Hoppa yfir valmynd
14. október 2005 Matvælaráðuneytið

Aukin tækifæri í forystu atvinnulífsins.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 23/2005

Fréttatilkynning

vegna útkomu skýrslu nefndar um

aukin tækifæri kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja.

Á haustmánuðum 2004 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd um aukin tækifæri kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja í samræmi við þingsályktun um jafnréttismál. Í dag er engin kona forstjóri í skráðu fyrirtæki í Kauphöll Íslands og hlutfall kvenna í stjórnum þessara fyrirtækja er einungis 7,4%.

Nefndinni var ætlað að skoða hvernig auka megi tækifæri kvenna í forystu íslenskra fyrirtækja. Í því skyni var leitað til forystufólks í íslensku viðskiptalífi um innlegg um ákveðna þætti sem nauðsynlegt er að taka tillit til.

Markmið með þeirri vinnu var að skilgreina hvar helstu tækifæri liggja til að auka hlut kvenna í stjórnun íslenskra fyrirtækja, sem og að vekja athygli á því að tækifæri felist í því fyrir fyrirtæki að nýta betur hæfni og þekkingu kvenna. Umræður fóru fram um stöðu þessara mála í dag, samanburð við helstu nágrannalönd og hvers vegna æskilegt kann að vera að breyta núverandi stöðu. Rætt var um þær hindranir sem standa í vegi fyrir því að konur veljist til forystu í stórum fyrirtækjum og þátttakendur beðnir um að velta því fyrir sér hvaða aðgerðir séu vænlegastar/mikilvægastar til þess að gera betur á þessu sviði.

Nefndin stóð fyrir því að fá hingað til lands Lisu Levey, ráðgjafa hjá Catalyst, sem starfar að framgangi kvenna í leiðtogastöður í Bandaríkjunum og Kanada. Hún hefur um 15 ára skeið unnið með fyrirtækjum, þar á meðal mörgum Fortune 500 fyrirtækjum, við greiningu þátta er varða nýtingu á fjölbreytni mannauðarins og vinnur með þeim að aðgerðum til breytinga.

Nefndin hefur nú lokið störfum og skilað áliti í formi skýrslu, sem unnin er af Þórönnu Jónsdóttur, sem stundar doktorsnám á sviði stjórnarhátta við Cranfield Univertisy í Bretlandi.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu mála hér á landi og hún borin saman við önnur lönd, en ljós kemur að staða Íslands er nokkuð lakari en í samanburðarlöndunum. Einnig eru færð rök fyrir því hvers vegna konur í stjórnum ættu að vera fleiri og leitað er skýringa á því hvers vegna þær eru jafn fáar og raun ber vitni. Að lokum eru aðgerðir annarra landa til að fjölga konum í stjórnum og forystu viðskiptalífisins skoðaðar.

Tillögur nefndarinnar að aðgerðum sem miða að því að efla fyrirtæki og atvinnulíf með því að fjölga konum í stjórn eru:

1. Að tryggja farveg fyrir umræðu og þekkingaröflun

2. Að birta reglulega lista með upplýsingum um fjölda og hlutfall kvenna í stjórnum

3. Að efla tengsl kvenna

4. Að víkka leitarskilyrði og sjóndeildarhring við skipanir í stjórnir

5. Að hvetja fyrirtæki til að setja konur á dagskrá

6. Að fá karlmenn í áhrifastöðum til að gera málið að sínu.

Reykjavík, 14. október 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta