Forsætisráðherra ávarpar leiðtogafund
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, flutti í dag ávarp á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York. Fundurinn er haldinn á þeim tímamótum að 60 ár eru frá stofnun samtakanna og fimm ár eru liðin frá því ríki heims settu sér þúsaldarmarkmiðin í þróunarmálum. Markmiðið með fundinum var að gera allsherjar endurbætur á starfsemi samtakanna í þágu öryggis, friðar og þróunar og hafa leiðtogarnir náð samkomulagi um mikilvægar endurbætur og breytingar.
Forsætisráðherra sagði m.a. að á næsta ári yrðu 60 ár liðin frá aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunnum. Á þeim tíma hafi það verið afar mikilvægt fyrir nýlega sjálfstæða þjóð að gerast aðili að alþjóðasamtökum sem höfðu það markmið að tryggja frið og öryggi í samskiptum þjóðanna. Hann bætti við að það væri ekki nóg að tryggja góð á samskipti milli landa, það væri ekki síður mikilvægt að tryggja að stjórnvöld virði mannréttindi eigin borgara. Það væri því ánægjulegt, á þessum mikilvægu tímamótum, að leggja nú sérstaka áherslu á þær grundvallarhugmyndir stofnsáttmála samtakanna.
Forsætisráðherra lagði sérstaka áherslu á stöðu þróunarríkja og stofnun mannréttindaráðs og friðarnefndar. Hann fordæmdi hryðjuverk og sagði að það væri skylda aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að gera alþjóðasamning gegn hryðjuverkum fyrir lok yfirstandandi allsherjarþings samtakanna. Hann ítrekaði þá afstöðu sína að reynslan hefði sýnt að breyta þyrfti samsetningu ríkja í öryggisráðinu og lagði áherslu á að ljúka því verki fyrir árslok.
Á morgun föstudag tekur forsætisráðherra þátt í hringborðsumræðum leiðtoga um niðurstöður fundarins og næstu skref.
Í New York, 15. september 2005