Viðurkenning fjármálaráðuneytisins fyrir lokaverkefni á meistarastigi í hagfræði eða viðskiptafræði haustið 2005
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 20/2005
Fjármálaráðuneytið hefur um nokkurra ára skeið veitt viðurkenningu vegna lokaverkefnis á meistarastigi í hagfræði eða viðskiptafræði. Viðurkenningarnar í ár eru veittar fyrir verkefni sem unnin eru á skólaárinu 2004/2005. Skilyrði fyrir viðurkenningu er að viðfangsefnið sé á sviði efnahags- eða fjármála tengt hinu opinbera. Veittar eru tvær viðurkenningar í ár, að fjárhæð 250.000 krónur hvor um sig.
Fjármálaráðuneytið hefur, að tillögu dómnefndar, ákveðið að viðurkenningu hljóti þau Harpa Guðnadóttir sem stundaði meistaranám í hagfræði við Háskóla Íslands og Guðmundur V. Friðjónsson sem stundaði meistaranám í viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann í Árósum.
Lokaverkefni Hörpu Guðnadóttur fjallar um hagstjórn þar sem reynt er að svara spurningum sem snerta verðbólgumarkmið peningastjórnunar. Efnistök og framsetning ritgerðarinnar eru skýr og markviss. Aðferðarfræði og ályktanir sem eru dregnar í ritgerðinni sýna hlutlæga nálgun og trúverðugleika. Í heildstæðu mati ber ritgerðin augljósan vott um vönduð og öguð vinnubrögð höfundar.
Meistararitgerð Guðmundar V. Friðjónssonar fjallar um hagkvæmni myntsvæða þar sem gerður er samanburður milli landa í því samhengi. Framsetning ritgerðarinnar er til fyrirmyndar og efnistök skýr. Niðurstöður eru í góðu samræmi við aðferðafræðina og gætt er jafnvægis í ályktunum út frá þeim. Á heildina litið dregur höfundur upp glögga mynd af viðfangsefninu sem varpar ljósi á stöðu Norðurlandanna gagnvart evrópska myntsamstarfinu, EMU.
Fjármálaráðuneytinu, 4. nóvember 2005