Frá ríkisráðsritara
Á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í dag var að tillögu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra fallist á að veita Davíð Oddssyni lausn frá embætti ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Jafnframt var að tillögu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra fallist á að veita Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, og Árna M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, lausn frá þeim embættum og að skipa Geir H. Haarde utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Halldór Ásgrímsson ráðherra Hagstofu Íslands.
Ennfremur var að tillögu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra fallist á að skipa Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.
Þá staðfesti forseti Íslands svohljóðandi úrskurð um skiptingu starfa ráðherra:
„Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, laga og reglugerða um Stjórnarráð Íslands, er störfum þannig skipt með ráðherrum:
- Halldór Ásgrímsson fer með forsætisráðuneytið og Hagstofu Íslands.
- Geir H. Haarde fer með utanríkisráðuneytið.
- Árni Magnússon fer með félagsmálaráðuneytið.
- Árni M. Mathiesen fer með fjármálaráðuneytið.
- Björn Bjarnason fer með dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
- Einar K. Guðfinnsson fer með sjávarútvegsráðuneytið.
- Guðni Ágústsson fer með landbúnaðarráðuneytið.
- Jón Kristjánsson fer með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
- Sigríður Anna Þórðardóttir fer með umhverfisráðuneytið.
- Sturla Böðvarsson fer með samgönguráðuneytið.
- Valgerður Sverrisdóttir fer með iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fer með menntamálaráðuneytið.
Með úrskurði þessum falla úr gildi eldri ákvæði um skiptingu starfa ráðherra.“
Ennfremur voru endurstaðfestar í ríkisráði ýmsar afgreiðslur, sem fram höfðu farið utan ríkisráðsfundar.
Reykjavík 27. september 2005