Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Þjónusta við aldraða – skýrsla Ríkisendurskoðunar

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrslu um þjónustu við aldraða þar sem könnuð eru þrjú meginmarkmið stjórnvalda í öldrunarmálum. Í fyrsta lagi kannar Ríkisendurskoðun markmiðið um að fólk, sem er í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými, þurfi ekki að bíða lengur en í 90 daga eftir vistun. Fram kemur að það markmið hafi þegar náðst ef miðað er við tímann frá því að fólk er talið vera í mjög brýnni þörf þar til það fær vistun. Um annað og þriðja markmiðið sem Ríkisendurskoðun kannar segir: “Annað markmið stjórnvalda felur í sér að meira en 75% fólks 80 ára og eldra sé við svo góða heilsu að það geti með viðeigandi stuðningi búið heima. Sé horft til hlutfalls þessa aldurshóps sem dvaldi á öldrunarstofnunum árið 2003 (23,8%) hefur þetta markmið náðst. Þó ber að hafa í huga að það ár biðu um 310 einstaklingar í þessum aldurshópi eftir hjúkrunarrými í mjög brýnni þörf vistun. Þetta eru um 3,5% allra 80 ára og eldri. Séu þeir taldir með þegar metinn er fjöldi þeirra sem getur búið heima vantar enn nokkuð upp á að 75% markmiðinu hafi verið náð.

Þriðja markmið stjórnvalda felur í sér að til séu í landinu hjúkrunarrými fyrir 25% aldurshópsins 80 ára og eldri. Þetta svaraði til 2.207 rýma árið 2003 en þá voru alls 2.212 hjúkrunarrými fyrir aldraða í landinu. Fólk undir áttrætt hefur reyndar nýtt rúmlega 30% allra slíkra rýma undanförnum árum, t.d. 624 árið 2003. Ef tekið er tillit til þeirra skortir talsvert upp á að nógu mörg rými séu til fyrir elsta aldurshópinn. Hjúkrunarrýmum í landinu fjölgaði þó um 54 umfram áætlun árin 2002–2004 en mismikið eftir landshlutum.”

Sjá nánar á vef Ríkisendurskoðunar:

http://www.rikisend.is/files/skyrslur_2005/aldradir_thjonusta.pdf

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta