Fundargerð 8. fundar stjórnarskrárnefndar
1. Inngangur
Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 26. september 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz og Þorsteinn Pálsson voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
Formaður útskýrði að þessi fundur yrði venju fremur stuttur vegna forfalla. Þó hefði verið talið mikilvægt að halda fundinn til að dreifa gögnum sem sérfræðinganefndin hefði unnið að.
Lögð var fram fundargerð síðasta fundar. Nokkrar athugasemdir voru gerðar við hana og var afgreiðslu hennar frestað til næsta fundar.
Þá var ítrekuð ósk um að nefndin fengi fundargerðir sérfræðinganefndarinnar í hendur og var ritara falið að sjá til þess að þær yrðu lagðar fram á næsta fundi.
2. Erindi sem borist hafa nefndinni
Lagt var fram erindi til nefndarinnar frá samtökunum Landvernd.
3. Drög að áfangaskýrslu
Ritari kynnti drög að áfangaskýrslu og minnti á að ætlunin væri að gefa hana út með haustinu ásamt greinargerðum sérfræðinganefndarinnar. Ábendingar komu meðal annars fram um að ræða þyrfti betur ýmsar af þeim bráðabirgðaniðurstöðum sem settar væru fram í drögunum. Var umræðu frestað til næsta fundar og nefndarmenn beðnir um að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við ritara í tæka tíð fyrir næsta fund.
Þá óskaði einn nefndarmanna eftir því að við greinargerð sérfræðinganefndarinnar um stjórnskipunarþróun í Evrópu yrði bætt umfjöllun um stöðu forsetaembættisins í stjórnarskrám í Evrópu, einkum þeim löndum sem nýlega hefðu fengið fullt sjálfstæði í Mið- og Austur-Evrópu. Einnig óskaði hann eftir því að tekið yrði saman efni um beint lýðræði í Bandaríkjunum. Var ritara og sérfræðinganefndinni falið að huga að þessu.
4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði
Formaður sérfræðinganefndarinnar kynnti frumdrög að endurskoðuðum I. kafla stjórnarskrárinnar um stjórnarform og grundvöll stjórnskipunarinnar. Voru drögin rædd lauslega en umræðu síðan frestað til næsta fundar.
5. Önnur mál
Einn fundarmanna spurðist fyrir um áform sem rædd hefðu verið í upphafi nefndarstarfsins um að halda ráðstefnu um hlutverk og stöðu forseta í alþjóðlegum samanburði. Tóku ýmsir undir að gagnlegt gæti verið að halda slíka ráðstefnu og var sérfræðinganefndinni falið að hefja undirbúning hennar.
Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.30. Var næsti fundur ákveðinn að morgni mánudagsins 10. október n.k. frá kl. 8.30-12.00.