Hoppa yfir valmynd
18. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ríkisstjórnin undirbýr aðgerðir gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun, að tillögu félagsmálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra, að hafin verði skoðun á því með hvaða hætti megi standa að gerð og framkvæmd heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hér á landi. Lagt er til að sjónum verði sérstaklega beint að börnum sem verða fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Sérstaklega verði skoðað hvernig styrkja megi barnaverndaryfirvöld, félagsmálayfirvöld, skóla, heibrigðiskerfið, lögregluna og fleiri með það að markmiði að efla fræðslu og samhæfa vinnubrögð, verkferla og úrræði þessara aðila.

Samþykkt var að fela verkefnið samráðsnefnd félagsmálaráðherra, sem skipuð var þann 22. janúar 2003, og í eiga sæti fulltrúar félagsmálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndinni var upphaflega falið að fjalla um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum en mun nú auk upphaflegs verkefnis fjalla sérstaklega um þau verkefni sem getið er hér að framan.

 

Þegar hefur verið unnið að margvíslegum verkefnum sem nokkur samtök kynntu stjórnvöldum í maí sl. í tillögum um heildstæða aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi hér á landi. Í dómsmálaráðuneyti er unnið að hertum aðgerðum gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi með endurskoðun á gildandi löggjöf. Þá hefur dómsmálaráðherra falið ríkislögreglustjóra að setja verklagsreglur lögreglu um meðferð og skráningu mála er varða heimilisofbeldi og er vinnsla þeirra á lokastigi. Loks hefur dómsmálaráðherra falið Ragnheiði Bragadóttur prófessor að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga um nauðgun, kynferðisbrot gegn börnum og vændi og verður frumvarp þess efnis lagt fram síðar í vetur. Þá er löggjöf um vændi og mansal sérstaklega til umræðu í starfshópi skipuðum af dómsmálaráðherra og til skoðunar er í dómsmálaráðuneytinu hvaða lagabreytinga sé þörf vegna fullgildingar nýs Evrópuráðssamnings gegn mansali

 

Í félagsmálaráðuneyti og í fyrrnefndri nefnd félagsmálaráðherra sem skipuð var árið 2003 hefur m.a. verið fjallað um verkefni sem fram koma í tillögum um gerð heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi. M.a. hefur verið lagt til af hálfu félagsmálaráðherra að verkefnið "Karlar til ábyrgðar" verði endurvakið árið 2006 með 6.5 milljóna króna framlagi á fjárlögum og gefið hefur verið út upplýsingakort um úrræði á íslensku og ensku þar sem kynnt eru mismunandi úrræði þegar ofbeldi hefur verið beitt.  

 

Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í morgun var ákveðið að sérstakur starfsmaður muni starfa tímabundið með samráðsnefndinni í fjóra mánuði frá 1. nóvember nk. til 28. febrúar 2006 til að vinna að þeim verkefnum, sem ekki hafa þegar verið sérstaklega falin öðrum, og skal samráðsnefndin að því loknu skila ríkisstjórninni tillögu að aðgerðaáætlun gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hér á landi. Aðgerðaáætlunin skal m.a. unnin í samvinnu við hagsmunaðila og frjáls félagasamtök. Áætlunin skal liggja fyrir til umfjöllunar í ríkisstjórn eigi síðar en 3. mars 2006. 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum