Hjalti Steinþórsson hefur verið skipaður forstöðumaður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála
Umhverfisráðherra hefur skipað Hjalta Steinþórsson hrl. forstöðumann úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála til fimm ára frá 1. október sl. Hjalti hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá árinu 1998 en áður var hann starfandi lögmaður frá árinu 1971. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1971. Eiginkona Hjalta er Helga Karítas Nikulásdóttir, BA í ensku, íslensku og bókasafnsfræði og framhaldsskólakennari, og eiga þau fjögur börn
Hér er um nýtt starf að ræða samkvæmt breytingum á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og skipulags- og byggingalögum nr. 73/1997 sbr. lög nr. 74/2005 sem tóku gildi þann 1. október sl. Eftir gildistöku laganna mun úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum auk þess að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál eins og verið hefur.
Fréttatilkynning nr. 28/2005
Umhverfisráðuneytið