Hoppa yfir valmynd
24. október 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra á Fráveituráðstefnu fyrir sveitarfélög

 

Ágætu ráðstefnugestir.

Fyrir rúmum tíu árum voru sett lög, sbr. lög nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og renna þau sitt skeið í lok þessa árs og kemur til síðustu greiðslu samkvæmt þeim á næsta ári. Tilgangur lagasetningarinnar var að hvetja sveitarfélög með tímabundnum stuðningi til þess að hraða úrbótum í fráveitumálum. Fjöldamörg sveitarfélög eða um 65% þeirra hafa fengið greiðslu samkvæmt þessum lögum og stórstígar framkvæmdir orðið á þessu sviði á gildistíma laganna. Samkvæmt niðurstöðu í skýrslu sem fráveitunefnd umhverfisráðuneytisins lét vinna í fyrra og verður kynnt hér í dag er hins vegar ljóst að heildarkostnaður við að ljúka fráveituframkvæmdum er verulegur. Þannig er ljóst að þau markmið sem stefnt var að fyrir árslok 2005 nást ekki að öllu leyti. Eigi að síður hefur orðið gríðarlegur árangur og búa um 80% landsmanna við viðunandi ástand í þessum málum í dag. Hluti landsins er þannig settur að lítið hefur verið gert og eru á því margar skýringar s.s. rannsóknir á viðtökum sem geta verið mjög kostnaðarsamar og njóta ekki styrkja samkvæmt lögunum.

Kröfur sem gerðar eru til fráveitna hér á landi byggjast á reglum Evrópusambandsins sem teknar voru upp í EES-samninginn og leiddar í íslenskan rétt þó með vissum tilslökunum. Þótt ekki ætli ég að færa það fram sem afsökun tel ég rétt að halda því til haga að aðeins fjögur af Evrópusambandslöndunum 25 hafa að fullu náð markmiðum Evrópusambandslöggjafarinnar og mörg eiga langt í land og töluvert lengra en Ísland. Verður gerð betri grein fyrir því hér á eftir á ráðstefnunni.

Lögin um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, gera ráð fyrir því að sveitarfélög geti notið styrks úr ríkissjóði vegna styrkhæfra fráveituframkvæmda sem framkvæmdar eru á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005 sem nemur allt að 200 milljónum króna á ári eða eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfra framkvæmda næstliðins árs. Þannig var gert ráð fyrir því að til málaflokksins færu á tímabilinu 2,2 milljarðar króna. Framkvæmdir fóru hægar af stað heldur en áformað var og það var fyrst 2002 sem 200 milljón kr. markinu var náð.

Samkomulag hefur orðið milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við tillögur Tekjustofnanefndar ríkis og sveitarfélaga að framlengja gildistíma laganna um þrjú ár eða frá 2006 til og með 2008 með óbreyttri árlegri fjárhæð sem yrði 200 milljónir króna á ári. Jafnframt að kannaðar verði leiðir til að draga úr kostnaði.

Kostnaður sveitarfélaganna vegna undirbúnings framkvæmda, s.s. rannsóknir, nýtur ekki fjárstuðnings samkvæmt lögunum eins og áður segir. Þessi kostnaður getur lent með mismunandi þunga á sveitarfélögunum, allt frá því að vera hverfandi hluti kostnaðar við heildarframkvæmdina eða skipta verulegu máli þar sem viðtakinn er viðkvæmur. Sveitarfélögin eru því misvel sett hvað varðar þennan kostnað og á það ekki síst við um mörg þeirra sveitarfélaga sem skammt eru á veg komin í fráveituframkvæmdum. Því tel ég mikilvægt að heimilað verði að verja allt að 10 milljónum króna á ári næstu þrjú ár til rannsókna á viðtökum og að þannig verði staðið að þessum rannsóknum að þær nýtist sem best með landið í heild í huga og mun ég leggja til lagabreytingar í því skyni jafnframt því að framlengja gildistímann í þrjú ár.

En eins og fram kom í máli mínu áðan þá lagði nefnd um tekjustofna sveitarfélaga fram tillögur um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga að nýrri sveitarfélagaskipan og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Lög um fjárhagslegan stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði framlengd til og með 2008 og að sameiginlega verði farið gagnrýnið yfir kröfur um fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og kannaðar leiðir til að draga úr kostnaði. Reiknað er með að árlegar greiðslur verði 200 milljónir króna í 3 ár eða samtals 600 milljónir króna. Tillögurnar hafa verið lagðar fyrir ríkisstjórn og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og hlotið afgreiðslu þar í samræmi við efni þeirra.

Ég tel rétt að á gildistíma framlengdu laganna sé rétt að meta málið í heild m.a. út frá niðurstöðu í skýrslu Fráveitunefndar, sem ég nefndi hér að framan. Á þessum tíma verði jafnframt kannaðar leiðir til að draga úr kostnaði og ein þeirra leiða er rannsókn á viðtökum sem ég nefndi hér á undan. Í þessu skyni hefur ráðuneytið heimilað fráveitunefnd að gera samning við Hafrannsóknastofnun um mælingar á næringarefnum sem ættu að koma að miklu gagni. Þær rannsóknir eru að fara af stað þessa dagana og verður gerð grein fyrir þeim hér á eftir.

Ágætu áheyrendur

Mikilvægt er að huga vel að fráveitumálum m.a. til að stuðla að heilbrigði íbúa landsins, heilnæmu neysluvatni og öruggum matvælum. Þá má ekki gleyma því að vægi Íslands sem ferðamannalands eykst stöðugt og í því sambandi skiptir miklu máli að viðhalda þeirri ímynd að Ísland sé hreint land. Til að svo megi verða er mikilvægt að hér verði áfram hugað vel að fráveitumálum eins og öðrum þáttum umhverfismála.

Ég tel að sveitarfélögin hafi almennt staðið vel í þessum framkvæmdum, þó enn eigi mörg sveitarfélög eftir að ljúka framkvæmdum í samræmi við settar kröfur. Sveitarfélögin munu njóta þessara framkvæmda um ókomna tíð í hreinna umhverfi bæði fyrir íbúa sína og atvinnurekstur sem í æ ríkara mæli byggir afkomu sína á hreinu umhverfi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta