Hoppa yfir valmynd
23. september 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Evrópskur tungumáladagur 26. september - Málþing um markmið tungumálakennslu

Evrópuráðið hefur gert 26. september að árlegum Evrópskum tungumáladegi.

Evrópuráðið hefur gert 26. september að árlegum Evrópskum tungumáladegi, en hann var fyrst haldinn á Evrópsku tungumálaári 2001 og þótti takast mjög vel. Dagurinn er haldinn hátíðlegur í Evrópu og víðar í því skyni að fagna fjölbreytileika tungumála og vekja athygli á tilveru og gildi allra þeirra tungumála sem töluð eru í Evrópu. Í tilefni tungumáladagsins í ár vekur Evrópuráðið athygli á mikilvægi þess að notuð séu almenn sameiginleg viðmið Evrópuráðsins í kennslu og námsmati í tungumálum.

Á Evrópskum tungumáladegi 26. september kl. 15.00-17.00 heldur menntamálaráðuneytið málþing um tungumálakennslu í Norræna húsinu.Yfirskrift þess er Markmið tungumálakennslu. Á málþinginu afhendir menntamálaráðherra Evrópumerkið, sem er viðurkenning fyrir nýbreytni í tungumálakennslu. Málþingið er opið öllum meðan húsrúm leyfir og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Málþingið hefst með því að nokkrir tungumálakennarar kynna tillögur námskrárhópa í erlendum tungumálum og í íslensku sem öðru tungumáli vegna endurskoðunar aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla. Námskrárhóparnir hafa stuðst við viðmið Evrópuráðsins (Common European Framework of Reference for Languages). Að erindum loknum verða almennar umræður.

Síðan fer fram afhending Evrópumerkis í tungumálakennslu (European Label) sem er viðurkenning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og menntamálaráðuneytisins fyrir nýbreytni í tungumálakennslu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra mun afhenda merkið.

Menntamálaráðuneytið hefur hvatt skóla og aðrar fræðslustofnanir til að bregðast við ósk Evrópuráðsins um tungumáladaginn og vekja þannig athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og símenntunar í tungumálum. Vel hefur verið brugðist við og hefur tungumáladagurinn nú fest sig í sessi hér á landi og er víða skipulögð dagskrá, s.s í skólum, fræðslustofnunum og hjá félagasamtökum í samræmi við áhuga og þarfir á hverjum stað.

Menntamálaráðuneytið væntir þess að Evrópskur tungumáladagur 26. september ár hvert muni hafa jákvæð áhrif á tungumálanám og tungumálakennslu í skólum og verði fólki hvatning til símenntunar á þessu sviði. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um Evrópskan tungumáladag 2005, m.a. dagskrá málþingsins, á vef menntamálaráðuneytiins, menntamalaraduneyti.is og á vef Evrópuráðsins www.coe.int/edl .

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta