Hoppa yfir valmynd
18. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna sameiningarkosninga 5. nóvember 2005

Laugardaginn 8. október sl. fóru fram atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga víða um land. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV við sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, með síðari breytingum, skal endurtaka atkvæðagreiðslu í eftirtöldum sveitarfélögum þar sem meiri hluti þeirra sem afstöðu tók í atkvæðagreiðslu um sömu sameiningartillögu þann 8. október lýstu sig fylgjandi sameiningu sveitarfélaganna. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna endurtekinnar atkvæðagreiðslu er þegar hafin í eftirtöldum sveitarfélögum.

1. Í Reykhólahreppi, um sameiningu við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp.
2. Í Aðaldælahreppi, Kelduneshreppi, Skútustaðahreppi og Tjörneshreppi, um sameiningu þessara sveitarfélaga við Húsavíkurbæ, Raufarhafnarhrepp og Öxarfjarðarhrepp.

Ákvörðun samstarfsnefnda sem annast undirbúning atkvæðagreiðslu liggur nú fyrir um kjördag, sem er 5. nóvember nk. Sama kjörskrá gildir og við atkvæðagreiðslu sem fram fór 8. október sl.

Um atkvæðagreiðsluna og kjörskrá gilda ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna, eftir því sem við á. Atkvæðagreiðslan fer þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil orðið "já" ef hann er hlynntur tillögu samstarfsnefndar eða "nei" ef hann er mótfallinn tillögunni.


Almennt um framkvæmd kosningarinnar

Kosningarrétt eiga allir íbúar framangreindra sveitarfélaga sem náð höfðu 18 ára aldri þann 8. október 2005 og uppfylla skilyrði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Þetta þýðir meðal annars að danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag 8. október 2005, og aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, mega greiða atkvæði um tillögu sameiningarnefndar. Er þetta í samræmi við breytingu sem gerð var á fyrrgreindum lögum árið 2002.

Unnt er að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumönnum um allt land og á kjörstöðum í viðkomandi sveitarfélögum á kjördag, 5. nóvember. Erlendis fer atkvæðagreiðsla fram á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnunum, ræðismönnum eða á öðrum stöðum samkvæmt ákvörðun utanríkisráðuneytis. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer þannig fram að þeir kjósendur sem eru hlynntir tillögu samstarfsnefndar um sameiningu viðkomandi sveitarfélaga skrifa „já“ á kjörseðilinn en þeir sem eru mótfallnir sameiningu skrifa „nei“.

Skilyrði er að kjósandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördaginn 8. október 2005. Viðkomandi sveitarstjórnir auglýsa nánar staðsetningu kjörstaða og opnunartíma þeirra, svo og hvar talning atkvæða fer fram í hverju sveitarfélagi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta