Hoppa yfir valmynd
23. september 2005 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins

Góðir fundarmenn!

Íslenska sjávarútvegssýningin sem haldin er þriðja hvert ár í Kópavogi er nú nýlega afstaðin. Sýningin er mjög umfangsmikil og setur alltaf sterkan svip á þjóðfélagið og sækja hana nánast allir sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi auk þess sem hún verður sífellt alþjóðlegri eftir því sem árin líða. Sjávarútvegsráðuneytið hefur verið að tengjast sýningunni sterkari böndum undanfarin ár og skipulagt starf sitt að hluta til í kringum hana. Í ár var ráðuneytið ásamt stofnunum þess með sérstakan bás á sýningunni. Mæltist það vel fyrir þar sem þetta var ákveðið tækifæri fyrir þá sem starfa í greininni til þess að koma skoðunum sínum á framfæri við starfsfólk ráðuneytisins og stofnana þess.

 

Á ráðstefnu um aukið virði sjávarfangs sem haldin var á vegum ráðuneytisins í tengslum við sýninguna mátti sjá hvernig auka má á öllum stigum verðmæti þess afla sem að landi berst, frá því að hann er dreginn úr sjó þar til hann er kominn á disk neytenda. Fyrirlesarar voru bæði íslenskir og erlendir. Sérstaka athygli vakti fyrirlestur fulltrúa frá frönsku verslunarkeðjunni Carrefour, Bruno Correard, þar sem hann lýsti því yfir að stjórnendur fyrirtækisins teldu íslenska fiskveiðistjórnun líklega þá bestu í heimi. Í vikunni skýrði Morgunblaðið svo frá blaðamannafundi sem Carrefour hélt í París í vikunni í þeim tilgangi að kynna sérstakt markaðsátak í sölu sjávarafurða sem aflað er af miðum þar sem sjálfbærar veiðar eru lagðar til grundvallar. Skýrði fulltrúi Carrefour frá því að fyrirtækið liti á það sem skyldu sína sem næst stærstu verslunarkeðju í heiminum og jafnframt þeirrar stærstu í Evrópu að upplýsa neytendur um orsakir minnkandi framboðs á fiskmeti en um leið að útvega fisk sem veiddur væri á grundvelli skynsamlegrar fiskveiðistefnu. "Þar er Ísland efst á blaði" svo vitnað sé beint í orð fulltrúa Carrefour.

 

Af þessu má sjá að langtíma nýtingarstefna okkar er ekki aðeins að koma okkur til góða á þann veg að við getum nýtt auðlindina til framtíðar heldur er fiskveiðistjórnunarkerfið orðið mikilvægt í að auka virði sjávarfangs. Fiskveiðistjórnunin er  með öðrum orðum æ mikilvægari í markaðssetningu íslenskra sjávarafurða.

 

Aukið virði sjávarfangs er eitt af megin verkefnum sjávarútvegsráðuneytisins.  AVS verkefnið svokallaða hefur nú verið í gangi í vel á þriðja ár og er ljóst þegar horft er til allra þeirra umsókna og styrkja sem þegar hafa verið veittir að hér er um mikla lyftistöng að ræða fyrir sjávarútveginn. Nú þegar hafa nokkur verkefni náð að sanna sig í því að skila auknum tekjum í þjóðarbúið. Sjávarútvegsráðuneytið leggur mikið upp úr því að ýta enn frekar undir að fyrirtæki í sjávarútvegi geti haldið áfram á þessari braut og er Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins mikilvæg í því samhengi.

 

Verðlagsstofa skiptaverðs tók til starfa árið 1998 og er hlutverk hennar að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri við þá. Verðlagsstofa sem staðsett á Akureyri hefur notið þess að starfa í tengslum við þann öfluga sjávarútveg sem rekinn er á Eyjafjarðarsvæðinu auk þess sem stofnunin hefur verið í nokkru samstarfi við Háskólann á Akureyri. Á þeim árum sem stofnunin hefur verið við lýði hefur verið að byggjast upp þekking innan hennar sem ráðuneytið hefur í auknum mæli verið að nýta sér. Má þar nefna úttekt á samkeppnishæfni sjávarútvegsins sem jafnframt er unnið í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Tilgangur verkefnisins er að leggja mat á það hver staða greinarinnar er í samanburði við önnur lönd til skemmri og lengri tíma. Þá er því ætlað að varpa ljósi á þau atriði sem mestu máli skipta til þess að sjávarútvegur öðlist aukið samkeppnis forskot og um leið hvernig samkeppni sjávarútvegsins birtist gagnvart öðrum greinum matvæla- og fóðuriðnaðarins.

 

Ég hef í ljósi sífellt víðtækari reynslu og kunnáttu innan Verðlagsstofu lagt grunn að því að útvíkka með formlegum hætti starfsemi stofnunarinnar. Nýtt verkefni sem Verðlagsstofa mun kljást við er umsjón með samræmdri gagnaveitu um vistkerfi hafsins. Umræða um málefni hafsins hefur farið hratt vaxandi á alþjóða vettvangi og sífellt fleiri aðilar koma að þeirri umræðu og hafa mótandi áhrif á hana. Nauðsynlegt er að þessir aðilar geti aflað sér réttra upplýsinga með auðveldum hætti. Ráðuneytið hefur því um nokkurt skeið haldið úti vefnum  fisheries.is. Sjávarútvegsráðuneytið mun nú  útvíkka þá nálgun og  hefur því  hrundið af stað undirbúningsvinnu  að gerð og uppsetningu samræmdrar gagnaveitu um vistkerfi hafsins við Ísland, nýtingu lifandi auðlinda hafsins og heilnæmi sjávarafurða.

 

Eins og áður hefur komið fram á fundum með ykkur þá leggur sjávarútvegsráðuneytið mikið upp úr því að tryggja öryggi útflutningstekna. Íslenskar sjávarafurðir verða ætíð að njóta mikillar viðurkenningar erlendis og íslenskt sjávarfang að standast allar hugsanlegar kröfur og staðla sem nú eru í gildi og kunna að verða settir á um gæði og innihald þess. Öflug upplýsingasöfnun og upplýsingaveita getur komið í veg fyrir skyndilegan samdrátt í útflutningstekjum okkar sem gætu komið til vegna nýrra viðmiða varðandi innflutning sjávarafurða til annarra landa. Unnið er að frekari rannsóknum hjá Rf sem ætlað er að tryggja öryggi útflutningstekna og verður það eitt af forgangsverkefnum stofnunarinnar að bæta við og viðhalda þeim mælingum sem þegar hafa farið fram.

 

Eitt af stefnumiðum sjávarútvegsráðuneytisins er að  einfalda starfsumhverfi sjávarútvegsins og skoða hvort hægt sé að minnka álögur, einfalda og samhæfa ýmsa þjónustu og eftirlit sem ríkið innir af hendi í þeim með það að leiðarljósi að lækka rekstrakostnað og gera kerfið skilvirkara. Í þessum tilgangi er að störfum nefnd sem þegar hefur skilað af sér áfangaáliti og hefur nokkrum tillögum hennar þegar verið hrint í framkvæmd. Mikilvægt er að allt stjórnskipulag ríkisins sé sem einfaldast. Í því skyni er nú unnið að því að sameina og samræma matvælarannsóknir á vegum ríkisins undir eina stofnun. Jafnframt er unnið að því að samræma og sameina þær stofnanir sem nú vinna að matvælaeftirliti meðal annars svo hægt sé að lækka kostnað fyrirtækjanna við það.

 

Menntun tengd sjávarútvegi hefur verið að taka nokkrum breytingum á undanförnum árum. Ein sú veigamesta er sameining Stýrimannaskólans og Vélskólans við stofnun Fjöltækniskóla Íslands. Í grunninn skiptist skólinn í 5 svið; skipstjórnarsvið, vélstjórnarsvið, tæknisvið, sjávarútvegssvið og endurmenntunarsvið. Ég tel að  skólinn eigi almennt eftir að efla menntun í sjávarútvegi og vekja áhuga fleiri á greininni. Á hinn bóginn hefur menntun í fiskvinnslu   farið aftur þar sem enginn fiskvinnsluskóli er starfræktur hér á landi.

 

Kröfur opinberra aðila og kaupenda fisks eru oft á tíðum býsna flóknar og yfirgripsmiklar. Þegar farið er með skipulegum hætti yfir þær athugasemdir sem gerðar eru af þessum aðilum má í flestum tilfellum rekja þær til þess að ekki er fylgst nægilega vel með öllu framleiðsluferlinu og útaf standa þættir sem auðveldlega eiga að geta verið í lagi. Bendir margt til að skortur á menntun og menntunarmöguleikum skýri þetta að nokkru leyti. Sjávarútvegsráðuneytið telur að símenntun og endurmenntun sé öllum greinum nauðsynleg. Ráðuneytið hefur því staðið fyrir grunnnámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk sem meðal annars taka til meðferðar sjávarafla. Nú hefur verið ákveðið að leggja enn ríkari áherslu á sí- og endurmenntun með skipulagningu nýtta námsskeiða og hefur KEA lýst því yfir að fyrirtækið hafi áhuga á því að koma að því máli. Þá mun Rannsóknastofnuni fiskiðnaðarins vera mikilvægur samstarfsaðili. Á námsskeiðunum verður lögð áhersla á að mennta millistjórnendur í sjávarútvegsfyrirtækjum. Námsskeiðsundirbúningur og framkvæmd verður á Akureyri og verður boðið upp á fyrstu námskeiðin strax á næsta ári.

 

Í ráðherratíð minni hef ég lagt upp úr því að víkka áherslur sjávarútvegsráðuneytisins. Það er eðlilegt að á meðan við vorum að koma á og þróa kvótakerfið að megin áherslu ráðuneytisins skyldu vera á veiðarnar sem slíkar. Hins vegar hefur okkur blessunarlega tekist að gera kerfið heildstætt og koma því í fastar skorður. Það hefur gefið ákveðið svigrúm til þess að snúa sér að öðrum málum. Eins og hér er að framan rakið þá eru verkefnin mörg og ólík. Upplýsingaöldin hefur breytt áherslum neytenda mikið og í því liggja víða ný tækifæri fyrir okkur. Þessar breyttu áherslur hafa gert starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins sífellt mikilvægari. Öflug upplýsingagjöf og vöruþróun ásamt trúverðugu fiskveiðistjórnunarkerfi eru sífellt mikilvægari þættir til  að halda stöðu okkar sem ein öflugasta sjávarútvegsþjóð heimsins. Um leið og ég óska Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins til hamingju með 40 ára starfsafmæli sitt vil ég jafnframt óska stofnuninni alls hins besta í framtíðinni. Er það von mín að sú stefna sem ég hef rekið megi verða til þess að gera framlag hennar jafnvel enn mikilvægara en það hefur verið.

 

Góðir fundarmenn!

 

Starf stjórnarskrárnefndar undir forystu Jóns Kristjánssonar hefur verið talsvert til umfjöllunar að undanförnu sérstaklega vegna umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur og málskotsrétt forseta Íslands. Minna hefur farið fyrir umræðu um það verkefni nefndarinnar að skoða hugsanleg ákvæði um þjóðareign á auðlindum en umræða um þetta efni tengist umræðu um 1.grein fiskveiðistjórnunarlaganna um sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar. Vilji hefur víða verið fyrir því að styrkja þetta ákvæði með að fella það inn í stjórnarskrána. Þetta er ekki auðvelt verkefni sérstaklega vegna þess að jafnræðis verður að sjálfsögðu að gæta á milli auðlinda en í dag er lagaákvæðum mjög misjafnlega farið hvað auðlindir varðar sbr. virkjanaréttindi. Það er ekki bara orkan í fallvötnum og jarðhiti, kaldavatnsréttindi, malartaka og nýting rafsegulbylgja sem koma til skoðunar heldur einnig aðrar lifandi auðlindir en nytjastofnar sem nýttar eru í dag eða kunna að verða nýttar. Má þar til dæmis nefna lax- og silungsveiði, dúntekju, eggja- og fuglatekju og jafnvel skotveiði. Í dag teljast veiðiréttindi í ám og vötnum til eigna landeiganda en í sjó teldist lax- og silungsveiði hugsanlega sameign þjóðarinnar sbr. það að laxveiði í sjó er bönnuð með lögum. Úr þessu er ekki einfalt að leysa þó hugsanlega sé það mögulegt.

 

Þegar talað er um að styrkja sameignarákvæði 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna verður að spyrja hvort það verði á kostnað einhvers eða einhverra? Hugsanlegt er ef ekkert er að gert að það verði á kostnað þeirra sem hafa nýtingaréttinn en jafnframt að það geti verið gert á kostnað fiskveiðistjórnunarinnar og þeirra þátta sem Bruno Correard leggur mesta áherslu á sem er samstarf útgerðar- og sjómanna við vísindamenn og stjórnvöld. Því finnst mér vera einsýnt að finni stjórnarskrárnefndin leið til þess að styrkja sameignarákvæði 1. greinar fiskveiðistjórnunarlaganna með ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum að þá verði nýtingarrétturinn jafnframt skilgreindur og styrktur á þann hátt að fiskveiðistjórnunin og markaðsstarf okkar, og þar með eigandi auðlindarinnar, verði ekki fórnarlamb breytinganna.

 

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri, þar sem þetta er að öllum líkindum síðasta ræðan sem ég held að sinni sem sjávarútvegsráðherra, og þakka greininni fyrir ánægjulegt samstarf  í rúm sex ár. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími fyrir mig sem ég mun án efa búa að í því starfi sem ég tekst nú á hendur. Ég stend sáttur upp úr  stól sjávarútvegsráðherra. Starfsskiptunum fylgir eðlilegur söknuður – ég hef fengið tækifæri til að hrinda hugmyndum mínum í framkvæmd og hef unnið með afbragðsfólki í stofnunum og ráðuneytinu. Fyrir það er ég þakklátur. Sjávarútvegur á Íslandi er heillandi heimur þar sem gaman er að vinna. Megi hann halda áfram að  dafna vel og lengi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum