Umfjöllun um ráðstefnu í Sankti Pétursborg
Dagana 6.–8. október var haldin í Sankti Pétursborg í Rússlandi ráðstefnan „WoMen and Democracy“. Þetta var fjórða og síðasta ráðstefnan í ráðstefnuröð með sama heiti. Sú fyrsta var haldin hér á landi árið 1999 og vakti mikla athygli. Að undirbúningi ráðstefnunnar komu 11 lönd og voru þátttakendur um 600 talsins.
Frá Íslandi fór 22 manna sendinefnd. Í henni voru aðilar frá ólíkum sviðum samfélagsins, meðal annars stjórnmálamenn, embættismenn og fulltrúar frjálsra félagasamtaka. Félagsmálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið styrktu fulltrúa frjálsra félagasamtaka til ferðarinnar.
Íslenska sendinefndin hafði stórt hlutverk á ráðstefnunni. Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna, ávarpaði ráðstefnuna við opnun hennar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Í ræðu sinni fjallaði Sigríður Anna meðal annars um launamun kynjanna og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Umfjöllun um fæðingarorlofið vakti mikla athygli sem og frásögn af fyrirætlunum kvenna á Íslandi í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Þá greindi ráðherra frá því að félagsmálaráðherra sem var boðið til ráðstefnunnar en átti ekki heimangengt, hefði áform um að boða til alþjóðlegrar ráðstefnu á Íslandi á næsta ári þar sem karlar ræða jafnréttismál.
Á ráðstefnunni stýrði Jón Sigurðsson umræðum um kyn, efnahagsleg völd og vinnumarkað. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, tók þátt í pallborðsumræðum um ofbeldi gegn konum og Jónína Bjartmarz alþingismaður tók þátt í pallborðsumræðum um og atvinnu- og efnahagslíf.
Íslendingar tóku einnig þátt í að stýra vinnustofum og flytja þar erindi. Lilja Mósesdóttir prófessor fjallaði um rannsóknarverkefni um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða innan evrópska vinnumarkaðarins. Hún byggði framsögu sína á rannsóknarverkefninu „From welfare to knowfare. A European approach to employment and gender mainstreaming in the Knowledge Based Society“. Lilja Mósesdóttir leiðir rannsóknarverkefnið en fræðimenn frá sjö löndum Evrópu taka þátt í því auk sérfræðings evrópsku verkalýðshreyfingarinnar. Lilja fjallað einnig um samnorrænt rannsóknarverkefni sem hún stýrir undir heitinu „Mælistikur á launajafnrétti“ (På sporet av likalön). Rannsóknarverkefninu var ýtt úr vör á formennskuári Íslendinga í norrænu samstarfi árið 2004 og eru endanlegar niðurstöður væntanlegar í byrjun næsta árs. Umræðum í þessari vinnustofu stýrði Kristín Ástgeirsdóttir forstöðumaður og kynnti hún niðurstöður umræðna á lokafundi ráðstefnunnar.
Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, flutti erindi um karla og fæðingarorlof á Íslandi í málstofu undir heitinu „samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs“ en hún var samstarfsverkefni milli íslenskra stjórnvalda og norskra. Áhugaverðar umræður áttu sér stað í vinnustofunni. Ísland og Noregur eiga það sameiginlegt að karlar hafa sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Þorbjörg Inga Jónsdóttir, hæstaréttarlögmaður og formaður Kvenréttindafélags Íslands, stýrði umræðum í vinnustofunni og kynnti niðurstöður á lokafundi ráðstefnunnar.
Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, sleit ráðstefnunni með ávarpi ásamt Ludmilu Kostkina, varaborgarstjóra Sankti Pétursborgar.