Hoppa yfir valmynd
23. september 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um Surtsey

Ágætu ráðstefnugestir,

 

Það er einkar ánægjulegt að vera hér með ykkur á ráðstefnu um Surtsey en umhverfisráðuneytið og Vestmanneyjabær ákváðu síðasta vor að standa sameiginlega að henni. Ráðstefna af þessu tagi hefur mér vitanlega ekki verið haldin fyrr þótt margar ráðstefnur hafi verið haldnar um Surtsey á vegum Surtseyjarfélagsins þá rúma fjóra áratugi síðan eyjan varð til. Hér er ætlunin að gera grein fyrir þeim rannsóknum sem farið hafa fram á undanförnum fjórum áratugum á náttúru eyjarinnar og þeim verðmætum sem fólgin eru í verndun hennar. Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort ekki sé kominn tími til þess að opna eyna almenningi með einu eða öðru móti og verða þau mál hér til umræðu líka.

Mér er í fersku minni þegar það barst út á öldum ljósvakans að morgni 14. nóvember 1963 að hafið væri neðansjávargos rétt vestur af Geirfuglaskeri en skipverjar á mótorbátnum Ísleifi höfðu komið auga á ólgu í sjónum sem síðan reyndist vera gos því strax fyrsta daginn stóð gosmökkurinn 5 - 6 km í loft upp. Hafði þá myndast tæplega kílómeters sprunga á hafsbotninum sem þeytti hrauni upp á tveimur stöðum.

Þessi tíðindi spurðust víða og vöktu mikla athygli hér á landi sem erlendis. Hér voru Íslendingar að upplifa í fyrsta skipti raunverulegt neðansjávargos svo að eðlilegt var að það vekti eftirtekt. Þetta var heimssögulegur viðburður ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að með myndun nýrrar eyjar gafst kjörið tækifæri til ýmiss konar rannsókna s.s. á því hvernig líf kviknar og þróast. Síðasta öld var mjög eldvirk á Íslandi. Þannig höfðu stuttu áður átt sér stað tvö stór eldgos annars vegar í Heklu 1947 og hins vegar í Öskju 1961 og var ljóst að þetta gos var á sömu sprungu eða á svokallaðri norðaustur-suðvestur línu þar sem Vestmanneyjar urðu til fyrir 5 - 6 þúsund árum.

Fljótlega fór að myndast lítil eyja sem stækkaði jafnt og þétt. Stöðugur straumur ferðamanna var til landsins og fór svo að þrír franskir menn á vegum blaðsins Paris Match urðu fyrstir til þess að stíga á land á hinni nýju goseyju og reistu þar franska fánann og fána blaðsins. Ekki fór þetta vel í Íslendinga sem von var. Voru Vestmannaeyingar sérstaklega reiðir yfir því að Frakkar skyldu verða undan þeim að stíga fæti á eyjuna en þeim hafði verið meinuð landganga af öryggisástæðum. Rétt er að taka fram að þessi landganga þótti fífldjörf og þegar Frakkarnir yfirgáfu eyna eftir örstutta dvöl áttu þeir fótum sínum fjör að launa.

Í upphafi var mikið um það rætt hvaða nafn skyldi gefa eynni og skiptu þau nöfn sem komu til greina tugum. Í desember 1963 lagði Örnefnanefnd til við menntamálaráðuneytið að eyjan yrði nefnd Surtsey og féllst ráðuneytið á tillöguna og er forvitnilegt að líta til röksemda nefndarinnar en þar kemur m.a. fram að þótt eyjan hverfi í sjó, sem ekki var talið ósennilegt, telji nefndin að eldstöðvarnar eða gígurinn beri nafn sem hann hafi framvegis þótt á hafsbotni yrði. Þótti nefndinni fara vel á að hinum nýju aðsópsmiklu eldstöðvum væri gefið nafn hins tilkomumikla eldjötuns úr fornum sögum, Surts, og eyjan dragi nafn af honum og kallist Surtsey. Ekki þótti verra að fornir menn hugsuðu sér yfirleitt jötna í austri en Surtur var einn jötna talinn koma úr suðri, sbr. Surtur fer sunnan, en Surtsey er einmitt syðsta eyja landsins. Nokkrar deilur urðu um þessa nafngift en fljótlega náðist þó full sátt um nafnið enda nafnið kjarnyrt og fer vel í munni.

Surtseyjargosið var að því leytinu ekki aðeins sérstakt gos að það átti sér stað á hafsbotni heldur líka þar sem það reyndist lengsta óslitna gosið frá Íslandsbyggð.

Fljótlega beindist áhugi vísindamanna að nauðsyn rannsókna í Surtsey og í framhaldi af því var Surtseyjarfélagið stofnað. Fóru nú í gang viðamiklar rannsóknir þ.e. jarðfræðirannsóknir, rannsóknir á landnámi plantna, dýralífi og lífríki hafsins. Til þess að hægt væri að stunda þessar rannsóknir varð að forðast átroðning og var því gripið til þess ráðs árið 1965 að friðlýsa eyna og hefur hún verið friðlýst síðan.

Segja má að Surtseyjargosið hafi haft öðruvísi áhrif en mörg önnur eldgos í landinu sem mörg hver hafa leitt yfir okkur hörmungar, mann- og fjárfelli og eyðingu byggðar. Í Surtsey hefur gefist ómetanlegt tækifæri til þess að rannsaka ýmsa þætti í náttúrunni sem ella hefði verið erfitt ef ekki ómögulegt að rannsaka. Rúmir fjórir áratugir eru hins vegar vart mælanlegur tími í sögu landnáms plantna eða rannsókna sem tengjast jarðfræði og líffræði og því þarf að halda þeim markvisst áfram. Komið hefur til tals og þeirri fyrirspurn var beint til mín á Alþingi sl. vetur hvort ekki væri kominn tími til þess að leyfa almenningi aðgang að eynni. Ég sé ýmis tormerki á því ekki síst vegna rannsóknarhagsmuna. Vel er hins vegar hægt að hugsa sér að koma hér upp í Vestmannaeyjum Surtseyjarsetri eins og rætt hefur verið um og koma á reglubundnum útsýnisferðum kringum eyna. Hugmyndir um Surtseyjarsetur eru allrar athygli verðar og verðugt viðfangsefni fyrir bæjaryfirvöld að gera þær að veruleika. Ég er fús til að leggjast á þær árar með ykkur. Það er mjög eðlilegt að Vestmannaeyingar nýti sé nálægðina við Surtsey í uppbyggingu ferðaþjónustu hér í Vestmannaeyjum. Eyjan er stórmerkilegt náttúrufyrirbæri sem augljóst er að getur haft mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Ágætu gestir.

Ég hef hér á undan farið stuttlega yfir þau atriði sem ætlunin er að ræða á ráðstefnunni auk þess sem ég rifjaði upp fyrstu árin í sögu eyjarinnar sem mér er enn í fersku minni. Ég vænti þess að ráðstefnan muni vísa okkur veginn um það hvernig við viljum taka á málefnum eyjarinnar út frá rannsóknum og verndun á komandi árum, hvernig við teljum hægt að halda merki Surtseyjar á lofti og tengja hana ferðamennsku og umfram allt að skilningur náist um framhaldið.

Að þessum orðum sögðum set ég ráðstefnuna og fel fundarstjórn Arnari Sigurmundssyni, formanni bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum