Hoppa yfir valmynd
27. október 2005 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á aðalfundi

Landssambands íslenskra útvegsmanna fimmtudaginn 27. október 2005

Það er mér mikil ánægja að vera mættur hér á aðalfund Landssambands íslenskra útvegsmanna einu hagsmunasamtakanna í landinu þar sem ég hef nokkru sinni starfað. Ég átti sæti í stjórn Útvegsmannafélags Vestfjarða um nokkurra ára skeið og sótti aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það voru fróðlegir og ánægjulegir fundir sem hafa gagnast mér m.a. í starfi mínu sem þingmaður og nú síðast sem sjávarútvegsráðherra.

Mörgum ykkar kynntist ég á þessum tíma, og þau kynni hafa staðið æ síðan. Ég hef alltaf metið mikils samstarf við útgerðarmenn og þó að skoðanir mínar og margra ykkar hafi ekki alltaf farið saman, þá vil ég árétta að megin sjónarmið mín og íslenskra útvegsmanna hafa ævinlega verið hin sömu. Ég er þeirrar skoðunar að ákaflega mikilvægt sé að tryggt verði áfram í löggjöf okkar að veiðirétturinn við Íslandsstrendur sé bundinn íslenskri útgerð, það er aðalatriði.

Okkur getur greint á um nákvæmt fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar og ýmsa þætti hennar, en kjarni málsins lítur að nýtingarréttinum. Um þau mál hafa á hinn bóginn staðið miklar deilur hér á landi. Í þeim deilum hef ég skipað mér við hlið íslenskra útvegsmanna enda hef ég talið það vera forsendu skynsamlegrar auðlindanýtingar að fyrir lægi hvar veiðirétturinn lægi og enn fremur að ekki gengi að stjórnvöld byggðu inn í þann nýtingarrétt sjálfvirka skerðingu hans eins og sumir stjórnmálamenn hafa talað fyrir.

Það er einfaldlega skynsamlegra út frá sjónarhóli auðlindanýtingar, og hagkvæmni, að veiðirétturinn sé skýrt skilgreindur og afmarkaður og að hann sé í höndum þeirra sem hafa með nýtingu auðlindarinnar að gera. Þess vegna er ég talsmaður þess að nýtingarrétturinn sé útvegsmanna.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar miklar breytingar á fyrirkomulagi við stjórn fiskveiða. Það er rétt sem bent hefur verið á, að veiðiréttur smábátaflotans svokallaða hefur aukist ár frá ári. Ég ætla ekki að rekja þessar breytingar hér og nú. Enda er ykkur þær ljósar ekki síður en mér. Ég vil hinsvegar árétta þau sjónarmið sem ég hef áður sett fram, að ég tel að nú eigi menn að líta svo á að markalínurnar hafi verið dregnar.

Fiskveiðistjórnarkerfi okkar hefur verið mótað. Það er í aðalatriðum þrískipt:

Í fyrsta lagi, höfum við hið hefðbundna aflamarkskerfi, sem er aflahlutdeildarkerfi sem stærsti hluti veiðiréttarins fellur innan. Þetta er það sem menn hafa kallað kvótakerfið í daglegri umfjöllun. Þetta er einstaklingsbundið kerfi með framseljanlegum veiðirétti.

Í annan stað, hefur þróast býsna viðamikið fiskveiðistjórnarkerfi smábáta og ég veit að ýmsir í ykkar hópi myndu telja það full umsvifamikið. Þetta er krókaaflamarkskerfið sem er í grundvallaratriðum jafnframt einstaklingsbundið aflahlutdeildarkerfi með framseljanlegum veiðirétti.

Það er hins vegar grundvallaratriði sem ég legg mikla áherslu á að hér er um að ræða tvö aðskilin kerfi. Það á enginn að gera því skóna að múrana milli þessara kerfa eigi að rjúfa. Það væri óskynsamlegt, það myndi vekja upp deilur og væri í rauninni svik miðað við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í öndverðu. Vegna þess að aukinn veiðiréttur smábátanna var meðal annars varinn með því að þeir hefðu byggðalegu hlutverki að gegna og þess vegna bæri að leggja áherslu á sérstöðu þeirra.

Í þriðja lagi, er það sá hluti fiskveiðistjórnunarkerfis okkar sem byggist beinlínis á byggðatengdum úrræðum. Þar á ég jafnt við línuívilnunina og byggðakvótana sem þó eru tvískiptir. Þar erum við annars vegar með byggðakvóta sem notaðir eru til þess að bregðast við aðstæðum sem upp koma þegar veiðiréttur hverfur úr byggðalagi sem háður er sjávarútvegi.

Í annan stað vísa ég til þess sem ég hef kallað, “þegar náttúran tekur burtu veiðiréttinn”, og stafar af því að aðstæður í hafinu kippa burtu forsendum til nýtingar einstakra tegunda, eins og dæmin um innfjarðarveiði í skel og rækju eru gleggst um.

Þetta eru megindrættir fiskveiðistjórnarkerfisins í dag og það er ekki ætlun mín að raska þeim. Það er mikilvægt að sjávarútvegurinn hafi ráðrúm og frið til þess að skipuleggja sig. Það á jafnt við um greinina í heild og einstök fyrirtæki. Það er nefnilega alveg rétt sem sagt hefur verið, að óvissan er e.t.v. verst og þess vegna skiptir það máli að stefnan sé mörkuð til framtíðar.

Auðvitað er það þannig í síbreytilegum heimi að aðstæður breytast og við þurfum að vera menn til þess að bregðast við og að sjálfsögðu er það ekki svo að ekkert muni breytast í umhverfi fiskveiðistjórnunarinnar. Því getur enginn lofað né heldur er það æskilegt. Vegna þess einfaldlega að aðstæður kunna að kalla á breytingar. En meginatriðið er ótvírætt að mínu mati. Menn eiga að geta treyst því að grundvallarbreytingar verði ekki gerðar við þessar aðstæður. Ég bendi líka á að við höfum verið að gera miklar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu m.a. til þess að bregðast við athugasemdum sem komið hafa upp. Ég hef sjálfur tekið þátt í þeirri lagasetningu, sumpart með mótandi hætti. Við vitum afskaplega vel að það verða alltaf skiptar skoðanir um þessi mál en þó er öllum ljóst að minni úlfúð hefur ríkt í kringum sjávarútveginn nú upp á síðkastið og það er vissulega vel.

Góðir fundarmenn

Því er oft haldið fram að samþjöppun sé mikil í íslenskum sjávarútvegi. Slíkir orðaleppar og klisjur eru til dæmis algeng í pólitískri orðræðu og glamri því sem stundum á sér stað í svokallaðaðri sjávarútvegsumræðu. Allt er þetta kolrangt. Þessu er þveröfugt farið. Dreifing veiðiréttarins í sjávarútvegi er miklu meiri heldur en svarar dreifingu eignaraðildar í langflestum stóru atvinnuvegunum okkar. Og það er furðulegt að menn halda áfram að tala um samþjöppun í sjávarútvegi og vá af henni en ljá því ekki máls að setja skorður við eignarhaldi einokunar og fákeppnisfyrirtækja á viðkvæmasta sviði lýðræðis okkar, fjölmiðlamarkaðnum, þar sem þó er eitt skýrasta dæmið um samþjappað eignarhald.

Sjávarútvegur er einmitt eitt gleggsta dæmið í íslensku atvinnulífi um tiltölulega dreift eignarhald. Eða hvað ætli yrði sagt um okkar ágætu atvinnugrein ef einstök fyrirtæki réðu 50 til 60 prósent aflaheimilda, eða skiptu kvótanum í tvennt eða þrennt. Viðlíka aðstæður eru til staðar í ýmsum öðrum atvinnugreinum hér á landi.

Í sjávarútveginum er þessu allt öðru vísi farið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér standa tæplega eitt þúsund aðilar fyrir atvinnurekstri í útgerð í landinu. 292 einstaklingsútgerðir og 658 félög. Alls 950 aðilar. Flestir hafa sannarlega lítil umsvif, en þeir tryggja tiltekna dreifingu, sem skiptir máli. Fjölbreytnin hefur jafnan verið eitt af styrkleikamerkjum sjávarútvegsins. Það er afar mikilvægt að einstaklingar geti hér eftir sem hingað til fundið viðspyrnu krafta sinna í íslenskum sjávarútvegi. Ella verður hann ekki sá burðarás atvinnulífsins hér á landi sem hann hefur verið.

Það er auðvitað ljóst að stór fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi hafa eflst. Stærsta útgerðarfyrirtækið er þó aðeins í 17 sæti yfir veltumestu fyrirtæki landsins. Tíu stærstu fyrirtækin ráða yfir um helmingi kvótans. Tuttugu og eitt félag ræður yfir meiru en einu prósenti heildaraflaheimilda. Mörg þessara fyrirtækja eru með starfsstöðvar víða um land.  Ástæða er til að benda á að vægi stóru útgerðanna er mest í uppsjávartegundunum, tegundum sem veiddar eru utan lögsögu og í grálúðu og karfa sem eingöngu veiðast í botnvörpu. Það er engin tilviljun að þessi fyrirtæki eru stærri en önnur. Þessar veiðar krefjast mikils fjármagns. Þá er ljóst að áhrif hruns í innfjarðarrækju og skelfiskveiði var einkum áfall fyrir minni útgerðir, og hefur því haft afleiðingar fyrir dreifingu aflahlutdeilda.

Vissulega má deila um hvað telst mikið eða lítið. En í samanburði við fjölmiðla, smásölu, tryggingamarkað, flutningafyrirtækin, eða fjármálafyrirtækin, er eiginardreifing í sjávarútvegi mikil.  Stór og öflug fyrirtæki eru bráðnauðsynleg fyrir íslensk sjávarútveg. Þau eru forsenda þess að hægt er að ráðast í áhættusaman og fjármagnsfrekan rekstur. Uppbygging vinnsluskipa í uppsjávarfiski er gott dæmi um það. Sú þróun hefði ekki orðið nema vegna stórra og öflugra fyrirtækja, sem höfðu þá burði sem þurfti til mikillar fjárfestingar.

Hinu skulum við svo heldur ekki gleyma, að við tókum um það pólitíska ákvörðun að setja sérstök lög til þess að stuðla að dreifingu í eignarhaldi í sjávarútvegi. Ekkert fyrirtæki getur átt meiri kvóta en 12 prósent.  Sjálfur kom ég mjög að þeirri lagasetningu, sat meðal annars í nefnd sem undirbjó lagasetninguna og var síðan formaður sjávarútvegsnefndar er lögin voru endurskoðuð  fyrir skemmstu. Það er enginn vafi á að þessi lög hafa náð markmiði sínu og eru að mínu mati ein ástæða þess að smám saman hefur skapast meiri friður um atvinnugreinina. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að geta fundið sér mikið  svigrúm til athafna innan þeirrar löggjafar Að mínu mati er því ekki tilefni til að endurskoða lögin og minni á orð þess gamalreynda sjávarútvegsmanns, Árna Vilhjálmssonar stjórnarformanns HB Granda sem sagði í nýlegu viðtali við Fiskifréttir: “Kvótaþakið þrengir ekki að okkur”.

Enginn vafi er á því að alvarlegasta ógnin við stöðugleikann í sjávarútvegsumhverfinu um þessar mundir er hin sterka staða íslensku krónunnar. Það er öllum ljóst sem um þetta mál hugsa, að þetta háa raungengi stenst ekki til lengdar. Þetta getur ekki verið annað en skammtíma ástand og einungis spurning um hversu lengi það varir. Hið háa raungengi hefur nú þegar haft mjög alvarlegar afleiðingar. Það hefur orðið gríðarlegt tekjufall í sjávarútveginum, fyrirtæki hafa lokast, framundan eru frekari lokanir og ég óttast að við höfum ekki enn séð fyrir endann á uppsögnum í sjávarútvegi og öðrum útflutning- og samkeppnisgreinum.

Fólk út um allt land er að missa vinnu sína í sjávarútvegi. Þetta segir þó ekki alla söguna. Hin mikla þensla á ýmsum sviðum efnahagslífs okkar, hækkandi tekjur vegna launaskriðs þenslugreinanna og annað þar að lútandi hefur þegar sogað vinnuafl úr sjávarútveginum. Ég heyri það frá mönnum í útgerð og fiskvinnslu að áhyggjuefni þeirra er m.a. það að góðir starfsmenn hverfi í önnur störf.

Þetta er nýr veruleiki sem við stöndum nú skyndilega frammi fyrir. Sjómennska og fiskveiðar hafa oftast verið hátekjustörf á Íslandi. Þegar við skoðum tekjudreifinguna í landinu hvort sem er eftir starfsstéttum eða búsetu þá hefur hún mjög markast af þessari staðreynd. Hrein sjávarútvegspláss þar sem fiskveiðar hafa verið hlutfallslega stór hluti vinnumarkaðarins hafa verið hátekju staðir. Það er þess vegna nýtt fyrir okkur hina síðustu áratugi að sjómenn hætti jafnvel í góðum plássum til þess að taka sér fyrir hendur önnur störf.

Þetta er hins vegar ein afleiðing gengisþróunarinnar, afleiðing sem að ég hef tekið eftir að hefur farið hljóðlega. Þetta undirstrikar enn frekar að fátt sé brýnna um þessar mundir en að stuðla að því að raungengi íslensku krónunnar lækki án þess að það hafi í för með sér efnahagslega kollsteypu og víxlverkun kaupgjalds og verðlags. Sjálfur hef ég sett fram mjög skýrar skoðanir í þessum efnum, og reifað tillögur sem ég hygg að gætu leitt til þess að raungengi krónunnar lækkaði og bætt raunverulega kjör útflutningsgreinanna.

Ekkert af því sem fram hefur komið síðan, ég ræddi þetta síðast á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva, hefur dregið úr því áliti mínu að þetta sé gerleg leið. Við eigum hins vegar ekki að ímynda okkur að viðfangsefnin séu auðleysanleg því það eru þau ekki. Það er skynsamlegt við þessar aðstæður að auka gjaldeyriskaup Seðlabankans bæði til þess að hamla gegn raungengishækkuninni en einnig er það hrein varúðarráðstöfun vegna mikilla kaupa útlendinga á íslensku krónunni. Til viðbótar þessu þurfa að koma til aðgerðir sem að stuðla að því að draga úr heildarlánveitingum fjármálastofnana jafnt opinberra sem bankanna á sviði íbúðalána sem hafa verið sannarlega ein uppspretta þeirrar miklu þenslu sem við höfum glímt við núna síðustu mánuðina og misserin.

Í umræðum um þær þrengingar sem steðjað hafa að útflutningsgreinunum vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar hefur m.a. verið spurt hvort ekki væri tilefni til að varpa burt íslensku krónunni og taka upp annan gjaldmiðil og hefur Evran einkanlega verið nefnd í því sambandi. Þetta er í rauninni afskaplega athyglisvert. Flestar þjóðir sem velta því fyrir sér hvort þær eigi að gefast upp á sínum eigin gjaldmiðli gera það vegna þess að staða gjaldmiðils þeirra sé veik, ellegar af einhverjum öðrum efnahagslegum ástæðum. Menn líta svo á að gjaldmiðillinn sé of veikburða og standist því ekki.

Það er fróðlegt að veita því athygli að hér á landi eru menn ekki að ræða um þessa hluti á þeim forsendum. Menn eru að tala um að gefa íslenska gjaldmiðilinn á bátinn, og falla frá notkun hans vegna þess að hann sé of sterkur. Ég hygg að flestum öðrum þjóðum þætti þetta einkennileg röksemd. Styrkleiki gjaldmiðilsins í hverju landi er talinn styrkleikavottur hagkerfisins, og það vitum við að hin öfluga íslenska króna er ekki til marks um veikt efnahagskerfi okkar. Þvert á móti. Það er skýr vísbending um að efnahagslíf okkar sé í miklum vexti, enda er það svo. Hagvöxtur okkar er langt umfram það sem gerist hjá mörgum öðrum þjóðum og er auðvitað ein ástæða þess að hér ríkir mikil framleiðsluspenna og eftirspurnaþensla sem aftur á móti veldur erfiðleikum útflutningsgreinanna.

Fræðilega má hugsa sér að Íslendingar geti ákveðið að festa sig við Evruna en gallinn er hins vegar sá að það myndi rekast á við veruleikann – pólitíska veruleikann. Hann segir okkur að við  getum ekki,  frekar en aðrir, tekið upp Evruna sem gjaldmiðil nema að gerast aðilar að Evrópusambandinu.  Menn eiga þess vegna að tala skýrt.  Það gerði Jens Stoltenberg, nýr forsætisráðherra Noregs á Norðurlandaráðsþingi hér í vikunni þegar hann lagði áherslu á að forsenda fyrir aðild að evrusamstarfinu væri aðild að Evrópusambandinu. Hér heima eiga menn ekki að láta eins og þessu sé öðruvísi farið. Ég þarf ekki að útskýra fyrir íslenskum útvegsmönnum hvaða áhrif Evrópusambandsaðild  hefði að öðru leyti fyrir íslenskan sjávarútveg.

Um áhrifin á íslenskt efnahagslíf ef við yrðum hluti af hinu evrópska myntbandalagi og köstuðum íslensku krónunni út í ystu myrkur má fjalla í löngu máli. Flest af því sem sagt hefur verið því til ágætis er ofmælt og oftast hreinlega ósatt. Það er ekki forsendan fyrir lágum vöxtum, eða lægra matvöruverði að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu eða tökum upp Evruna sem mynteiningu okkar. Þar ráða þættir sem við höfum pólitískt vald á. Og er það ekki einmitt kjarninn í því að vera sjálfstæð þjóð að við getum ráðið þessum ráðum okkar sjálf.

En aðalmálið er þó þetta. Íslenskt efnahagslíf er ákaflega öflugt. Það lýtur sínum lögmálum og þær umbreytingar sem við höfum gert á efnahagslífinu okkar hafa stuðlað að því að auka hér verðmætasköpun og hagvöxt. Hagsveiflur okkar ráðast á hinn bóginn af allt öðrum þáttum en segja má um hagkerfi margra Evrópuþjóða. Að minnsta kosti er það engan vegin víst eða að við getum gengið út frá því sem gefnu að hagsveifla okkar sé ævinlega í takt við evrópska hagsveiflu. Það er ljóst að við þurfum á því að halda að geta brugðist við þeim sér íslensku aðstæðum sem uppi eru og uppi verða í okkar efnahagslífi. Upptaka Evrunnar væri ekki gerð nema með miklum efnahagslegum fórnarkostnaði sem örugglega reyndi meira á stjórn ríkisfjármála en nú og væri án efa skaðleg lífskjörum almennings í landinu.

Við eigum þess vegna ekki að láta stundarvandræði sem steðja að vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar villa okkur sýn. Við erum fólk sem höfum allar forsendur til þess að taka á þessum málum og munum gera það. Fyrr en síðar mun íslenska krónan gefa eftir, ofurgengi hennar stenst nefnilega engar efnahagslegar forsendur, til lengdar.

Góðir fundarmenn

Eitt þeirra umræðuefna sem oft hafa verið uppi á dagskrá funda meðal útvegsmanna er spurningin um hið svokallaða útflutningsálag. Að þessum málum hefur verið unnið m.a. á vettvangi Sjávarútvegsráðuneytisins í hinni svokölluðu starfsumhverfisnefnd undir forystu Vilhjálms Egilssonar ráðuneytisstjóra. Þessi mál eru ekki einföld og hafa oft verið viðkvæm. Í tíð forvera míns voru gerðar breytingar á útflutningsálaginu og dregið úr áhrifum þess og gildir það nú eingöngu um fisk sem seldur er á erlendum mörkuðum án þess að hann sé veginn hér á landi.

Þessi mál þarf hins vegar að ræða í víðu samhengi. Við erum að reyna að þróa okkar sjávarútveg, og við erum sífellt að leita leiða til þess að auka tekjumyndun í greininni. Við sjáum hvarvetna stórkostlega hluti gerast í þeim efnum. Ég nefni aðeins dæmi af norsk-íslensku síldinni. Aflaverðmæti hennar verður nú um fimm milljarðar á þessari vertíð. Þarna sjáum við í hnotskurn þá möguleika sem eru til staðar til verðmætaaukningar, séu aðstæður réttar.

Forsenda þessa alls er að kvótinn sé nýttur á sem arðbærastan hátt. Til þess að það megi vera hægt þurfum við að eiga greiðar leiðir inn á þá markaði sem hentugastir eru hverju sinni. Þar hefur auðvitað heilmikið áunnist, en ekki nóg. Ennþá viðheldur Evrópusambandið þó tollamúrum gagnvart nokkrum unnum og óunnum fisktegundum okkar sem gera það að verkum að heildartollgreiðslur okkar til Evrópusambandsins eru um þessar mundir nær þrjú hundruð milljónir á ári. Þarna er um að ræða viðskiptalega hindrun sem kemur í veg fyrir að við getum nýtt þau tækifæri að fullu sem ella væru til staðar í sjávarútveginum.

Tollgreiðslurnar segja nefnilega ekki nema hluta sögunnar. Ef við hefðum að öllu leyti greiða leið inn á þessa markaði er alveg ljóst að við gætum þróað nýjar vinnsluaðferðir og aukið verðmætasköpun sem um munar. Við höfum því sagt við ESB: Stefna okkar er skýr. Þessa hluti ber að ræða í samhengi. Það kemur ekki til greina með einhliða hætti að falla frá útflutningsálaginu, við gerum þá kröfu til Evrópusambandsins að það komi til móts við okkur jafnframt, með því að brjóta niður að fullu tollmúrana gagnvart okkur.

Nýlega var undirritaður samningur  um að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði Íslands og Færeyja. Samningurinn mælir fyrir um frelsi á sviði vöruviðskipta, þjónustuviðskipta og fjárfestinga. Tekur samningurinn m.a. til viðskipta með landbúnaðarafurðir. Samkvæmt samningnum skulu íslenskir ríkisborgarar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar og færeysk fyrirtæki. Jafnframt skulu Færeyingar og færeysk fyrirtæki njóta sömu réttinda hér og landi og íslenskir ríkisborgara og íslensk fyrirtæki. Samningurinn kemur í stað fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja frá árinu 1992. Þetta er afar mikilvægt skref og opnar leiðir fyrir okkur. Ég heimsótti  Færeyjar í minni fyrstu heimsókn til útlanda sem sjávarútvegsráðherra í síðustu viku og skynjaði vel þær vonir sem þar eru bundnar við samninginn. Á fundi okkar Björns Kalsö sjávarútvegsráðherra Færeyja lýsti ég því yfir að við værum tilbúnir til þess að aflétta að fullu  útflutningsálaginu á fisk sem fluttur er til Færeyja, í kjölfar þessa samnings. Jafnframt lýsti starfsbróðir minn ætlun Færeyinga að gera hið sama varðandi fisk sem seldur er til Íslands. Vænti ég þess að okkur takist innan skamms að hrinda þessari fyrirætlun í framkvæmd. Þetta er glöggt dæmi um áþreifanlegan árangur af viðræðum um aukna fríverslun og sem hafa það að markmiði að greiða fyrir viðskiptum á  milli landa.

Sannleikurinn er sá að við höfðum af því mikla hagsmuni að viðskipti með okkar vörur séu sem frjálsastar. Þar skiptir Evrópumarkaðurinn að sjálfsögðu mestu og EES samningurinn tryggir okkur góðan aðgang að þeim markaði. En jafnframt þessu höfum við unnið að því í samvinnu við utanríkisráðuneytið að styrkja stoðir viðskiptanna með sjávarafurðir miklu víðar.  Við höfum átt í tvíhliða viðræðum við Rússland og Úkraínu og höfum nú þegar gert fjórtán fríverslunarsamninga ásamt EFTA ríkjunum sem tryggja okkur nýja markaði. Í sumum þessara ríkja hafa  tollar verið háir og þessi samskipti og samningar geta skipt máli einkum þegar til lengri tíma er litið.

Við þekkjum að fjarlægðin milli landanna verður sífellt minni og í raun afstæðari. EFTA, fríverslunarsamtökin, hafa lagt höfuðáherslu á bætt viðskiptaumhverfi í Asíu enda eru þar að opnast miklir möguleikar. Í Asíu er ekki eingöngu að finna keppinauta okkar heldur líka framtíðartækifæri. Þess vegna ber okkur að leggja á það áherslu að leiðir viðskiptanna séu sem greiðastar þannig að við getum fundið okkur færi á hámarks tekjuaukningu.

Oft er rætt um mikilvægi þess að stjórn fiskveiða sé ábyrg og sjálfbær til lengri tíma litið. En þegar talað er um íslenskan sjávarútveg og íslenska sjávarútvegshagsmuni er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er málefni sem nær lengra en íslensk fiskveiðilögsaga. Stór hluti þess afla sem við veiðum er úr fiskistofnum sem eru að einhverju leyti utan íslenskar lögsögu. Mikilvægi þess að hafa ábyrga stjórn á veiðum úr þessum stofnum er ekki minna en varðandi þá stofna sem halda sig algerlega innan lögsögunnar. Það er hins vegar flóknara mál að tryggja ábyrgar veiðar úr svona fiskistofnum, þar sem það er ekki verk fyrir einstök ríki að setja stjórnunarráðstafanir. Til þess að setja reglur um stjórn veiðanna er nauðsynlegt að náist samkomulag milli viðkomandi strandríkja og þeirra sem stunda veiðar úr stofnunum á úthafinu.

Reynsla okkar Íslendinga er sú að það er bæði erfitt að ná samkomulagi um stjórn veiðanna og að viðhalda samkomulaginu eftir að því hefur verið náð. Þannig var í gildi samningur um stjórn veiða úr norsk- íslenska síldarstofninum til nokkurra ára, en Norðmenn neituðu að framlengja hann. Við erum því aftur samningaferli um skiptingu veiðiheimilda í þessum mikilvæga fiskistofni. Ísland gaf nokkuð eftir þegar samningur var gerður á sínum tíma og því er varla rétt að gefa frekar eftir nú. Eina leiðin fram á við er  að strandríkin ræði saman og komist að niðurstöðu um tilhögun veiðanna. Allir tapa á því til lengri tíma ef veiðarnar fara úr böndunum. Við sáum okkur til neydda að auka leyfilegan heildarafla íslenskra skipa til jafns við einhliða hækkun Norðmanna, til þess að hlutur Íslendinga í veiðunum minnkaði ekki. Vonandi verður þetta mál leyst án þess að til komi víxlhækkanir á leyfilegum heildarafla strandríkjanna ógni viðkomu stofnsins. Við þekkjum það nú þegar of vel hvaða afleiðingar það hefur að stunda ofveiðar úr þessum stofni. Ástandið er sem betur fer ekki orðið alslæmt varðandi norsk- íslenska síldarstofninn og gengu veiðar íslenskra skipa vel í ár. Óskandi er að líka gangi vel að leysa þá deilu sem uppi er um skiptingu veiðiheimilda milli strandríkjanna. Viðræður strandríkjanna munu halda áfram og er málið að því leyti í réttum farvegi. Einfaldasta leiðin er væntanlega sú að nota áfram þá skiptingu sem kveðið var á um í því samkomulagi sem áður var í gildi. Þegar samkomulag næst þarf síðan strax að huga að því að finna færa leið til að halda samningum í gildi til lengri tíma.  Ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar í því sambandi og rétt að skoða sumar þeirra nánar.

Ástandið er heldur ekki nógu gott varðandi stjórn veiða á karfa á Reykjaneshrygg. Þeim veiðum var stjórnað með samkomulagi viðkomandi ríkja um nokkurra ára skeið. Við Íslendingar neyddumst til að segja skilið við þær stjórnunarráðstafanir þegar samstarfsaðilar okkar neituðu að miða stjórnunina við það að um tvo karfastofna er að ræða sem rétt sé að stjórna sem aðskildum stjórnunareiningum. Undanfarin ár höfum við sýnt það í verki að aðskilin stjórnun er vel framkvæmanleg. Nú er unnið að því í samvinnu við Grænland og Færeyjar að koma á heildarstjórn, á vettvangi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, á karfaveiðunum á grunni aðskildra stjórnunareininga og vonandi skilar sú vinna árangri fljótlega.

Kolmunnastofninn er sá fiskistofn sem mest er veitt af í Norður-Atlantshafi, í tonnum talið, en ljóst er að veiðarnar eru mun meiri en stofninn þolir til lengri tíma. Á síðasta ári voru veiddar yfir 2,4 milljónir tonna af kolmunna, sem er líklega ekki fjarri því að vera milljón tonnum meira en ráðlegt hefði verið. Þessi ofveiði, ásamt því hvað fiskistofninn er mikilvægur fyrir marga, sýnir öðru fremur hversu mikilvægt er að samkomulag náist um stjórn veiða úr stofninum. Samningaviðræður milli strandríkjanna hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið en lengst af þokaðist ekki mikið í samkomulagsátt. Það er því svo sannarlega fagnaðarefni að undanfarið hafa stór skref verið tekin sem hafa fært samningsaðilana mun nærri hvor öðrum en áður hefur þekkst í þessum viðræðum. Strandríkin voru ekki fjarri samkomulagi á samningafundi sem haldinn var hér á landi í síðasta mánuði.  Í lok hans  var ákveðið að halda annan samningafund í lok þessa mánaðar þar sem byggt yrði á þeim árangri sem náðst hefur. Markmiðið er að samkomulag verði tilbúið á fundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar í Lundúnum um miðjan nóvember næstkomandi.

Ljóst er að fulltrúar útgerðarmanna eiga stórann þátt í því að skera á þann hnút sem myndast hafði í kolmunnaviðræðunum. Meðal annars að frumkvæði Árna M. Mathiesen forvera míns í embætti sjávarútvegsráðherra fóru fram viðræður milli fulltrúa útgerðarmanna í þeim löndum sem stunda kolmunnaveiðar. Landsamband Íslenskra Útvegsmanna átti sína fulltrúa í þessum viðræðum. Þótt fulltrúum útgerðarmannanna hafi ekki tekist að ná  samkomulagi allra er alveg ljóst að þessar viðræður urðu til þess að minnka bil milli strandríkjanna umtalsvert og urðu þær því til þess að auka til muna líkurnar á því að gengið verði frá samkomulagi á næstunni.

Öll strandríkin hafa slegið af kröfum sínum til þess að gera samkomulag mögulegt. Fyrir liggur þó að strandríkin hafi ekki öll spilað út tillögum um hlutdeild fyrir sig sem eru þess eðlis að þær geti orðið grunnur samkomulags. Ísland hefur lýst sig tilbúið til þess að sætta sig við lægri hlutdeild en áður, ef slíkt geti orðið til þess að samkomulag náist. Við teljum að eðlileg hlutdeild Íslands ætti að vera nálægt 23%, en höfum í kjölfar viðræðna útgerðanna lýst okkur tilbúna að sætta okkur við umtalsvert lægri hlut í endanlegu samkomulagi. Um er að ræða minni hlutdeild en við getum með góðu móti sætt okkur við, en eina leiðin til þess að samkomulag náist er að allir sætti sig við það sem þeir hafa hingað til talið óásættanlegt. Með þessu útspili er Ísland að sýna að við erum tilbúin til þess og þær umræður sem verið hafa á samningafundum undanfarið benda til þess að í það minnsta flest af hinum strandríkjunum séu tilbúin til sambærilegrar eftirgjafar. Sú von er því sterkari nú en áður að brátt muni takast að gera samkomulag um stjórnun kolmunnaveiða, og þar með binda enda á þá ofveiði sem við höfum horft upp á undanfarin ár.

Varðandi fiskistofna sem ekki eru að öllu leyti innan íslenskrar lögsögu gildir almennt sú regla að rétt sé að ganga langt í þeirri viðleitni að ná samkomulagi um stjórn veiðanna en jafnframt að gefa ekki svo mikið eftir að íslenskir hagsmunir séu ekki varðir sem skyldi. Svæðisbundið samstarf þeirra ríkja sem eiga beinna hagsmuna að gæta er lykillinn að árangri í þessu efni. Vandamál eru vissulega til staðar, en það er ljóst að það myndi ekki einfalda málin að færa þau í auknum mæli á hnattrænan vetvang eins og ýmsar raddir á alþjóðavettvangi hafa lagt til undanfarin misseri. Slíkt myndi þvert á móti gera málin erfiðari. Ef við eigum í erfiðleikum með að ná sameiginlegri niðurstöðu með góðum vinum okkar, eins og Norðmönnum og Færeyingum, þá er ekki auðvelt að sjá að einfaldara yrði að ná sameiginlegri niðurstöðu meðal enn fleiri ríkja.

Það fyrirkomulag sem er í gildi um hvernig tekið skuli á ósamkomulagi um stjórn veiða úr stofnum sem eru bæði innan og utan lögsagna ríkja á rætur sínar að rekja til þeirrar niðurstöðu sem varð á deilum standríkja og úthafsveiðiríkja fyrir bráðum þremur áratugum síðan. Það er ekki þörf á því að ræða í löngu máli hlutverk Íslands í því að fá rétt strandríkja til 200-mílna efnahagslögsögu viðurkenndan. Þó er kannski rétt að benda á að í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, sem m.a. staðfesti þennan rétt strandríkjanna, er að finna reglur um rétt ríkja til að taka þátt í að móta fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar á úthafinu. Þann rétt hafa viðkomandi strandríki og þau ríki önnur sem stunda veiðar á úthafinu. Ríki sem hvorki eru strandríki né stunda veiðar úr viðkomandi stofni á úthafinu hafa ekki þennan rétt, og ekki er hægt að sjá að það myndi gera neitt annað en að torvelda lausn þeirra vandamála sem upp koma ef ríki sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta tækju þátt í tilraunum til að leysa viðkomandi vandamál.

Bann við botnvörpuveiðum á úthafinu hefur verið ofarlega á baugi í fréttum í alþjóðamálum sjávarútvegsins síðustu vikurnar.  Sem kunnugt er hafa umhverfissamtök eða félög  í hátt í fjörutíu ríkjum sammælst um að bann við veiðum á úthafinu sé besta leiðin til að vernda viðkvæm hafsvæði. Á undanförnum árum hafa komið fram upplýsingar um miklu fjölbreyttara líf djúpt í höfunum en menn höfðu gert sér grein fyrir m.a. hitakærar örverur sem eru við uppstreymi á hafsbotni, alls kyns lífverur sem sumir telja að nota megi til lyfjaframleiðslu og hægvaxandi kórallasvæði sem geta verið mikilvæg búsvæði fyrir seiði og ungfisk.   Í umræðunni hefur  sérstaklega verið bent á fjöll á hafsbotni í  hæðir sem rísa 1000 metra yfir umhverfi sitt þar sem því er haldið fram að verið sé að valda vistkerfum skaða með veiðum. 

Við Íslendingar höfum lagt á það áherslu að umræðan snúist um aðferðir en ekki hvort eigi að vernda viðkvæma náttúru. Það vilji ábyrgar fiskveiðiþjóðir gera.  Það skipti hinsvegar höfuðmáli fyrir litla þjóð sem er jafn háð sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins að standa vörð um þann ramma sem Hafréttarsamningurinn setur stjórn athafna mannsins á hafinu. Í honum er fléttað saman réttindum og skyldum strandríkja,  ábyrgð þjóða á nýtingu og vernd lífríkis hafsins. Þegar takmarka þarf rétt til veiða er það stefna Íslands að  byggja skuli á bestu vísindalegu þekkingu og gera það í samstarfi þeirra ríkja sem næst eru og hagsmuna eiga að gæta, það er að segja í svæðisbundnum stjórnunarstofnunum.

Við minnum gjarnan á að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hafi orðið fyrst til að loka viðkvæmu hafsvæði á úthafinu og að unnið sé að breytingum á fiskveiðistjórnunarstofnunum í okkar heimshluta til að gera þær betur í stakk búnar til að grípa til slíkra aðgerða þegar þörf krefur. 

En eigum við að láta okkur það varða ef mælt er fyrir því að setja algert bann við botnvörpuveiðum  þar sem engar stjórnunarstofnanir eru – langt út í heimi ?. Það er stefna Íslands að það sé afar mikilvægt að slík nálgun verði ekki ofan á.  Kemur þar tvennt til,  Í því felst vísir að því að beita hnattrænum lausnum í fiskveiðistjórnun. Það skiptir þjóð sem er jafn háð nýtingu lifandi auðlinda sjávar öllu að það verði ekki viðtekin aðferð. Svæðisbundna nálgunin er mun betri en sú hnattræna,  auk þess sem við höfum vonda reynslu af tímabundnum hnattrænum veiðibönnum. Bann á tiltekna veiðiaðferð á tilteknum svæðum er í annan stað ólíkleg til að skila árangri í náttúruvernd. Færa má rök fyrir hinu gagnstæða. Einungis þau ríki sem samþykkja slík bönn eru bundin af þeim. Líklegt er að það verði frekar þeir sem stunda veiðar af ábyrgð sem hætti, þar með fellur út það eftirlit sem viðkomandi ríki hafði með veiðunum. Svigrúm hinna sem láta sér reglur í léttu rúmi liggja  aukist án þess að af því berist fréttir eða upplýsingar um afla og  ástand svæða. Slíkar upplýsingar eru forsenda þess að hægt sé að raunverulega vernda það sem þarf að vernda.

Að samtvinna réttindi og skyldur einstakra ríkja í vernd og nýtingu eins og  Hafréttarsamningurinn kveður á um er grundvallaratriði sem ekki má missa ekki sjónir af,  né heldur því hvað það er mikilvægt  grafa ekki undan honum og byggja á því skipulagi sem hann kveður á um.

Umræðu á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um þessi mál og önnur hafmálefni lýkur í byrjun nóvember.  Við erum bjartsýn á að sú samstaða sem náðist meðal strandríkja á ráðstefnu í St. Johns í Kanada  í vor um að standa gegn þessum hugmyndum skili sér þar. Þar með lýkur þessari lotu en það þýðir ekki að málið sé í höfn til frambúðar. Umræða heldur áfram og mikilvægt að strandríkin haldi vöku sinni og efli samráð sitt í alþjóðasamstarfi um málefni hafsins.

Nátengt umræðu um botntrollsbann á úthafinu er umræða um verndarsvæði í hafi.  Oftlega hefur verið bent á  að verndarsvæði í hafi séu allt of fá miðað við verndarsvæði á landi og úr því þurfi að bæta. Ekki er með öllu skýrt hvað er verið að ræða þegar talað er um verndarsvæði í hafi. Samkvæmt flokkun náttúrverndarsamtakanna IUCN eru til 6 flokkar verndarsvæða bæði á landi og sjó sem gera ráð fyrir mismikilli nýtingu innan þeirra. Samkvæmt þeirri skiptingu má líta á öll Íslandsmið sem verndarsvæði í hafi. Að okkar mati skipta forsendurnar og sjónarhornið sem tekið er máli. Takmarkanir á athafnafrelsi eiga að vera afmarkaðar og beinast að skilgreindum áhættuþáttum en ekki ákveðnar út frá  markmiðum svo sem um að tiltekin stjórnun nái til ákveðins tölulegs hlutfalls af heimshöfunum.

Í útfærslu samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem Ísland hefur fullgilt, er gert ráð fyrir tveimur gerðum verndarsvæða í hafi, svæða þar sem takmörkuð nýting er leyfð og þar sem hún er bönnuð.  Samningurinn hefur þrjú markmið, vernd líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra nýtingu og réttaláta skiptingu arðs af erfðaauðlindum.  Í samstarfi aðildaríkja samningsins er verndarsvæðum í hafi mjög hampað sem lausn á stjórnunarvanda fiskveiða í heiminum. Síðastliðið sumar var haldinn á vettvangi samningsins geysifjölmennur fundur um verndarsvæði, meðal annars í höfum. Strandríkin mættu öflugri en oftast til fundarins. Náðist ekki samkomulag um drög að tillögum til aðildarríkjafundar samningsins og fara drög þau því þangað án nokkurrar skuldbindingar af fyrri stigum.   Meðal þess sem hafnað var á þessum fundi var hvers kyns töluleg markmiðasetning um verndarsvæði í höfunum.  Búast má við að á aðildarríkjaþinginu í Brasilíu á næsta ári verði tekist mjög á um drögin og afgreiðslu þeirra en þar er að finna m.a. tillögu ESB um að gerður verði sérstakur viðbótarsamningur við Hafréttarsamninginn um úthafið sem Ísland telur ekki þörf á. Í drögunum eru líka ýmsar tillögur sem eru okkur meira að skapi  s.s. um að nota samninga sem þegar hafa verið gerðir og að styrkja svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir. Í  sjávarútvegsráðuneytinu fögnum við aukinni áherslu og þátttöku íslenskra hagsmunaaðila  í alþjóðlegu umræðu um málefni hafsins og vekjum í því samhengi, athygli á þessum aðildarríkjafundi samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Ábyrgð strandríkja er mikil og Ísland stendur vel undir henni fyrir sitt leyti. Það skiptir okkur miklu máli að veiðar á úthafinu séu ábyrgar og nýtingu fiskistofna sé stjórnað þannig að þeir gefi afrakstur til framtíðar. Besta leiðin til þess er að standa vörð um Hafréttarsamninginn og tryggja framfylgd hans. Þannig stöndum við best vörð um þau réttindi strandríkja sem við lögðum mikið á okkur til að öðlast, þar á meðal að þeir fari með völdin á úthafinu sem raunverulegra hagsmuna eiga að gæta.

Kæru útvegsmenn.

Sjávarútvegurinn er ákaflega lifandi, fjölþætt og ögrandi atvinnugrein. Hún þarf á góðu fólki að halda, til þess að verða í framtíðinni sá efnahagslegi bakfiskur sem þjóðfélag okkar treystir á. Til þess þarf að skapa henni góð starfsskilyrði og  starfsfrið og hún þarf að vera ungu fólki aðdráttarafl.  Við eigum til þessa alls,  allar forsendur. Ég lít á það sem sameiginlegt verkefni atvinnugreinarinnar og stjórnvalda að vinna að því, og hlakka til samstarfs við ykkur við það verk í framtíðinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum