Hoppa yfir valmynd
17. október 2005 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs hjá FAO

Guðni Bragason afhenti dr. Jacques Diouf, aðalframkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá FAO föstudaginn 14. október sl. Við það tækifæri lýsti dr. Diouf yfir ánægju sinni með það, að íslensk stjórnvöld hafa opnað fastanefnd hjá FAO og stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm.

Ísland var stofnaðili að FAO árið 1945. Markmið stofnunarinnar er að tryggja fæðuöryggi allra jarðarbúa. Stofnunin vinnur í þágu allra aðildarríkjanna, þróunarríkja jafnt sem þróaðra ríkja, og er vettvangur fyrir stefnumörkun, upplýsingaöflun og tækniþekkingu. Stofnunin er eina alheimsstofnunin, sem fjallar um málefni sjávarútvegs og lifandi auðlinda hafsins. Sem slík gegnir hún mikilvægu hlutverki í alþjóðasamstarfi Íslendinga að nýtingu auðlinda hafsins. Fastanefndin í Róm gætir hagsmuna Íslands á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar í starfi stofnunarinnar og stuðlar að þróunarsamvinnu milli Íslands og annarra landa.

Fastanefnd Íslands í Róm hefur einnig fyrirsvar af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP), sem vinnur að neyðaraðstoð og styðjur félagslega og efnahagslega þróun. WFP skipuleggur umfangsmikla matvælaaðstoð við fólk sem býr við hungur af völdum náttúruhamfara, fátæktar og ófriðar. Íslensk stjórnvöld hafa stutt neyðaraðstoð WFP víða um heim, nú síðast á jarðskjálftasvæðum í Pakistan. Fastanefndin sinnir einnig IFAD-sjóðnum sem aflar fjár fyrir lán með lágum vöxtum og veitir styrki til þróunarverkefna í landbúnaði og sjávarútvegi í þeim tilgangi að auka fæðuframleiðslu í viðkomandi löndum. Markmið IFAD er að gera fátæku fólki, sem lifir af landbúnaði og veiðum, kleift að brjótast úr fátæktinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta