Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á Náttúrustofuþingi á Húsavík

Hr. fundarstjóri og fundarmenn.

Á árinu 2002 voru gerðar breytingar á lögum um Náttúrfræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60/1992 sem vörðuðu starfsemi náttúrustofa. Markmiðið með þessum breytingum var m.a. að styrkja sveitastjórnarstigið í framkvæmd náttúruverndarmála. Með lögunum var ábyrgð á rekstri náttúrustofa alfarið færð til þeirra sveitarfélaga sem gert hafa samning við umhverfisráðherra um rekstur stofanna. Ríkissjóður skal hins vegar styðja rekstur náttúrustofa með árlegu framlagi sínu enda leggi stofurnar fram ákveðið framlag á móti. Þannig höfðu breytingar á rekstri stofanna ekki áhrif á fjárframlag ríkisins til þeirra og hefur það aukist frá því lögin tóku gildi árið 2002. Einnig var með lögunum tilgreint með skýrari hætti hver skyldu vera verkefni náttúrustofa.

Eitt af nýmælum laganna er það að gera skuli samning milli umhverfisráðherra og sveitarfélaga um rekstur náttúrustofa eins og áður segir. Í lok árs 2002 voru undirritaðir sex slíkir samningar, við Náttúrustofu Vesturlands, Náttúrustofu Vestfjarða, Náttúrustofu Reykjaness, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Suðurlands og Náttúrustofu Austurlands. Í mars 2004 bættist svo við sjöunda náttúrustofan þegar undirritaður var samningur við Náttúrustofu Norðausturlands. Í þessum samningum er kveðið á hlutverk og skyldur náttúrustofa og umhverfisráðuneytisins varðandi starfsemi þeirra. Þessir samningar eru mjög mikilvægir fyrir báða aðila, enda setja þeir ramma um starfsemi stofanna og veita ákveðið aðhald til að tryggja að starfsemi þeirra verði jafn öflug og verið hefur.

Mikilvægt er að umhverfisráðuneytið fylgist vel með starfsemi náttúrustofa, og hafi yfirsýn yfir þau verkefni sem Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa falið þeim. Í samstarfssamningnum er kveðið á um samstarf ráðuneytisins við náttúrustofur þar sem farið er yfir slík verkefni. Fyrsti samstarfsfundurinn var haldinn í nóvember 2003 en gert er ráð fyrir að þessir fundir séu haldnir á tveggja ára fresti.

Í lögunum er mælt fyrir um samstarf náttúrustofa og Náttúrufræðistofnunar Íslands og hefur það verið með þeim hætti að forstöðumenn náttúrustofa sitja ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar hafa stofurnar gert grein fyrir starfsemi sinni. Á ársfundi árið 2003 var ákveðið að setja á fót samstarfsnefnd Náttúrufræðistofnunar Íslands og stofanna til að styrkja samstarfið. Nefndin ákvað á fundi sínum vorið 2004 að leggja áherslu á að styrkja þau samstarfsverkefni sem fyrir voru, svo sem vöktun rjúpnastofnsins, sem allar stofurnar koma að nema náttúrustofa Suðurlands.

Margvísleg samstarfsverkefni eru og hafa verið milli náttúrustofa og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nefna má rannsóknir á erninum í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands og Náttúrustofu Vestfjarða, vöktun flórgoða við Náttúrustofu Norðausturlands, rannsóknir á fuglum í Skagafirði við Náttúrustofu Norðvesturlands, rannsóknir á skriðuföllum við Náttúrustofu Norðurlands vestra, margvíslegar rannsóknir á fuglum, sérstaklega gæsum og gróðurathuganir við Náttúrustofu Austurlands. Nú er í farvatninu samstarf við Náttúrustofu Vesturlands um minkarannsóknir.

Mikilvægt er að samræma störf stofanna og Náttúrufræðistofnunar til að ná sem mestri skilvirkni í náttúrurannsóknum og til að nýta vel það ríkisfé sem stofurnar nota til þessara rannsókna.

Samráð og samstarf Umhverfisstofnunar og náttúrustofanna hefur verið með þeim hætti að stofurnar hafa verið boðnar árlega á fundi Umhverfisstofnunar með náttúruverndarnefndum sveitarfélaganna. Umhverfisstofnun hefur leitað til stofanna með ýmis verkefni og þeirra stærst er samningur við náttúrustofu Norðausturlands um verndaráætlun fyrir Mývatn sem nú er verið að vinna. Ýmis önnur verkefni hafa verið unnin með náttúrustofum svo sem vegna friðlýsingar Gerpissvæðis og Vestmannaeyja og vegna náttúruverndaráætlunar. Umhverfisstofnun telur mjög mikilvægt að vinna með stofunum og telur að aðkoma þeirra hjálpi mjög til að koma málum áfram.

Af framansögðu er ljóst að náttúrustofur gegna mikilvægu hlutverki hvað varðar náttúrurannsóknir og framkvæmd náttúruverndar í samstarfi við stofnanir umhverfisráðuneytisins á þessu sviði. Það hefur hins vegar valdið vonbrigðum að eingöngu þau sveitarfélög sem hýsa náttúrustofur standa undir rekstri þeirra og bera þar með fulla ábyrgð á honum. Vonir voru bundnar við að þau sveitarfélög sem eru á starfssvæði náttúrustofanna kæmu einnig að rekstrinum með viðbótarframlögum og skyrktu enn frekar þessa mikilvægu starfsemi. Ég hvet sveitarstjórnarmenn til að taka þau mál til alvarlegrar skoðunar.

Ýmislegt fleira mætti nefna en ég læt hér staðar numið og hlakka til að sitja þing ykkar og taka þátt í umfjöllun um þau áhugaverðu mál sem hér eru á dagskrá.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta