Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2005 Matvælaráðuneytið

Samkomulag um stjórn veiða úr kolmunnastofninum á Norður-Atlantshafi

 

 

Fréttatilkynning frá

sjávarútvegsráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu

 

 

 

Í strandríkjaviðræðum Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn náðist í gær samkomulag í meginatriðum um stjórn veiða úr kolmunnastofninum á Norður-Atlantshafi. Enn á þó eftir að ganga frá útfærsluatriðum samkomulagsins, sem ekki varða Ísland, í tvíhliða viðræðum, áður en hægt verður að skrifa undir endanlegt samkomulag. Varðar það aðgang að veiðisvæðum.

 

Stefnt er að frágangi samkomulagsins á ársfundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC, sem haldinn verður í Lundúnum dagana 14. til 18. nóvember næstkomandi.

 

Samkvæmt þessu munu strandríkin skipta leyfilegum heildarafla sínum úr kolmunnastofninum með þeim hætti að Evrópusambandið fær 30,5%, Færeyjar 26,125%, Noregur 25,745% og Ísland 17,63%.

 

Með samkomulaginu verður bundinn endir á stjórnlausar veiðar undanfarinna ára sem ógnað hafa viðgangi kolmunnastofnsins en hann er sá fiskstofn sem mest hefur verið veitt úr á Norður Atlantshafi undanfarin ár.

 

 

 

2. nóvember 2005

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum