Hoppa yfir valmynd
14. október 2005 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra

hjá Landssambandi smábátaeigenda

föstudaginn 14.október 2005

 

 

 “Enginn slítur þau bönd, sem hann er bundinn heimahögum sínum.  Móðir þín fylgir þér á götu, er þú leggur á stað út í heiminn, en þorpið fer með þér alla leið.”

 

Ætli það sé ekki dæmigert að höfundur þessara minnistæðu ljóðlína er Jón úr Vör, Patreksfirðingur sem orti á sínum tíma ódauðlegan ljóðabálk, sem hann kallaði Þorpið.  Ég held að þessi vestfirski orðsins maður, skáldið Jón úr Vör, lýsi hugsunum okkar margra, sem voru þeir lukkunnar pamfílar að alast upp í sjávarbyggð á landsbyggðinni og nutum þess frelsis og þeirra tækifæra og þeirra möguleika, sem slíkt uppeldi fól í sér.  Ég hygg nefnilega að okkur sé mörgum þannig farið að þó við höfum haslað okkur völl vítt og breitt um heiminn þá hafi Þorpið fylgt okkur alla leið; líka inn í sali Alþingis líka inn á skrifstofu sjávarútvegsráðherrans.

 

Þetta ættu menn að hafa í huga þegar við ræðum og veltum fyrir okkur ástæðu þess að við höfum mörg hver kosið að taka stöðu með uppbyggingu smábátaútgerðar í landinu.  Við höfum skynjað það útgerðarform, sem skjól minni byggðalaga, möguleika þeirra og tækifæri. Ekki síst þegar hallað hefur undað fæti og veiðirétturinn, sem var forsenda byggðanna, hvarf úr þeim af ýmsum ástæðum.

 

 Smábátaútgerð í landinu hefur ævinlega átt sér réttlætingu í byggðafestunni og því að við höfum talið það mörg að þetta útgerðarmynstur væri vörn minni byggðalaga og byggi til þann fjölbreytileika í  útgerð, sem ævinlega hefur fylgt sjávarútveginum.  Styrkur sjávarútvegsins hefur annars alltaf falist í fjölbreytninni.  Annars vegar stórum og öflugum útgerðum, sem hafa verið ómetanlegar fyrir framvindu sögunnar og hins vegar minni útgerðum, sem að einnig hafa gegnt veigamiklu hlutverki.

 

 Á þeim 20 árum, sem liðin eru frá því Landssamband smábátaeigenda var stofnað, hafa orðið miklar breytingar í sjávarútvegi okkar.  Smábátaútgerðin eins og önnur útgerð hefur gengið í gegnum góðviðri og brælutíð. Eftir stendur óhaggaður veruleikinn.  Smábátaútgerðin er núna gífurlega öflugt rekstrarform, hefur markað sér mikinn sess og er án nokkurs vafa í heild sinni, öflug, hagkvæm og skiptir þjóðarbúið miklu máli og einstök byggðarlög nær öllu. Ég vil fullyrða að smábátaútgerðin hafi ekki verið í annan tíma öflugri hér á landi á seinni árum, en einmitt núna. Þetta á sér heilmikla forsögu og sú saga var aldrei án baráttu.  Ef við horfum yfir þetta 20 ára tímabil, sem Landssamband smábátaeigenda hefur starfað, þá sjáum við að það hafa orðið gífurlega miklar breytingar í fiskveiðistjórnarumhverfi þessa bátaflota.  Ég ætla ekki að fara að rekja það í einstökum atriðum, að öðru leyti en því, að ég hygg að upphaf þeirra miklu viðreisnar, sem hefur orðið í smábátaútgerð hér við land, megi rekja til ársins 1995 þegar upphaflega voru sett lög um þorskaflahámark.  Þessi lög tóku breytingum, en voru örugglega grundvöllur að þeirri sterku stöðu, sem þetta útgerðarform býr við í dag.

 

Ég hef oft á umliðnum árum rifjað upp fund, sem við þingmenn þáverandi Vestfjarðakjördæmis vorum boðaðir til á Þingeyri.  Fundinn sátu mjög margir útgerðamenn smábáta og mér er einkanlega minnisstæð ein ræðan, sem þá var flutt.  Ræðumaður, sem var útgerðamaður smábáts, trillukarl, sagði eitthvað á þessa leið:  “Nú er staðan sú að við getum eiginlega hvorki lifað né dáið.  Ef við höldum áfram útgerð þá gengur dæmið ekki upp.  Og ef við reynum að hætta og selja frá okkur bátinn, þá eigum við ekki fyrir skuldum.”

 

 

Ég held að þessi maður hafi haft lög að mæla á þessum tíma.  Við vorum þá með banndagakerfi, sem að á margan hátt var óhagkvæmt.  Það skapaði að vísu hið margrómaða frelsi, en gekk hins vegar bara alls ekki upp.  Þetta voru árin, sem hugmyndin um þorskaflahámarkið varð til.  Það fól í sér kvóta og aflahlutdeild í þorski og síðan enn fremur frelsi til veiða í öðrum tegundum.  Gert var ráð fyrir því hins vegar að hægt væri með einhverjum hætti að takmarka sóknina í þær tegundir ef nauðsyn krefði.  Þetta fyrirkomulag varð þess valdandi að lánastofnanir fengu tiltrú á smábátunum.  Menn skynjuðu ákveðið hald og tiltekinn stöðugleika í aflahlutdeildinni og gerðu sér grein fyrir því að frelsið til þess að sækja í aðrar tegundir var ómetanlegt.  Það skapaði líka ný tækifæri fyrir byggðir, sem lágu vel við sókninni, þannig að staðarkostirnir nutu sín afskaplega vel. 

 

Þarna reyndi líka mikið á útsjónarsemi einstakra skipstjórnarmanna. Maður fylgdist með því á þessum árum hvernig tilteknir skipstjórar og útgerðarmenn voru þess meðvitaðir að nýta sér þessa möguleika og þau tækifæri, sem þetta fiskveiðistjórnarkerfi bauð upp á.

 

Ég var einn þeirra, sem var afskaplega hrifinn af þessu fiskveiðistjórnunarkerfi.  Ég get alveg sagt eins og Arthúr Bogason, sagði um dagakerfið: “Ég var að mörgu leyti skotinn í þorskaflahámarkinu”. Á hinn bóginn gerði ég mér vel grein fyrir því, að til þess myndi koma að við þyrftum að beita sóknartakmörkunum á veiðar í ýsu og steinbít og ufsa, sem þá voru fyrir utan kvóta í þessum tegundum. Einfaldlega af því að sóknin fór vaxandi og aflinn sömuleiðis og það var ljóst að það var að skapast togstreita um þessi mál á milli útgerðarforma. Með öðrum orðum. Það val sem við stóðum frammi fyrir á þessum tíma, snerist aldrei um óbreytt þorskaflahámark, eða krókaaflamark. Áframhaldandi þorskaflahámark hefði í besta falli falið í sér lagasetningu um sóknartakmarkanir, af einhverju tagi og þær hugsanlega verulegar. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga og geri sér grein fyrir því. Ég var þarna á vettvangi á þessum tíma og tel mig glöggt geta dæmt um það.

 

Dómur hæstaréttar svokallaður “Valdimarsdómur” kollvarpaði þessu ástandi og gerði það að verkum að löggjafinn taldi að nauðsynlegt væri að hneppa veiðarnar á svokölluðum aukategundum í kvóta.  Lögfræðiálit, sem Landssamband smábátaeigenda lét gera sýndi á hinn bóginn að unnt var að uppfylla kvaðirnar, sem dómurinn fól í sér, án þess að farin væri leið kvótasetningar.  Niðurstaða Alþingis varð hins vegar á annan veg.  Alþingi sýndi þó jákvæðan vilja sinn í verki gagnvart smábátum, með því að ákveða að gildistakan hefði allnokkurn umþóttunartíma og vegna vilja þingsins og stjórnarmeirihlutans var ákveðið enn að fresta gildistöku laganna frá því sem upphaflega var áformað í lagasetningunni.  Þetta var auðvitað ómetanlegt.  Að því kom þó að kvótasetning aukategunda varð staðreynd.

 

Margir hafa spurt mig hvort ekki hefði verið hægt að verja þorskaflahámarkið til frambúðar samkvæmt því fyrirkomulagi, sem um það hafi gilt.  Sérstaklega hafa menn sagt - og sumir spurt, - hvort ég, sem formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis á þeim tíma og stuðningsmaður þorskaflahámarksins, hefði ekki getað beitt stöðu minni til þess að svo gæti orðið.  Ég vil ræða þessi mál af mikilli einlægni, vegna þess að þau hvíldu mjög þungt á mér á þessum tíma.  Og ég neita því ekki að þessar aðstæður voru mér á sínum tíma ákaflega þungbærar.  Ég stóð þarna frammi fyrir afskaplega erfiðri ákvörðun.  Mér var það ljóst að ég gat á þessum tíma myndað meirihluta með stjórnarandstöðunni og knúið á um það að mál af þessum toga færu út úr þingnefnd og inn í þingið.  Eftir það hafði ég ekki lengur vald á því máli. 

 

Í þessu sambandi er  nauðsynlegt að minna á, að stjórnarandstaðan hafði í þinginu sýnt hug sinn til gamla þorskaflahámarksins með þeim hætti að styðja ekki frestun á gildistöku kvótasetningar á aukategundum.  Það var því ekki á vísan að róa með stuðning úr þeirri áttinni við frekari frestun eða að setja varanlega í lög ákvæði, sem næðu þessum sama tilgangi. Jafnvel þó ég hefði kosið að ganga til samstarfs við þá, sem hefði náttúrlega verið jafnframt yfirlýsing um að ég kveddi flokksbræður mína og félaga. Ég hefði heldur ekki haft lengur stöðu til þess að knýja á um frekari úrbætur til minni bátanna.  Þessvegna varð mér það ljóst að þó að ég kynni að hafa af því pólitískan stundarhag að leika hetju með því að knýja á um að málið færi inn í þingið þá væri ég með því að svíkja hagsmuni ykkar og félaga ykkar, sem störfuðu í þorskaflahámarkinu.  Það var því meðvituð ákvörðun mín að taka þennan kost, sem ég gerði, þó að ég gerði mér fullkomlega grein fyrir því að það kynni að verða mér að pólitískum aldurtila. 

 

Sumarið, sem þá fór í hönd notaði ég hins vegar til þess að vinna því fylgi,  meðal annars í ákaflega góðri samvinnu við forvera minn og vin í stóli sjávarútvegsráðherra, Árna M. Mathiesen, að auka veiðirétt smábátanna í aukategundunum svokölluðu, ýsu, steinbít og ufsa.  Tryggja að veiðiréttur smábátanna yrði bærilegur.  Sérstaklega hafði ég í huga að aðstæður til þess að kvótasetja ýsu voru mjög hagstæðar frá sjónarhóli smábátanna, vegna þess að aflaheimildir ýsu á þessum tíma voru í lágmarki og aflahlutdeildir gátu því í framtíðinni skilað miklum árangri.

 

Þegar við bættist sérstök úthlutun til smábáta við þessar aðstæður var alveg ljóst að unnt væri að auka veiðirétt smábátaflotans varanlega og umtalsvert.  Hernaðarlistin fólst þar af leiðandi í því að auka varanlegan veiðirétt í stað frjálsrar sóknar í aukategundirnar; sóknar sem við vissum öll að aldrei myndi ganga nema um mjög takmarkaðan tíma.

 

Nú þegar ég horfi yfir farinn veg, sjáum við að þessi ákvörðun hefur ekki veikt smábátakerfið.  Það er öflugra heldur en nokkru sinni áður.  Við þurfum ekki annað en að skoða aflaheimildir í ýsu eins og þær eru núna og bera þær saman við aflann á árum hinnar frjálsu sóknar.  Það blasir við okkur að afli og aflaheimildir í ýsu eru núna 60-100% meiri heldur en aflinn var í gamla þorskaflahámarkskerfinu þegar best lét.  Ýsuafli bátanna var þetta á bilinu rúm 7 þúsund til 10 þúsund tonn á mestu velmektardögunum þorskaflahámarksins. Á síðasta ári var þessi afli rúm 16 þúsund tonn.

 

Rétt er það,  að ekki er saman að jafna þeim bátum, sem nú róa í krókaaflamarki og þeim bátum, sem áður réru í þorskaflahámarkinu.  Við tókum nefnilega þá pólitísku ákvörðun að heimila stækkun  krókaaflamarksbáta úr 6 tonnum í 15 tonn í einni af þeim breytingarlotum, sem gegnið hafa yfir smábátakerfið.  Forsendan fyrir því að sú pólitíska niðurstaða náðist, var hins vegar að kerfið var orðið aflahlutdeildarkerfi og þess vegna gátum við með sanni fært fyrir því rök að ekkert ætti að hamla því að þessi bátastærð væri öflugri og stærri og öruggari og gæfi jafnframt færi á betri aflameðferð heldur en þegar að annað fyrirkomulag var við lýði.  Þetta er auðvitað eitt af framfararskrefunum, sem við ættum ekki að líta framhjá. Það er nefnilega rétt sem einn orðhagur vinur minn, trillukarl sagði við mig í sumar. Í dag er smábátur ekki lengur neinn smá bátur.

 

Það er því enginn vafi á því að þær baráttuaðferðir, sem notaðar hafa verið, hafa aukið veiðirétt smábátanna. Það er gott, því þessi útgerð hefur þannig orðið grundvöllur viðreisnar í mörgum sjávarbyggðum.

 

Margir hafa orðið til að spyrja mig að því á undanförnum dögum hvort ég hafi ekki verið talsmaður sóknartengdrar veiðistýringar.  Svarið er jú. Ég er ennþá þeirrar skoðunar að það sé vel hægt að stjórna veiðum með sóknartengdum aðferðum.  En þá skulum við hafa eitt í huga. Sóknartengd veiðistýring er ekki frelsi til veiða að allra vild. Hún felur í sér takmarkanir.  Þær takmarkanir eru hins vegar ekkert bundnar við tonn, kíló og grömm heldur aðferð við það að takmarka sókn.  Forsendan fyrir skynsamlegri sóknarstýringu er líka framsal. Að vísu  ekki framsal á veiðirétti mælt í þyngd fisks, heldur á réttinum til sóknarinnar.  Þannig að í raun og veru er ekki sá grundvallarmunur á sóknarstýringarkerfi og aflahlutdeildarkerfi. Þau eru í báðum tilvikum í eðli sínu einstaklingsbundinn réttur.  Hvoru tveggja felur í sér skilgreindan veiðirétt, hvorutveggja felur í sér það að útgerðarmaðurinn hefur veiðiréttinn og hefur réttinn til ráðstöfunar á honum.

 

 Við höfðum í smábátakerfinu vísi að slíkum sóknartengdum stjórnunaraðferðum.  Hins vegar auðnaðist okkur aldrei að ljúka því verki, vegna þess að okkur tókst aldrei að koma okkur saman um þær aðferðir við sóknarstýringuna sem nauðsynlegar voru. Þar vorum við að ræða bann við veiðum tiltekna daga, takmarkanir á balafjölda, vélastærð, stjórn á stærð flotans og veiðigetu og þar fram eftir götunum.  Slíkar stjórnunaraðferðir eru  forsendan fyrir því að sóknarstýring geti átt sér stað. 

 

Við þessar aðstæður tel ég þó að það þjóni ekki mjög miklum tilgangi að rífast um slíka hluti. Ákvarðanir hafa verið teknar, við höfum náð niðurstöðu, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Á hinn bóginn er  það  nauðsynlegt vegna samhengisins, að við skiljum aðstæðurnar og hverjir hinir raunverulegu valkostir voru, í aðdraganda þeirra ákvarðana sem við tókum varðandi stjórnkerfi smábátanna.

 

Aðalatriðið er þó þetta að mínum dómi: Við höfum komið á laggirnar öflugu  fiskveiðistjórnunarkerfi smábáta, sem að hefur skapað þeim mikinn veiðirétt og ekki þarf að horfa lengi yfir sviðið til þess að sjá að veiðirétturinn er í dag ekki hamlandi á starfrækslu bátanna í heild sinni.

 

Þær glærur sem að hér fylgja sýna þetta.  Krókaaflamarksbátarnir höfðu á síðasta fiskveiðiári veiðirétt til rúmlega  18% af heildarúthlutunum í þorski, en þeir veiddu um 16%.  Þeir höfðu veiðirétt til um 16% af ýsu og veiddu rúm 15%.  Þeir höfðu aflamark sem svaraði til 8,2% af heildaraflamarki í ufsa og veiddu 3,3% og aflamark steinbíts var 42% en aflinn var um 30%. Ástæður  þess að aflinn var minni en svaraði kvótanum eru margvíslegar. Meðal annars getur tíðarfar spilað inn í. En mestu ræður örugglega að lágt verð á steinbít þegar hann er best veiðanlegur á línu, gerði þennan veiðiskap óarðbæran. Í þessu felst þess vegna enginn áfellisdómur heldur einungis árétting á því að veiðirétturinn er mjög umtalsverður og gefur smábátaútgerð hér á landi mikil tækifæri til tekjumyndunar.

 

Og fyrir strák sem stjáklaði um á bryggjum vestur á fjörðum fyrir 30-40 árum og fylgdist með þegar stórir bátar með 5 til 6 manna áhöfn stunduðu steinbítsveiðar á vorin er í rauninni ótrúlegt að hugsa sér að 40% af veiðiréttinum í steinbít sé bundin við það sem við köllum í dag smábáta.  Þetta hefur mér fundist kannski táknrænasta birtingarmyndin af þeim breytingum sem hafa orðið. Það hefði að minnsta kosti þurft að segja okkur það fyrir vestan þrem sinnum, að þetta yrði raunveruleikinn um aldamótin.

Þess vegna er ég mjög sammála því sem Arthúr Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda segir í viðtali við Morgunblaðið 28.sept. s.l.  - sem raunar var daginn eftir að ég tók við starfi sjávarútvegsráðherra, en þar segir hann: “Smábátaflotinn á Íslandi er einstæður í heiminum.  Hann er tæknilega sá fullkomnasti og ég hika ekki við að fullyrða að við séum með bestu sjómennina.  Ég er sannfærður um að í þessum flota felast gríðarleg tækifæri til að sinna þeirri stigvaxandi kröfu markaðarins sem við byrjuðum að spá fyrir mörgum árum við hlátrasköll sérfræðinganna sem eru að fá fisk sem veiddur er á kyrrstæð veiðarfæri af minni bátum.”

 

Þetta er góður vitnisburður og mér þykir vænt um hann vegna þess að ég hef einatt átt samleið með Landssambandi smábátaeigenda í þeirri hagsmunabaráttu sem farið hefur fram og ég er þakklátur fyrir það góða samstarf.

 

Góðir fundarmenn.

 Það eru tvö mál, sem sérstaklega hafa verið rædd í samhengi við fiskveiðistjórnarkerfið og spurningar hafa komið upp með nú upp á síðkastið.  Menn hafa í fyrsta lagi spurt: Hvaða augum lítur þú á línuívilnun?  Svar mitt er einfalt og skýrt:  Ég er stuðningsmaður línuívilnunar og ég monta mig af því að hafa verið fyrsti þingmaðurinn til þess að nefna þessa hugmynd á nafn í þingræðu á Alþingi.  Ég tel að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel og orðið mjög til hagsbóta fyrir byggðirnar í landinu.  Sú mynd sem við sjáum hér sýnir okkur að línuívilnunin er umtalsverð. Kvótaafsláttur, ef við getum kallað það svo, sem útgerðir fengu í gegn um línuívilnun,  nam tæpum 5 þúsund tonnum á síðasta fiskveiðiári. Það er því óumdeilt að línuívilnunin skapar þessum útgerðarflokki báta forskot.  Hún hefur ýmsa kosti fram yfir byggðakvóta, þó ég telji ekki að hún geti leyst hann af hólmi, vegna sérstöðu byggðakvótans. Hún hefur og komið mjög til góða í ýmsum byggðarlögum, sem hafa orðið undir í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þá er það athyglisvert að línuívilnunin hefur dreifst meira um landið heldur en margir spáðu. Samkvæmt yfirliti sem Fiskistofa tók saman fyrir mig nutu 149 löndunar og heimahafnir línuívilnunarinnar. Þetta er ágætt að benda á því   margir héldu því fram að þetta væri eingöngu vestfirskt sérhagsmunapot - tölurnar sýna annað.  Línuívilnunin er þess vegna almenn aðgerð og kemur víða að notum, sem betur fer.

 

Menn hafa spurt mig hvort ég væri til í að stækka línuívilnunina  og gefa fleiri veiðiaðferðum kost á að nýta sér hana.  Ég skal svara hreinskilnislega –Nei ég er ekki tilbúinn til þess. Ég tel að það eigi ekki að hleypa inn öðrum bátagerðum, vegna þess að við þurfum að hafa einhverja aðgangstakmörkun að  þessu sóknartengda fyrirkomulagi.  Reynsla okkar af því að opna inn í slík kerfi með einhverskonar einstefnuloka hefur verið mjög vond.  Línutvöföldunin gamla sprakk í höndunum á okkur vegna þess að við höfðum ekki pólitískt þrek til að takmarka að henni aðganginn.  Ég ætla mér ekki það hlutskipti sem sjávarútvegsráðherra, að standa yfir höfuðsvörðunum línuívilnunarinnar.  Ég vil varðveita hana og þess vegna vil ég ekkert gera, sem gæti orðið til þess að raska henni eða eyðileggja.  Okkur er það öllum ljóst að veiðimáttur línunnar er gífurlega mikill og ef að við opnum inn í hana stærri og afkastameiri flota, eins og til dæmis vélabátana,  þá gæti það orðið fyrsta skrefið að tortímingu hennar.  Þess vegna er þessi afstaða mín tilkomin. Einfaldlega vegna þess að ég vil verja línuívilnunina, ekki vegna þess að ég vilji ekki veg hennar mikinn. 

 

Annað atriði hefur verið rætt við mig og það er spurningin um byggðakvótann.  Byggðakvóti er auðvitað í sjálfu sér ákaflega vandmeðfarin aðferð og hún hefur ekki verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér.  Byggðakvóti er hins vegar að mínu mati nauðsynlegt úrræði, sem við getum ekki horfið frá.  Ég hef ekki komið auga á annað fyrirkomulag til þess að ná því sama markmiði og stefnt er að með byggðakvótum.  Byggðakvótar eru hugsaðir fyrir þau byggðalög, sem hafa misst frá sér miklar aflaheimildir og standa af þeim sökum veikum fótum. Byggðakvóti er einnig notaður  til að bregðast við þegar það gerist, sem ég hef stundum kallað, að náttúran tekur burtu veiðiréttinn. Það er þegar breytingar í náttúrufari leiða til þess að veiði í einstökum tegundum hverfi. Þetta hefur bæði átt við innfjarðarveiði í skel og rækju.   Ég held hins vegar að við eigum að beita byggðakvótanum af varkárni. Hann á ekki að vera mjög almennt úrræði, heldur skilgreint og afmarkað.  Þannig hefur það líka verið hugsað og framkvæmt og ég mótmæli því þegar menn tala um að slík takmörkuð og afmörkuð úrræði skekki samkeppnisstöðu eða veiki aðra, sem fyrir eru í útgerðinni. Það er ekki svo. Vel má hins vegar hugsa sér að skoða ýmsar hliðar hans. Á til dæmis að vera fortakslaus skylda um löndun og vinnslu í heimahöfn, á að taka byggðakvótann af mönnum sem leigja frá sér heimildir? Þetta eru spurningar sem ég bið ykkur að hugleiða með mér. Við hljótum að hafa af því sameiginlega hagsmuni að við þessa stjórnvaldsaðgerð, þ.e að um byggðakvótann sé sem mest sátt og að við framkvæmum hana með sem mesta réttlætisvitund að augnamiði.

 

Góðir fundarmenn.

 

Nú má vonandi öllum vera ljós staðan.  Að minnsta kosti þarf öllum að vera hún ljós.

 

 Við höfum í fyrsta lagi hið almenna aflamarkskerfi og innan þess starfa fjölmörg skip bæði minni og hin stærri. Litlar útgerðir og stórar.  Við höfum í annan stað krókaaflamarkið þar sem smábátaútgerðin vinnur og loks höfum við þessi byggðatengdu úrræði, sem ég hef gert að umtalsefni. Þetta eru þær aðstæður, sem sjávarútveginum eru búnar í dag. Ég er þeirrar skoðunar að þau útgerðarform sem við búum við um þessar mundir eigi öll að geta fundið sér farveg innan þessa fyrirkomulags. Þau tryggja möguleika á hagræðingu og hagkvæmni. Þau eru byggðatengd í nokkrum mæli. Þau skapa svigrúm til minni útgerða við hlið hinna stærri. Og  þau gefa færi til handa stærri útgerða að efla sig til átaka á vettvangi sem krefst fjárhagslegs styrks og stærðar. Alla þessa flóru eigum við að viðurkenna og virða. Íslenskur sjávarútvegur hefur nefnilega verið sterkur í gegn um tíðina vegna fjölbreytninnar og þeirrar ótrúlegu hugkvæmni sem alltaf hefur ríkt á þeim bæ, við að bregðast við erfiðleikum og breytilegum forsendum.

 

Við eigum ekki að þurfa að standa í stöðugum illdeilum.  Útgerðir stærri og minni báta eiga langflesta hluti sameiginlega.  Við skulum ekki láta það magna okkur erfiðleikana að aðstæður og hagsmunir kunni að vegast á. Það er ekkert nýtt. Það hefur alltaf fylgt útgerðinni. Við þekkjum aldalanga deilu togaramanna, færamanna, snurvoðarmanna, línumanna o.s.frv.  Sjávarútvegurinn verður alltaf undirorpinn einhverju slíku. En aðalatriðið er að við missum ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir, sem er heill sjávarútvegsins.

 

Framundan í sjávarútveginum er auðvitað fyrst og fremst það verkefni að búa til meiri verðmæti úr auðlindinni heldur en við höfum gert fram til þessa.  Sannarlega höfum við stigið stór skref og við erum  að auka verðmætasköpun úr takmarkaðri auðlind.  Ennþá eru hér tækifæri.  Mér finnst mjög lofsvert hvernig forystumenn ykkar hafa nálgast þessi verkefni nú upp á síðkastið og leita leiða til þess að nota sérstöðu smábátaútgerðarinnar til þess að auka verðmætin.  Þetta er afskaplega athyglisverð vinna og ég heiti stuðningi Sjávarútvegsráðuneytisins við þessa viðleitni. Það er mikilsvert að virkja hugkvæmni og dugnað ykkar til þess að búa til meiri verðmæti. Ég  vek athygli á því  sem Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda hefur sagt um þetta: “Verkefnið sem hér er kynnt er svar smábátaeigenda við minnkandi veiðiheimildum og kröfum, samfara auknum kostnaði sl. ára.  Við því er nauðsynlegt að bregðast þar sem ekki er séð að veiðiheimildir í þorski verði auknar á næstu árum.  Yrði markmiði verkefnisins hins vegar náð væri það ígildi góðrar kvótaaukningar.”

   

 Vitaskuld eigum við heilmikla vinnu fyrir höndum við útfærslu þessarar hugmyndar og kannski á hún eftir að taka einhverjum breytingum í rás tímans. En aðalatriðið er þó að nýta sérstöðu ykkar útgerðar til þess að auka styrkleika hennar.  Minnumst þess þó ætíð – og þetta skiptir miklu máli – að markmið okkar allra er að styrkja sjávarútveginn í heild. Markaðssetning íslenskra sjávarafurða er sameiginlegt verkefni, og þarf að byggja á virðingu fyrir mismunandi aðferðum við veiðar og vinnslu.  Þá hugmynd verðum við ætíð að hafa að leiðarljósi.

 

Ein forsenda þess að slíkt geti tekist er rekjanleiki vörunnar. Það að vita nákvæmlega hvernig hún verður til allt frá veiðum og að disk íslensks eða erlends neytanda.  Að slíku er nú unnið gríðarlega mikið starf undir forystu Sjávarútvegsráðuneytisins af hálfu Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.  Slík vinna fer ekki endilega hátt en hún er að mínu mati lykillinn að því að auka öryggi í útflutningsvörum og skapa ný tækifæri í einstökum þáttum sjávarútvegsins. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þetta starf og nýta það til þess að auka verðmæti afla ykkar.

 

Góðir fundarmenn.

Nú þegar ég tek við starfi sjávarútvegsráðherra, á afmælisári Landssambands smábátaeigenda, vil ég nota tækifærið til þess að þakka það ánægjulega samstarf, sem ég hef jafnan átt við samtök ykkar, forystumenn, og einstaka útgerðarmenn víða um landið.  Þetta hefur ekki alltaf verið átakalaust og við getum væntanlega allir sagt einhverjar klögufréttir hverjir af öðrum í því samstarfi. En það er aukaatriði  – fortíð - sem ég hirði ekkert um. Ég hef alltaf notið þess að eiga góðan kunningsskap og vináttu við útgerðarmenn,  stóra og smáa um land allt. Þannig vona ég að það verði í framtíðinni. Ég vil jafnframt þakka Landssambandi smábátaeigenda og fjölmörgum félagsmönnum fyrir árnaðaróskir sem ég fékk, er ég tók við þessu nýja starfi.  Það er mér heilmikil uppörvun og ég leit á það líka sem viðurkenningu. Mér þótti vænt um það og góðar óskir ykkar til mín eru mér uppörvandi og einnig hvatning að eiga gott samstarf á meðan ég sit í starfi sjávarútvegsráðherra. Með þessum orðum vil ég árna Landssambandi smábátaeigenda og ykkur öllum allra heilla  með afmælisáfangann og til hamingju með sterka stöðu smábátaútgerðar á Íslandi og óska ykkur gæfu og velgengni í framtíðinni.

 

Takk fyrir.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta