Niðurstöður sameiningarkosninga 8. október 2005
Alls voru kjósendur á kjörskrá 69.144 en atkvæði greiddu 22.271 sem gerir 32,2% kjörsókn. 9.622 voru fylgjandi sameiningu (43,8%) en 12.335 andvígir (56,2%). Auðir og ógildir seðlar voru 315.
Niðurstöður sameiningarkosninga 8. október 2005 liggja nú fyrir. Kosið var í 61 sveitarfélagi en alls var um að ræða 16 tillögur um sameiningu sveitarfélaga. Ein sameiningartilllaga var samþykkt og samkvæmt henni sameinast Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhreppur í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 9. júní 2006.
Auk þess verða sameiningarkosningar endurteknar innan sex vikna, þ.e. fyrir 15. nóvember nk. í fimm sveitarfélögum. Fjögur þeirra eru Þingeyjarsýslum; Aðaldælahreppur, Kelduneshreppur, Skútustaðahreppur og Tjörneshreppur, þar sem kosið er um sameiningu við Húsavíkurbæ, Öxarfjarðarhrepp og Raufarhafnarhrepp. Einnig munu íbúar Reykhólahrepps greiða atkvæði að nýju um sameiningu við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp.
Þegar átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins hófst haustið 2003 voru sveitarfélögin í landinu 103. Að fengnum niðurstöðum í dag 8. október ásamt niðurstöðum þeirra atkvæðagreiðslna sem fram fóru 20. nóvember 2004 og 23. apríl 2005 munu sveitarfélögin í landinu verða 89 að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006.
Niðurstöður sameiningarkosninganna 1993 má finna á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga