Hoppa yfir valmynd
28. október 2005 Innviðaráðuneytið

Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands 2005

Í ár hlaut Gistiheimilið Brekkukot á Sólheimum í Grímsnesi verðlaunin.

Sturla Böðvarson afhenti Aðalheiði Ástu Jakobsdóttur, forstöðumanni Brekkukots, verðlaunagripinn og flutti að því tilefni eftirfarandi ávarp:

Samkvæmt lögum um Ferðamál og markmið Ferðamálaáætlunar Samgönguráðuneytisins ber Ferðamálaráði að sinna umhverfismálum á ýmsan hátt. Eitt af hlutverkum stofnunarinnar er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum. Síðustu ellefu ár hafa yfirvöld ferðamála óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna, jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðaþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum.

Í ár bárust 7 tilnefningar og hefur Ferðamálaráð Íslands komist að þeirri niðurstöðu að Gistiheimilið Brekkukot á Sólheimum í Grímsnesi hljóti verðlaunin að þessu sinni. Vert er að taka fram að sjaldan hefur verið jafn erfitt að velja á milli aðila því allir þeir sem hlutu tilnefningu eru verðugir verðlaunahafar.

Gistiheimilið Brekkukot á Sólheimum er sjálfstætt fyrirtæki, stofnað árið 1997. Fyrirtækið býður upp á fjölþætta þjónustu á Sólheimum því auk gistingar sér það um rekstur og umsjón mötuneytis Sólheima, rekstur kaffihússins Grænu könnunnar, veitingarekstur, fundi, námskeið og ráðstefnuþjónustu í Seljuhúsi. Brekkukot hefur markað sér stefnu í anda Grænnar ferðaþjónustu og er fyrsta gistihúsið á Íslandi sem fékk opinbera viðurkenningu þar um. Öll starfsemin byggir á þeim grunni sem lagður var af Sesselju H. Sigmundsdóttur við stofnun Sólheima.

Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og vera í sátt við náttúruna. Í auknum mæli gera neytendur kröfu um gæði og hreinleika vöru og þjónustu og að starfsemin sé öll í sátt við umhverfið. Samfélagið á Sólheimum og starfsemin innan þess er í fararbroddi og til fyrirmyndar fyrir fyrirtæki og samfélög sem vilja bæta þjónustu við þann sístækkandi hóp fólks sem lætur sig umhverfismál varða.

Vil ég að svo mæltu biðja Aðalheiði Ástu Jakobsdóttur, forstöðumann Brekkukots að koma og taka við verðlaununum.

Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við - til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunnin hluti pýramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta