Hoppa yfir valmynd
24. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Til hamingju með daginn, konur

Félagsmálaráðuneytið óskar íslenskum konum til hamingju með 30 ára afmæli kvennafrídagsins, 24. október 1975. Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hvetur allar konur, sem þess eiga nokkurn kost, til þátttöku í deginum. Jafnframt skorar ráðherra á kynbræður sína að stuðla að sem bestri þátttöku í deginum með því að axla aukna ábyrgð á vinnustað og heimili.

Konur í félagsmálaráðuneytinu munu leggja niður störf kl. 14.08 á mánudag til að taka þátt í dagskránni. Væntanlega verður einnig víðtæk þátttaka í kvennafrídeginum meðal þeirra kvenna sem starfa hjá undirstofnunum félagsmálaráðuneytisins. Á samráðsfundi ráðherra og forstöðumanna stofnana ráðuneytisins beindi Árni Magnússon þeim tilmælum til forstöðumannanna að konur í starfsliði þeirra fái tækifæri til að taka þátt í dagskránni.

Á sama fundi kynnti félagsmálaráðherra ákvörðun um að hrinda í framkvæmd verkefni sem lýtur að launamun kynjanna hjá þessum stofnunum. Markmið verkefnisins er að fara kerfisbundið í gegnum launakerfi stofnana ráðuneytisins til að kanna hvort þar sé að finna óútskýrðan launamun sem rekja má til kynferðis starfsmanna í sambærilegum störfum. Það sama hefur þegar verið gert í ráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið í nánu samstarfi milli ráðuneytisins og þeirra stofnana er starfa á verksviði þess og að hver stofnun tilnefni tengilið við verkefnið sem jafnframt hefði umsjón með þeim hluta verkefnisins er fellur undir hlutaðeigandi stofnun. Ekkert er því til fyrirstöðu að stofnanir tilnefni fleiri en einn starfsmann telji forstöðumaður þörf á því.

Jafnframt hefur ráðherra vakið athygli atvinnurekanda á tækifæri þeirra sem þátttakendur í íslensku atvinnulífi til að taka virkan þátt í að koma í veg fyrir að vinnuframlag kvenna og karla séu metin á grundvelli ólíkra sjónarmiða. Liðsstyrkur þeirra er mikilvægur hlekkur í baráttunni gegn kynbundnum launamun en það hlýtur að vera hagur allra, einstaklinga jafnt sem fyrirtækja og stofnana, að kynbundinn launamunur heyri sögunni til.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum