvíslegu eftirliti í efnahagslögsögu Íslendinga þar sem meðal annars þarf að fylgjast með skipaferðum, mengun og hafís. Þá skal vélin hafa þol til að taka þátt í björgunar- og leitaraðgerðum, sinna vettvangsstjórn og sjúkraflugi og að henni verði flogið utan vegna alþjóðlegra björgunarstarfa, friðargæslu og mannúðarmála. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 1.000 m.kr. til þessa verkefnis á árinu 2007.

5. Efling nýsköpunar í íslensku atvinnulífi – 2.500 m.kr.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á getu þjóðarinnar til nýsköpunar og endurnýjunar í atvinnulífinu. Þar segir meðal annars um markmið stjórnarsamstarfsins:

"Að styrkja rannsókna- og þróunarstarf, m.a. með því að auðvelda fyrirtækjum að leggja fé til þess og örva þannig frumkvöðlastarfsemi. Í samræmi við ný lög um Vísinda- og tækniráð verði unnið að markvissri uppbyggingu rannsóknastarfsemi og nýsköpun á sem flestum sviðum."

Á grundvelli stefnumörkunar Vísinda- og tækniráðs hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir ríflega tvöföldun úthlutunarfjár opinberra samkeppnissjóða á kjörtímabilinu. Á árinu 2005 er varið allt að 1,3 milljörðum króna til þessara sjóða.

Stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í ársbyrjun 1998 var ætlað að fylgja eftir álitlegum rannsóknaniðurstöðum áfram yfir í sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Sjóðurinn hefur hins vegar ekki lengur bolmagn til nýfjárfestinga en hefur beint kröftum sínum að því að verja þær fjárfestingar sem hann hefur þegar ráðist í. Frá upphafi hefur sjóðurinn fjárfest í rúmlega 100 fyrirtækjum og á nú eignarhlut í rúmlega 60 fyrirtækjum, þar af eru 45 starfandi.
Með lögum nr. 92/2004 fékk sjóðurinn heimildir til að stofna til nýrra sameignarsjóða með öðrum fjárfestum og að semja við aðra aðila um vistun þeirra eða tiltekna þjónustu þeim til handa, með samþykki ráðherra. Þessar heimildir sjóðsins opna á samstarf með innlendum jafnt sem erlendum fjárfestum.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs um allt að 2.500 m.kr. Þar af fái sjóðurinn 1.000 m.kr. á árinu 2005 sem varið verði til sprotafyrirtækja í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar. Jafnframt fær Nýsköpunarsjóður allt að 1.500 m.kr. viðbótarframlag á árunum 2007-2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun sameignarsjóðs Nýsköpunarsjóðs, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í sprotafyrirtækjum enda nemi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði amk. 50%.

6. Fjarskiptasjóður – 2.500 m.kr.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja 2.500 m.kr. til uppbyggingar á sviði fjarskiptamála er í samræmi við um fjarskiptaáætlun sem skilgreinir aðkomu og markmið stjórnvalda á þessu sviði til næstu ára. Með henni er stefnt að því að auka samkeppnishæfni Íslands og stuðla að framþróun atvinnulífsins. Meginmarkmiðin eru annars vegar stóraukin uppbygging GSM senda á hringveginum, helstu stofnvegum og á fjölförnum ferðamannastöðum. Hins vegar verður auðvelduð dreifing stafræns sjónvarps um gervihnött, með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur að leiðarljósi og öfluga uppbygging á háhraðatengingum á þeim svæðum sem fjarskiptafyrirtækin hafa ekki treyst sér til að þjóna á markaðslegum forsendum hingað til.
Í þessu skyni verður settur á fót sérstakur fjarskiptasjóður sem stuðli að þessari uppbyggingu. Fyrsti áfangi fer af stað á árinu 2005 og verður varið til hans 1.000 m.kr. Eftirstöðvarnar, 1.500 m.kr., koma síðan með jöfnum greiðslum árin 2007-2009. Farin verður útboðsleið til að ná þessum markmiðum. Fjarskiptasjóður mun bjóða út skýrt skilgreinda þjónustu á afmörkuðum svæðum með það fyrir augum að fjarskiptafyrirtækin bjóði sem besta þjónustu með sem lægstum tilkostnaði.

7. Framkvæmdir vegna geðfatlaðra – 1.000 m.kr.
Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur verið ákveðið að verja 1.000 m.kr. til þess að hefja nú þegar uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða. Gert er ráð fyrir kaupum eða byggingu á húsnæði og uppbyggingu dagvistunar eða endurhæfingarúrræða fyrir geðfatlaða um land allt á fimm ára tímabili, frá árinu 2006 til ársins 2010. Markmiðið er að eyða biðlistum og koma í veg fyrir að geðfatlaðir búi við ófullnægjandi aðstæður.
Heildarfjárþörf vegna uppbyggingar á fimm árum er 1.500 m.kr. í stofnkostnað. Þar af er gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður fatlaðra verji 500 m.kr. til verkefnisins til viðbótar þeim 1.000 m.kr. sem ráðstafað verður af söluandvirði Símans.

8. Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun – 1.000 m.kr.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita sérstakt 1.000 m.kr. framlag til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun sem rísi við hlið Þjóðarbókhlöðunnar við Suðurgötu. Með þessu vill ríkisstjórnin heiðra að árið 2011 verða 100 ár liðin frá stofnun Háskóla Íslands og tvö hundruð ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.

Menntamálaráðherra mun á komandi Alþingi flytja stjórnarfrumvarp um Stofnun Íslenskra fræða - Árnastofnun sem verður til við samruna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Örnefna-stofnunar, Orðabókar háskólans, Íslenskrar málstöðvar og Stofnunar Sigurðar Nordal.
Stofnunin verði sjálfstæð háskólastofnun með sérstakri stjórn og fjárhag og sinni þeim verkefnum sem þessar stofnanir hafa sinnt hver í sínu lagi. Við samruna þeirra skapast skilyrði til þess að leggja aukna rækt við menningararf þjóðarinnar og íslenska tungu.
Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun mun áfram varðveita og sjá um handrit þau og skjalagögn sem til Íslands hafa verið flutt frá Danmörku samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í Danmörku í vörslu og umsjón Háskóla Íslands. Í hinu nýja húsnæði mun gefast færi á að búa handritunum umgjörð við hæfi þar sem skilyrði til varðveislu þeirra verða hin ákjósanlegustu og gestum og gangandi gefst betra færi á að skoða og fræðast um þau.



1. Vegaframkvæmdir 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 Samtals
Sundabraut 1.500 2.500 2.000 2.000 8.000
Reykjanesbraut 700 600 300 1.600
Gatnamót við Nesbraut 600 600
Vestfjarðarvegur 300 200 200 700
Arnkötludalur 400 400 800
Þverárfjallsvegur 200 100 300
Norðausturvegur 300 400 400 400 1.500
Hornafjarðarfljót 400 400 800
Bræðratunguvegur 100 200 300
Suðurstrandarvegur 200 200 400
Samtals til vegaframkvæmda 0 0 3.700 5.000 3.700 2.600 0 0 15.000
2. Hátæknisjúkrahús 300 200 1.500 4.000 4.000 4.000 4.000 18.000
3. Varðskip/flugvél LHG 1.000 2.000 3.000
4. Nýsköpunarsjóður 1.000 500 500 500 2.500
5. Fjarskiptasjóður 1.000 500 500 500 2.500
6. Framkvæmdir vegna geðfatlaðra 200 200 300 300 1.000
7. Hús fyrir Háskóla Íslands 300 300 400 1.000
Samtals 2.500 0 6.100 10.100 9.300 7.000 4.000 4.000 43.000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta