Hoppa yfir valmynd
3. október 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2006

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning 15/2005

Fjárlög 2006Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2006 er lagt fram með 14,2 milljarða króna tekjuafgangi og felur því í sér áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum og sífellt sterkari stöðu ríkissjóðs. Stefnan í ríkisfjármálum hefur stuðlað að stöðugleika samhliða öflugum hagvexti en einnig gefið svigrúm til að lækka skatta á sama tíma og skuldir ríkisins eru greiddar niður. Annar áfangi í lækkun tekjuskatts einstaklinga kemur til framkvæmda á komandi ári. Tekjuskattur einstaklinga lækkar þá um eitt prósentustig sem jafngildir um 4 milljörðum króna á næsta ári að teknu tilliti til skatttekna af aukinni veltu. Barnabætur verða jafnframt auknar um 1,2 milljarða króna. Þá falla eignarskattar niður á næsta ári ásamt því að sérstakur tekjuskattur, svonefndur hátekjuskattur, fellur niður. Hreinar skuldir ríkissjóðs lækka úr 35% af vergri landsframleiðslu árið 1996 í 7% árið 2006. Framkvæmdir ríkisins verða í lágmarki árið 2006 en áformað er að stórauka þær árið 2007 þegar dregur úr stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Stefna ríkisstjórnarinnar næstu fjögur árin gerir ráð fyrir ábyrgri og styrkri fjármálastjórn sem tekur mið af stöðu efna-hags-lífsins á hverjum tíma.

Áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2006 gerir ráð fyrir 14,2 milljarða króna tekjuafgangi, eða sem nemur 1,4% af landsframleiðslu. Lánsfjár-afgangur er það fé sem ríkis-sjóður hefur til ráðstöfunar áður en kemur til greiðslu skulda. Hann er áætlaður 9,9 milljarðar króna og verður 6,6 milljörðum varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs auk þess að greitt verður inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins. Hafa skuldir þá verið greiddar niður um 64,3 milljarða króna á tveimur árum og fyrirframgreiðsla ríkis-sjóðs inn á lífeyrisskuldbindingar í árslok 2006 er áætluð nálægt 100 milljörðum króna ásamt vöxtum. Haldið er aftur af ríkisútgjöldum með ýmsum aðgerðum, en auknu fjár-magni er varið til forgangsverkefna svo sem barnabóta og menntamála.

Afkoma ríkissjóðs

Afkoma án óreglulegra liða. Afkoma ríkissjóðs þegar leiðrétt hefur verið fyrir óreglulegum liðum lýsir betur reglulegri starfsemi ríkisins. Með óreglulegum tekjum er átt við söluhagnað af eignum og með óreglulegum gjöldum er átt við gjaldfærðar lífeyrisskuld-bind-ingar og afskriftir skattkrafna en þessa liði má að stórum hluta rekja til fyrri ára. Miðað við þennan mælikvarða verður afkoma ríkissjóðs jákvæð um rúmlega 25 milljarða króna á næsta ári. Sýnir taflan hvernig ríkisfjármálin veita aðhald frá árinu 2004 til 2006 á meðan stór-iðju-framkvæmdir standa yfir, en gert er ráð fyrir að hápunktur stóriðjuframkvæmda verði í ár.

Tekjuafgangur

Stefnumörkun í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Í fjárlagafrumvarpinu er lögð fram stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrir árin 2006 – 2009. Hún sýnir að áfram ríki stöðugleiki í efnahagmálum og að við lok stóriðjuframkvæmda dragi verulega úr viðskipta-halla. Stefnan tekur mið af stöðu efnahagsmála á hverjum tíma og er miðað við að aðhald ríkisfjármálanna verði mest á yfirstandandi ári og áfram verði beitt aðhaldi á næsta ári með verulegum samdrætti í framkvæmdum ríkisins. Árin 2007 – 2009 verða útgjöld til vega-gerðar og byggingaframkvæmda á hinn bóginn stóraukin þar sem þá gengur til baka frestun vegaframkvæmda og framkvæmdir sem greiddar verða með söluandvirði Lands-símans hefjast. Árið 2007 kemur þriðji áfangi í lækkun tekjuskatts einstaklinga með tveggja prósentustiga lækkun skatthlutfallsins. Helstu markmið stefnumörkunarinnar eru óbreytt frá fjárlögum 2005:

  • Fylgt verði aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Þannig verði árlegur vöxtur samneyslu ekki umfram 2% að raungildi. Enn fremur verði árleg hækkun tilfærsluútgjalda ekki umfram 2,5% að raungildi.
  • Dregið verði úr framkvæmdum ríkisins um 2 milljarða króna árið 2006, þriðja árið í röð. Framkvæmdir verði aftur auknar um 2 milljarða hvort ári 2007 og 2008 en þar til viðbótar kemur fé í samræmi við tillögu ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á söluandvirði Lands-símans hf. Verður þeim útgjöldum mætt með því að ganga á innistæðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands.
  • Á árunum 2006 – 2007, eins og árið 2005, er umtalsverðum fjármunum varið til skatta-lækkana í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Skattalækkanir. Samtals lækka tekjuskattar einstaklinga um 4 milljarða á næsta ári og   eignarskattar um 4 milljarða. Þá hækka barnabætur um 1,2 milljarða á næsta ári og skatt-leysismörk hækka úr rúmlega 71 þús.kr. á mánuði árið 2004 í rúm 85 þús.kr. árið 2007 m.a. vegna lækkunar tekjuskatts-hlutfalls. Tekjuskattar einstaklinga lækka um 4 prósentu-stig, eða 15,5%, á kjörtímabilinu auk þess að eignarskattar og sérstakur tekjuskattar eru afnumdir.

Tekjuskattshlutfall
 
Helstu efnahagsforsendur fjárlagafrumvarps 2006. Spá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir 4,6% hagvexti árið 2006, 3,8% verðbólgu og að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 2,7%. Spáð er að einkaneysla aukist um 4,3% á næsta ári. Atvinnuleysi er talið minnka og verða 1,8% af mannafla. Viðskiptahalli verður áfram mikill m.a. vegna stóriðju-framkvæmda, eða 12,2% af landsframleiðslu, en hann lækkar ört frá og með árinu 2007. Miðað er við gengisvísitöluna 114, sem jafn-gildir tæplega 4% lækkun á gengi krónunnar frá meðaltali þessa árs.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps. Áætlað er að skatttekjur ríkissjóðs nemi rúmlega 301 milljarði króna á næsta ári og heildartekjur 327 milljörðum. Hlutfall skatttekna af lands-framleiðslu, án fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir, lækkar úr 31,2% í 28,6% samhliða afnámi eignarskatta og lækkun tekjuskatts einstaklinga. Tekur áætlunin mið af forsendum frumvarpsins um minni vöxt einkaneyslu á næsta ári.

Útgjöld ríkissjóðs. Heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð 313,2 milljarðar króna og hækka um 8,8 milljarða frá áætlun 2005, án áhrifa af sölu Landssímans. Lækka útgjöld því um 1% að raungildi á milli ára og verða 29,8% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en eru áætluð 31,5% á þessu ári.

Helstu áherslumál á gjaldahlið. Áfram er beitt aðhaldi í útgjöldum ríkissjóðs og gripið til aðgerða sem skila samtals 4 milljarða króna lægri útgjöldum en annars hefði orðið. Þar af skilar  frestun á framkvæmdum í vegamálum í samræmi við langtímastefnumörkun um 2 milljörðum. Einnig var ráðuneytum og stofnunum gert að taka á sig 1 milljarðs króna lækkun útgjalda sem er mætt ýmist með að fallið er frá áformuðum verkefnum eða dregið er úr fjárveitingum til verkefna sem voru fyrir. Loks ákvað ríkisstjórnin að lækka útgjöldin um 1 milljarð til viðbótar, þar af eru lyfja-útgjöld lækkuð um 300 m.kr. frá því sem ella hefði orðið,  vaxtabætur um 250 m.kr., 200 m.kr. framlögum til hafnarframkvæmda er frestað og frestað öðrum stofn-kostnaðar-verkefnum er nema samtals 250 m.kr.

Aukin framlög til menntamála og rannsókna. Áherslumál í frumvarpinu eru aukin framlög til menntamála og rannsókna í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim mála-flokki. Þannig aukast framlög til menntamála um 12% frá fjárlögum yfirstandandi árs og er áætlað að þau nemi 33 milljörðum króna í frumvarpinu. Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem leggja hvað mest fjármagn til menntamála og rannsókna. Í því sambandi má annars vegar benda á að samkvæmt skýrslu sem OECD gaf út um miðjan síðasta mánuð námu heildarútgjöld Íslendinga til menntamála 7,4% af vergri landsframleiðslu árið 2002 og var Ísland komið í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar. Hins vegar má benda á að Íslendingar náðu því markmiði árið 2001 að verja 3% af vergri lands-framleiðslu til rannsóknarmála, en það markmið setti framkvæmdastjórn Evrópu-sambandsins aðildar-ríkjunum að ná árið 2010. Einnig aukast framlög til þróunaraðstoðar og framlög til barnabóta hækka um 1,2 milljarða króna. Vaxtagjöld ríkisins lækka um 2 milljarða króna frá fjárlögum einkum vegna mikillar endurgreiðslu skulda og stofnkostnaður lækkar einnig á milli ára eins og fram hefur komið.

Breytingar
 
Sterk staða ríkissjóðs. Samanlagður tekjuafgangur ríkissjóðs frá 1999 til 2006 verður um 100 milljarðar króna, þar af eru 57,5 milljarðar söluhagnaður af Landssímanum. Lánsfjárafgangur verður 150 milljarðar á sama tímabili. Sterk staða ríkissjóðs hefur skilað sér í mikilli lækkun á hreinni skuldastöðu í hlutfalli af landsframleiðslu, sem lækkar úr 35% af landsframleiðslu frá árinu 1999 í um 7% árið 2006 gangi áform frumvarp-sins eftir. Um síðustu áramót námu uppsafnaðar fyrirframgreiðslur ríkissjóðs til LSR um 80 milljörðum ásamt vöxtum og eru þær áætlaðar um 100 milljarðar króna í árslok 2006. Áformað er að greiða skuldir niður um 57,7 milljarða króna á þessu ári og 6,6 milljarða króna á næsta ári. Lækkun skulda skilar sér í lægri vaxtagjöldum sem nú eru í fyrsta sinn lægri en vaxtatekjur ríkissjóðs í frumvarpinu.

 

Vaxtagjöld
 

Hreinar skuldir
 

Stöðugleiki í efnahagsmálum. Niðurstaða fjárlagafrumvarps og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum er sú að staða ríkissjóðs er traust og áfram mun ríkja stöðugleiki í efnahags-málum. Tímabundinn viðskiptahalli vegna stóriðjuframkvæmda mun dragast ört saman þegar þeim líkur og áhrifa vaxandi útflutnings fer að gæta. Aðhaldssöm stefna í ríkis-fjár-málum skapar svigrúm til að lækka skatta og stórauka framkvæmdir á vegum ríkisins þegar stóriðju-framkvæmdum á Austurlandi lýkur, án þess að raska jafnvægi í efnahags-málum. Ríkisfjármálum verður þannig áfram beitt til hagstjórnar á sama tíma og aðhaldi í ríkis--rekstrinum verður fylgt fast eftir.

Upplýsingar um fjárlagafrumvarpið og nýja þjóðhagsspá er að finna á vef fjármála-ráðuneytisins: www.fjarmalaraduneyti.is.


Fjármálaráðuneytinu, 3. október 2005

 

Sjá einnig Safn upplýsinga um fjárlög fyrir árið 2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta