Fastanefnd Íslands hefur störf í Róm
Fastanefnd Íslands í Róm, sem hefur fyrirsvar gagnvart stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar í borg, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðasjóði fyrir þróun landbúnaðar (IFAD), hóf störf 1. ágúst sl. Fastafulltrúi er Guðni Bragason, sendifulltrúi. Fastanefndin er til húsa að Via di San Saba n. 12, int. 7, 00153 Roma. Ritari fastanefndarinnar er frk. Federica Frasca.
Í dag var hleypt af stokkum nýju vefsetri fastanefndarinnar (www.iceland.org/it). Á vefsetrinu er að finna gagnlegar upplýsingar um starfsemi fastanefndarinnar sem hefur fyrirsvar gagnvart þremur stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm, Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Matvælaáætluninni (WFP) og Alþjóðasjóði fyrir þróun landbúnaðar (IFAD). Einnig eru þar stutt yfirlit yfir samskipti Ísland og stofnananna þriggja og auk þess gagnlegir veftenglar til stofnana sem sinna málum er varða starfsemi þeirra. Auk upplýsinga um málefni sem snerta starfsemi fastanefndarinnar hefur vefsetrið ennfremur að geyma víðtækar, almennar upplýsingar á ensku um Ísland, land og þjóð, auk hundruða tengla í sértækar upplýsingasíður.
Vefsetur fastanefndarinnar í Róm