Hoppa yfir valmynd
3. október 2005 Matvælaráðuneytið

Ársfundur NAFO í Eistlandi

 

Dagana 19.-23. september var haldinn í Tallinn, Eistlandi, 27. ársfundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO. Á fundinum var ákveðið heildaraflamark og stjórn veiða á NAFO-svæðinu, sem er hafsvæðið vestan og sunnan Hvarfs á Grænlandi. Íslensk skip hafa í mörg ár veitt rækju á svæðinu en á síðastliðnum árum hefur úthafskarfi einnig verið veiddur þar.

Eftirlitsmenn

Árið 2003 var samþykkt, á ársfundi NAFO, tilraunaverkefni til tveggja ára um fækkun eftirlitsmanna gegn nákvæmari upplýsingagjöf um veiðarnar, en verkefnið byggir á hugmyndum og tæknilegum útfærslum Íslendinga. Nokkuð erfiðlega hefur gengið að fá önnur ríki til að taka þátt í tilraunaverkefninu en á fundinum í ár var samþykkt að framlengja tilraunaverkefnið um eitt ár og afla þannig frekari upplýsinga og reynslu áður en frekari ákvarðanir verða teknar um framhald þess. Ísland ítrekaði jafnframt mótmæli sín við að skylt væri að hafa eftirlitsmann um borð í öllum skipum sem veiða á NAFO-svæðinu.

Rækja

Fram kom hjá vísindanefnd NAFO að ástand rækjustofna á Flæmingjagrunni og Miklabanka væri gott. Samþykkt var óbreytt stjórn á veiðum á Flæmingjagrunni fyrir árið 2006 og að fjöldi sóknardaga yrði sá sami og á árinu 2005. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt sóknarstýringu á þessu svæði frá því að hún var tekin upp árið 1996 vegna efasemda um að hægt væri að að stjórna veiðunum með sóknarstýringu og lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki. Ísland ítrekaði mótmæli sín og mun áfram stjórna veiðum einhliða með afalamarki sem ákveðið verður síðar. Heildaraflamark rækju á Miklabanka (3L) var hækkað verulega og var ákveðið 22.000 tonn og koma 245 tonn í hlut Íslands.

Úthafskarfi

Veiðar á úthafskarfa hafa lengst af eingöngu verið stundaðar á samningssvæði NEAFC en veiðar á NAFO-svæðinu hafa aukist á undanförnum árum. Á síðastliðnum árum hefur verið gert samkomulag um að þeim NAFO ríkjum, sem ekki eru aðilar að NEAFC, væri heimilt að veiða 7.500 tonn af úthafskarfa. Á síðasta ársfundi var ákeðið að þar af fengi Evrópusambandið 6.500 tonn þar sem Eistland, Lettland og Litháen, sem á síðasta ári gengu í Evrópusambandið, væru þau ríki sem mest höfðu verið að veiða á NAFO-svæðinu og þá ekki sem aðilar að NEAFC. Eftir sem áður er eingöngu heimilt að veiða þetta magn á samningssvæði NAFO.

Endurskoðun á ramma NAFO-samningsins

Á ársfundinum var ákveðið að hefja vinnu sem snýr að endurskoðun, uppfærslu og mögulegum breytingum á NAFO-samningnum og stofnanauppbyggingu fiskveiðistofnunarinnar. Endurskoðuninni er ætlað að efla og styrkja starfsemi NAFO og gera stofnuninni betur kleift að taka til fjölbreyttari þátta er snúa að stjórnun nýtingar og verndunar lifandi auðlinda hafsins í anda vistkerfisnálgunar. Verður jafnframt leitað leiða við að efla og bæta vöktun, eftirlit og stjórnun á svæðinu sem og eftirfylgni í kjölfar brota.

Skráning á veiðiskipum sem stunda ólöglegar veiðar

Komið hefur verið upp tilteknu ferli við skráningu á veiðiskipum sem staðin hafa verið að verki við ólöglegar veiðar á NAFO svæðinu. Auk þess mun upplýsingum sem NAFO hefur aflað um veiðiskip sem staðin hafa verið að ólöglegun veiðum vera komið, með sjálfvirkum hætti, til annarra svæðisbundinna fiskveiðisamtaka og FAO.

 

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Guðríður M. Kristjánsdóttir lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum