Hoppa yfir valmynd
16. september 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Allt að 2,4 milljarðar króna til sameiningar sveitarfélaga

Í tengslum við átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins og í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 17. september 2004 og tillögur tekjustofnanefndar frá mars 2005, verður allt að 2.400 milljónum króna varið til sameiningarframlaga á árunum 2005 til 2009 í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á grundvelli úthlutunarreglna sjóðsins.

Á grundvelli viljayfirlýsingarinnar hefur sjóðnum þannig verið tryggt viðbótarfjármagn til að styðja myndarlega við sameiningar sveitarfélaga á næstu árum, bæði hvað varðar undirbúning sameiningarkosninga og ekki síst við uppbyggingu nýs sveitarfélags. Í raun má segja að hér sé um einstakt tækifæri að ræða þar sem nýsameinuð sveitarfélög fá aðgang að mun meira fjármagni en áður hefur verið til að byggja upp þjónustu og stjórnsýslu í nýju sveitarfélagi.

Framlögin greiðast á grundvelli reglna nr.295/2003 með síðari breytingum. Í reglunum má m.a. finna heimildir til stuðnings við:

Kostnað sveitarfélaga í aðdraganda sameiningarkosninga:

Hér er eingöngu um greiðslur til samstarfsnefnda sveitarfélaga um sameiningu að ræða. Framlag er greitt á grundvelli sérstakra vinnureglna og er ætlað að mæta eðlilegum kostnaði við könnun á hagkvæmni sameiningar, kynningu á sameiningartillögu og framkvæmd atkvæðagreiðslu. Heimild er til greiðslu framlags þótt undirbúningsvinna leiði ekki til sameiningar. (Vinnureglur )

Framkvæmd sameiningar

Þar með talið framlag vegna sameiningar á bókhaldi sveitarfélaganna: 300.000 kr. fyrir fyrstu tvö sveitarfélögin og síðan 100.000 kr. fyrir hvert sveitarfélag til viðbótar.

Jöfnun á fjárhagsstöðu sveitarfélaga (Skuldajöfnunarframlög)

Markmið með úthlutun skuldajöfnunarframlags er að sveitarfélög séu rekstrarhæf í kjölfar sameiningar. Útreikningur framlags fer fram fyrir hvert og eitt sveitarfélag, sem að sameiningunni stendur, á grundvelli ársreiknings fyrir næstliðið fjárhagsár. Reiknist sveitarfélag út með þörf fyrir sérstakt framlag til skuldajöfnunar kemur framlagið til greiðslu á fjórum árum með jöfnum greiðslur í fyrsta sinn á sameiningarári.

Óskert tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlög

Á sameiningarári skerðast tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlög ekki. Auk þess er nýtt ákvæði komið í reglurnar sem heimilar sjóðnum að veita sérstakt framlag í 4 ár frá sameiningarári að telja verði skerðing á tekjujöfnunar- og útgjaldajöfnunarframlagi í kjölfar sameiningar. Með þessu sérstaka framlagi er verið að tryggja að sveitarfélög haldi samtals óbreyttum tekju- og útgjaldajöfnunarframlögum í fjögur ár eftir sameiningu.

Launakostnað framkvæmdastjóra

Heimild er til staðar fyrir sjóðinn að taka þátt í launakostnaði framkvæmdastjóra í fjögur ár eftir sameiningu ef ekki hefur verið starfandi framkvæmdastjóri í sameinuðu sveitarfélögunum. Á þetta sérstaklega við þegar mjög fámenn sveitarfélög sameinast.

Þróun stjórnsýslu og þátttaka í stofnkostnaði

Hér er einnig um ný heimildarákvæði að ræða. Annars vegar er um að ræða ákvæði er heimilar aðkomu sjóðsins að framkvæmdum við grunnskóla- og leikskólamannvirki sem taldar eru nauðsynlegar til endurskipulagningar á skólahaldi í kjölfar sameiningar. Hins vegar er um að ræða ákvæði er heimilar sjóðnum að koma að nauðsynlegri þróun á stjórnsýslu í nýju sveitarfélagi í allt að fjögur ár eftir sameiningu.

Til viðbótar er rétt að benda á heimildarákvæði í 4. tölulið, A-hluta, 3. gr. reglugerðar nr. 351/2002 er fjallar um almenn jöfnunarframlög. Leggi sveitarfélag niður skóla og nemendur hans eru færðir í annan eða aðra skóla geta sveitarfélög sótt um að skólar séu reiknaðir út eins og var fyrir breytingu. Fallist ráðgjafarnefnd á slíkt erindi skal ákvörðunin gilda í fimm ár.

Samstarfsnefndir og nýsameinuð sveitarfélög geta með öðrum orðum sótt um að fá ýmiss konar stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og því er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir reglunum. Reglurnar og skýringar með þeim má nálgast með því að velja viðkomandi tengla hér að ofan, og á vef Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og á vefsíðu eflingar sveitarstjórnarstigsins.

Sjá nánar: Aðkoma Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að sameiningu sveitarfélaga

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum