Ráðherraspjall
Félagsmálaráðherra stendur fyrir ráðherraspjalli á Samskiptatorgi félagsmálaráðuneytisins frá kl. 14-15 mánudaginn 3. október nk. Ráðherraspjallið er nýsköpunarverkefni sem unnið er í samstarfi félagsmálaráðuneytisins og ,,Íslenska upplýsingasamfélagsins”.
Ráðherraspjall fer þannig fram að almenningi gefst kostur á að ræða fyrirfram ákveðið málefni félagsmálaráðuneytisins við ráðherra á vefnum. Umræðuefnið að þessu sinni eru fyrirhugaðar atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga. Umræðan er öllum opin, en nauðsynlegt er að skrá sig á vefsvæði félagsmálaráðuneytisins til að taka þátt í umræðunni. Skráningarferlið tekur örfáar mínútur.
Í ljósi umræðuefnisins hefur félagsmálaráðherra ákveðið að opna Samskiptatorgið í Háskólanum á Akureyri. Þann 8. október fá íbúar í níu sveitarfélögum við Eyjafjörð tækifæri til að greiða atkvæði um sameiningu sveitarfélaganna í eina heild. Hljóti tillagan samþykki kjósenda verður til þriðja stærsta sveitarfélag á landinu.
Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, mun vera fyrstur ráðherra til þess að nýta sér vefinn til að hafa bein samskipti við íbúa um land allt með þessum hætti.
Samskiptatorgið á rætur að rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið en þar eru sett fram markmið um að gerðar verði tilraunir til að auka samráð og samskipti milli almennings og opinberra aðila m.a. með því að gera tilraunir með uppsetningu umræðutorga. Væntanlegar atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga er kjörið tækifæri til þess að gefa almenningi kost á að ræða við ráðherra sveitarstjórnarmála um þetta mikilvæga málefni.