Fundur fjármálaráðherra Norðurlandanna
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 19/2005
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sat í gærkvöldi fund fjármálaráðherra Norðurlandanna, sem haldinn var í Reykjavík.
Á fundinum var m.a. rætt um ástand og horfur í efnahagsmálum á Norðurlöndunum en þær eru alls staðar góðar þótt þær séu misjafnar. Árni M. Mathiesen gerði á fundinum grein fyrir efnahagshorfum á Íslandi en reiknað er með að hinn mikli hagvöxtur sem verður í ár haldi áfram á næsta ári. Síðan mun draga úr honum þegar stóriðjuframkvæmdunum lýkur, án þess að efnahagslegum stöðugleika sé ógnað.
Á fundinum var fjallað um rannsókna- og þróunarstarf á Norðurlöndunum og hvernig stjórnvöld búa að þeirri starfsemi. Staða allra Norðurlandanna er nokkuð lík í þessum efnum. Arðsemi fjármuna sem varið er til rannsókna- og þróunarstarfs er mikil.
Að undanförnu hafa fjármálaráðherrarnir unnið að því að draga úr þeim vandkvæðum sem einstaklingar og fyrirtæki lenda í þegar þau þurfa að eiga samskipti við yfirvöld yfir landamæri Norðurlandanna.
Á fundinum kom fram að vel hefur tekist til um norræna vefsíðu um skattamál sem opnuð var í vor og er ætlað að veita upplýsingar um skattamál fyrir þá sem vinna, stunda nám eða eiga eignir í öðru landi en þeirra heimalandi.
Vefsíðan, sem er hönnuð og vistuð hjá embætti Ríkisskattstjóra, hefur nú þegar fengið 35.000 heimsóknir og þar hefur verið svarað á þriðja hundrað fyrirspurnum um skattamál.
Vefsíðan er sett upp á léninu http://www.nordisketax.net.