Hoppa yfir valmynd
21. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rætt um kvennafrídag á fundi félagsmálaráðherra með forstöðumönnum

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, átti í dag fund með forstöðumönnum stofnana félagsmálaráðuneytisins. Þar beindi hann þeim tilmælum til forstöðumanna að konur í starfsliði stofnananna fái tækifæri til að taka þátt í dagskrá vegna 30 ára afmælis kvennafrídagsins á mánudag, 24. október.

Jafnframt hefur félagsmálaráðherra tilkynnt konum sem starfa í félagsmálaráðuneytinu að hann sé viðbúinn því að þær leggi niður störf kl. 14.08 á mánudag til að taka þátt í dagskránni.

 

Karlar axli aukna ábyrgð

Árni Magnússon vill beina þeirri áskorun til karlmanna að þeir geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að sem bestri þátttöku í kvennafrídeginum. Það geti þeir gert með því að axla aukna ábyrgð á vinnustöðum og heimilum og einnig sem aðstandendur skjólstæðinga þeirra einstaklinga sem ella gætu orðið fyrir röskun vegna skertrar þjónustu eftir kl. 14.08 næstkomandi mánudag.

 

Verkefni um kynbundinn launamun

Á samráðsfundi ráðherra og forstöðumanna kynnti félagsmálaráðherra jafnframt að ákveðið hefði verið að hrinda í framkvæmd verkefni sem lýtur að launamun kynjanna hjá þessum stofnunum. Markmið verkefnisins er að fara kerfisbundið í gegnum launakerfi stofnana ráðuneytisins til að kanna hvort þar sé að finna óútskýrðan launamun sem rekja má til kynferðis starfsmanna í sambærilegum störfum. Það sama hefur þegar verið gert í ráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið í nánu samstarfi milli ráðuneytisins og þeirra stofnana er starfa á verksviði þess og að hver stofnun tilnefni tengilið við verkefnið sem jafnframt hefði umsjón með þeim hluta verkefnisins er fellur undir hlutaðeigandi stofnun. Ekkert er því til fyrirstöðu að stofnanir tilnefni fleiri en einn starfsmann telji forstöðumaður þörf á því. Óskað er eftir að tilnefningar verði sendar ráðuneytinu fyrir 1. nóvember nk.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta